Eyþór Arnalds: Viðbótarframlög skýri skuldalækkun

Eyþór Arnalds, formaður starfshóps menntamálaráðherra um RÚV.

Það er ekki vegna rekstrarafgangs sem skuldir Ríkisútvarpsins hafa lækkað, segir formaður starfshóps menntamálaráðherra sem fór yfir rekstur og fjárhag RÚV.

RÚV greinir frá:

Eyþór Arnalds var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 og ræddi skýrslu starfshóps um RÚV. Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri, gagnrýndi skýrsluhöfunda í gær fyrir að uppfæra aðeins rekstrartölur miðað við núverandi verðgildi en ekki skuldir. Það leiddi til þess að skuldir virtust hafa hækkað þegar raunin væri sú að þær hefðu lækkað um sextán prósent að raungildi.

Þetta sagði Eyþór að væri misskilningur hjá Páli. „Venjan er sú að þegar það er verið að fara yfir efnahagsreikninga þá birtirðu niðurstöðutölur úr ársreikningi hvers árs og það er það sem við gerum í kaflanum um skuldir. Í rekstrarreikningnum förum við yfir reksturinn á núvirtu verðlagi eins og venjan er.“

Viðbótarframlag en ekki rekstrarafgangur

Eyþór sagði það villandi hjá Páli að segja að skuldir hefðu lækkað að raunvirði um það sama og næmi kostnaðarlækkun á tímabilinu. „Afkoman að meðaltali er 800 milljónir í tap og því hefur reksturinn ekki getað borgað niður skuldir.“

Eyþór sagði að skuldirnar hefðu lækkað vegna viðbótarframlaga frá ríkinu og tiltók að skuld hefði verið breytt í hlutafé. Hann var þá spurður hvort hægt væri að tala um það sem viðbótarframlag að rangir útreikningar á fjárlögum hefðu verið leiðréttir á fjáraukalögum, það væri stór hluti þeirrar upphæðar sem talað væri um sem viðbótarframlag. „Ég sá að Páll var einmitt farinn að tala um villur í fjárlögum. Ég ætla ekki að ræða um hvað var villa í fjárlögum.“

Eyþór sagði ýmsar ástæður fyrir skuldum Ríkisútvarpsins, meðal annars samning við Vodafone um dreifikerfi, halla af rekstri og skuldabréf vegna lífeyrisskuldbindinga. Á móti því skuldabréfi fengi RÚV húsnæði sitt frítt en greiddi ekki leigu af því eins og aðrar ríkisstofnanir.

Eyþór sagði tæknina sem samið hefði verið um við Vodafone vegna dreifingar vera takmarkaða. Núorðið vildi fólk geta stöðvað sýningu en það væri ekki í boði með þeirri tækni sem dreifikerfið byggði á.

Sjá nánar hér: Viðbótarframlög skýri skuldalækkun

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR