Jón Gnarr lýsir áhyggjum af framtíð innlendrar dagskrárgerðar

Jón Gnarr. (Mynd: RÚV)
Jón Gnarr. (Mynd: RÚV)

Jón Gnarr, framkvæmdastjóri dagskrársviðs 365 miðla, tjáir sig á Fésbókarsíðu sinni í dag um Netflix og framtíðarhorfur í innlendri dagskrárgerð. Hann leggur útaf umfjöllun Kjarnans sem kallar opnun Netflix fagnaðarefni fyrir neytendur og lýsir áhyggjum sínum af framtíð innlendrar dagskrárgerðar.

Jón segir:

Ég veit ekki alveg hversu mikið „fagnaðarefni“ þetta er fyrir neytendur.

Ég er að vinna hjá einum af þessum fyrirtækjum sem minnst er á í greininni. Þar á bæ er verið að búa til aragrúa af íslensku sjónvarpsefni. Og einsog ég hef margoft sagt þá er ég að því af því að mig langar til að leggja mitt af mörkum til að efla og styrkja innlenda framleiðslu og dagskrá.

Við höfum sett á fót sérstaka handritsþróunardeild sem á að einbeita sér að þessu. Ég hef nýlokið við að skrifa 10 þátta sjónvarpsseríu sem heitir Borgarstjórinn. Við hjá 365 erum líka að vinna að mjög metnaðarfullri leikinni þáttaröð í samstarfi við Reykjavík Stúdíós. Auk þessa er ég að skoða möguleika á að gera sérstakan jólaþátt af Næturvaktinni og áramótaþátt líka.

Það er nokkuð flókið að gera íslenska sjónvarpsþætti. Sérstaklega með tilliti til fjármögnunar. Kvikmyndasjóður Íslands leggur enga sérstaklega áherslu á sjónvarp. Þeir styrkja aðallega kvikmyndir og sjónvarp mætir eiginlega afgangi.

Ég tel að framlag mitt til innlendrar sjónvarpsþáttagerðar hafi skipt miklu máli, ekki bara sem afþreying heldur fyrst og fremst sem framlag til íslenskrar tungu og menningar og sem heimild um okkar samtíma. Mig langar að finna leiðir til að halda því áfram, að búa til sjónvarp fyrir Íslendinga á íslensku. Og mér finnst það sérstaklega mikilvægt í ljósi þess hvernig sjónvarp er að breytast í heiminum. Ef fyrirtæki einsog 365 og fleiri hætta að sjá sér fært að standa í því að framleiða íslenskts sjónvarpsefni þá er það hreint ekkert fagnaðarefni. Það er bara synd.

Færsla Jóns vakti mikla athygli og viðbrögð, síðar um daginn birti hann aðra færslu þar sem segir:

Varðandi póstinn minn fyrr í dag og viðbrögð við honum þá langar mig að árétta nokkur atriði.

Ég elska sjónvarp og hef alla tíð gert. Ég er þakklátur fyrir öll þau tækifæri sem ég hef fengið til að vinna við sjónvarpsþáttagerð, bæði sem höfundur og leikari. Þetta hefur verið með því skemmtilegra sem ég hef gert um ævina.

Ég er enginn talsmaður eða varðmaður línulegrar sjónvarpsdagskrár. Það hefur verið nauðsynlegt fyrir okkur, sem vinnum að sjónvarpsþáttagerð á Íslandi, að fá einhverja sjónvarpsstöð til samstarfs og svo sýna þættina okkar. Í mínu tilfelli hefur það yfirleitt verið Stöð 2. Þar gerði ég Fóstbræður á sínum tíma og svo Vaktirnar. Og til þess þurfa þessi fyrirtæki yfirleitt að sjá sér einhvern hag í því að taka þátt í svona samstarfi.

Ég óttast það að þessi þróun verði til þess að það verði erfiðara að þróa og framleiða íslenskt efni, sérstaklega leikið. Það er aðallega vegna þess að þessir stóru erlendu aðilar eru svo fjársterkir og valdamiklir að það er erfitt að keppa við þá. Og þetta er ekki af eigingjörnum ástæðum eða vegna þess að ég er að vinna hjá tilteknu fyrirtæki. Sjónvarpsstöðvar í dag standa á svipuðum tímamótum og vídeóleigur fyrir nokkrum árum.

Ég er ekkert desperat. Og ég er ekki að væla neitt, bara að vekja athygli á þessu. Ég útiloka ekki að þetta verði allt í lagi og eitthvað frábært gerist í tækni- og bissnessheimum sem færi okkur meira af vönduðu, innlendu efni. En ég tel líklegra og lógískara að slíkt fari minnkandi og þeir íslensku þættir sem gerðir verða verði gerðir þannig að þeir höfði meira til útlenskra áhorfenda en íslenskra og missi þannig soldið inntak sitt og verða ekki eins lókal.

Mér finnst þetta skipta máli öðrum finnst það ekki. Ég hef í mörg ár verið að skrifa þætti sem ég kalla „Gamli maðurinn“ og eru um gamlan mann sem býr í þjónustuíbúð í Reykjavík og ævintýri hans. Ég efast um að Netflix eða Amazon hafi áhuga á að framleiða þá. En það er ekkert mál. Ég get alveg gert eitthvað annað. En fólk fer þá á mis við gamla manninn. Mér finnst það synd, því hann er frábær 🙂

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR