Gagnrýni | Slow West ***1/2 (RIFF 2015)

slow westVestrinn er líklega elsta grein (e. genre) kvikmyndasögunnar, allt frá því The Great Train Robbery kom út árið 1903 á meðan villta vestrið var að einhverju leyti enn við lýði (vestrinn sem bíómyndagrein var þó ekki skilgreindur fyrr en 1912). Þetta er grein sem inniheldur mörg skýr einkenni: Kúrekar og indíánar, hestar og búfénaður, menn setjast við varðeld, bankarán og fleira. Vinsældir vestrans hafa dafnað og dvínað og hann hefur sífellt verið að endurskapa sjálfan sig, vestrar snérust um hetjur og karlmennsku lengi vel en svo komu svokallaður endurreisnarvestrar (revisionist westerns) eins og McCabe and Mrs. Miller og Unforgiven sem grófu undan mýtólógíunni og sýndu villta vestrið sem ljótan og kaldan heim og seinna meir höfum við t.d. fengið Thailenskan vestra! En hversu mikið getur ein grein endurskapað sjálfa sig? Hefur vestrinn gert og sagt allt sem hann getur?

[column col=“1/2″][message_box title=“Slow West“ color=“gray“] [usr 3,5] Leikstjóri: John Maclean
Aðalhlutverk: Kodi Smit-McPhee, Michael Fassbender, Ben Mendelsohn
Bretland, Nýja Sjáland, 2015
[/message_box][/column]Slow West eða Hægt í vestur eins og RIFF þýðir hana, er ein nýjasta afurð þessarar greinar og gerir enn eina tilraun til að brjóta upp formið, og það má segja að það takist bara ágætlega. Myndin segir frá ungum Skota að nafni Jay Cavendish (Kodi-Smith McPhee) sem kemur til vesturins í leit að ástkonu sinni. Á leiðinni kynnist hann einfara nokkrum (Michael Fassbender), sögumanni myndarinnar, sem býðst til að koma honum gegnið óbyggðirnar heilum á húfi gegn vægri borgun. Á leiðinni hitta þeir fyrir ýmsa kynlega kvisti og við lærum meira um fortíð Jay hins unga.

Þetta er að mörgu leyti klassísk saga í grunninn en þó er margt óvenjulegt þegar nánar er að gáð, t.d. hafa í raun ekki margir vestrar verið með nýbökuðum innflytjendum í aðalhlutverkum en þó virðist vera einhver breyting þessa dagana á því þar sem við fengum líka myndina Salvation í fyrra sem fjallaði um dana í villta vestrinu. En það sem gerir Hægt í vestur þó helst sérstaka er húmorinn og frásagnarmátinn, myndin grefur sífellt undan klisjunum: Hetjur verða heiglar, heiglar verða hetjur, menn skjóta konur og konur skjóta menn og menn deyja fyrr eða seinna en maður myndi halda. Ekki allir svartir menn eru þrælar og ekki allir indíánar eru villimenn.

Hægt í vestur er ekki beint raunsæisvestri heldur er hún mjög svo stílíseruð. Þetta er frumraun leikstjórans John Maclean sem á sér fortíð í myndlist og tónlist (eflaust kannast einhverjir við hljómsveitina The Beta Band sem Maclean var meðlimur í) en hann sýnir þarna að kvikmyndalistin fer honum vel, hann hefur gott vald á miðlinum og leikur sér skemmtilega með myndmálið. Þetta er sjónrænt glæsileg mynd, full af flottum römmum og ólíkt mörgum vestrum er hún æði litrík á köflum.

[quote align=“center“ color=“#999999″]En hvað er myndin að segja um villta vestrið? Í þessum vestraheimi eru konur ekki varnarlausar (það sjást fáar konur í þessari mynd en þær nota allar byssur) og indíánar eru sýndir bæði sem villimenn og heiðursmenn. [/quote] En hvað er myndin að segja um villta vestrið? Í þessum vestraheimi eru konur ekki varnarlausar (það sjást fáar konur í þessari mynd en þær nota allar byssur) og indíánar eru sýndir bæði sem villimenn og heiðursmenn. Í myndinni birtast líka t.d. þýskur fræðimaður með mjög svo nútimalega sýn á hvernig farið er með indíána/innfædda Ameríkana (hann heitir líka Werner og minnir hreimur hans og talsmáti óneitanlega á Íslandsvininn Werner Herzog) og hetjan okkar heldur sjálf föstum tökum í bók sem hann lítur á sem sinn leiðarvísi gegnum þennan heim, auk þess sem hann talar frönsku. Hetjan er menningarviti sem telur sig geta séð um sig sjálfur en á í raun ekki heima í þessum heimi. Þetta er villta vestrið séð gegnum nútímasíu.

Hægt í vestur er að flestu leyti hin fínasta ræma en þó skortir hana eitthvað til að hún geti talist vera frábær og liggur gallinn helst í persónum myndarinnar, þær eru einfaldlega ekkert sérlega áhugaverðar. Aðalpersónan Jay hefur skemmtileg einkenni en endar engu að síður á að vera litlaus og lítt eftirminnilegur karakter, aðallega því túlkun McPhee’s er ekki nógu sterk. Fassbender gerir það sem hann getur en persóna nær því ekki að vera meira en einhver týpa og meiraðsegja hinn áreiðanlegi Ben Mendelsohn er nokkuð frá sínu besta.

Það sem heldur myndinni uppi er fyrst og fremst stíllinn og húmorinn, gott dæmi um það er atriði þar sem Jay horfir sárþjáður af byssusári upp á ástina sína kyssa annan mann í sömu andrá og salt hellist yfir hann og fer beint í sárið! Myndin minnir að einhverju leyti á Dead Man e. Jim Jarmusch, báðar fjalla um hálfglórulausa menn sem lenda í sérkennilegum ævintýrum í villta vestrinu sem eru ólík flestum vestrum sem maður hefur séð. Þessi mynd hefur þó alfarið sinn eigin stíl sem er ákveðið afrek út af fyrir sig.

Hægt í vestur er flott, fyndin og sniðug mynd en persónurnar í henni eru ekki sérlega djúpar og hún er fyrst og fremst að leika sér með hefðina frekar en að segja eitthvað mjög merkilegt um hana, hún skilur því ekkert rosalega mikið eftir sig þegar hún er búin. Samt sem áður er þetta kærkomin viðbót í vestraflóruna og vel þess virði að sjá.

Atli Sigurjónsson
Atli Sigurjónsson
Atli Sigurjónsson er mikill kvikmyndaunnandi og er með meistaragráðu í samanburðarbókmenntum. Hann stefnir á að gerast frægur kvikmyndaleikstjóri einn góðan veðurdag.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR