Kitla og plakat fyrir “Reykjavík” opinberuð

Atli Rafn Sigurðarson og Nanna Kristín Magnúsdóttir fara með aðalhlutverkin, Hring og Elsu, í Reykjavík eftir Ásgrím Sverrisson.
Atli Rafn Sigurðarson og Nanna Kristín Magnúsdóttir fara með aðalhlutverkin í Reykjavík eftir Ásgrím Sverrisson.

Kvikmyndin Reykjavík eftir Ásgrím Sverrisson er væntanleg í kvikmyndahús í byrjun næsta árs. Kitla fyrir myndina er kynnt í dag ásamt kitluplakati.

Þetta er dramatísk kómedía  um sambönd og samskipti sem gerist í samtímanum. Samband Hrings við Elsu hangir á bláþræði. Þau og ung dóttir þeirra hafa fundið draumahúsið sitt en plönin fara úr skorðum og Elsa vill endurskoða allt. Meðan Hringur reynir að átta sig á hvað fór úrskeiðis og hvort þau geti borið saman brotin, flækist hann inní óuppgerð fortíðarmál Tolla besta vinar síns með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Reykjavik TEASER Poster FINAL SMALLMeð helstu hlutverk fara Atli Rafn Sigurðarson, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Guðmundur Ingi Þorvaldsson og Gríma Kristjánsdóttir.

Í öðrum hlutverkum eru meðal annars Hjörtur Jóhann Jónsson, Vala Kristín Eiríksdóttir, Margrét Friðriksdóttir, Stefán Hallur Stefánsson, Laufey Elíasdóttir, Björn Thors, Lilja Nótt Þórarinsdóttir, Alice Olivia Clarke, Friðrik Friðriksson og Inga María Eyjólfsdóttir.

Reykjavík er fyrsta kvikmynd Ásgríms Sverrissonar í fullri lengd en hann hefur gert fjölda stuttmynda auk heimildamynda fyrir sjónvarp ásamt því að hafa fjallað um kvikmyndir í sjónvarpi, útvarpi, vef- og prentmiðlum um árabil. Hann nam kvikmyndaleikstjórn við The National Film and Television School í Bretlandi.

Néstor Calvo er kvikmyndatökumaður myndarinnar en þeir Ásgrímur voru samskóla í fyrrnefndum kvikmyndaskóla. Sunna Gunnlaugs gerir tónlist, Agnar Friðbertsson og Huldar Freyr Arnarson hanna hljóð og Ragnar Vald Ragnarsson klippir.

Ingvar Þórðarson og Júlíus Kemp framleiða myndina fyrir hönd Kvikmyndafélags Íslands. Meðframleiðendur eru Sölmundur Ísak, Daníel Gylfason, Dagur B. Reynisson, Atli Rafn Sigurðarson, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Gríma Kristjánsdóttir og Néstor Calvo.

Rétt er að taka fram að leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar er einnig ritstjóri Klapptrés.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR