DV um „Albatross“: Náttúrukommúnistar og klósettbrandarar

Valur Gunnarsson gefur Albatross þrjár stjörnur í umsögn sinni í DV og segir meðal annars: „Allt er búið í haginn fyrir vel heppnaða sumargrínmynd og ná sumir þræðirnir að lifna við en aðrir ekki.“

Valur segir ennfremur:

Saga þessi fær vænan skammt af velvilja strax í upphafi. Það er sumar í Bolungarvík. Okkar maður er nýkominn úr bænum til að vinna á golfvelli. Kærastan vinnur í næsta bæ við, á Ísafirði. Yfirmaður (Pálmi Gestsson) hatar Ísfirðinga. Kærastan hættir strax með hetjunni prúðu og skilur hann eftir fastan á Vestfjörðum yfir sumarið. Heim kemst hann ekki, því hann verður að safna fyrir skólagjöldum, en með hækkandi skráningargjöldum er kominn til sögunnar nýr plottpunktur í íslenskar ungmennamyndir.

Og síðar segir hann:

Um tíma virðist allt stefna í að hér sé ófleygur fugl á ferð, en öllum að óvörum tekst Albatrossinum að hefja sig til flugs á lokasprettinum. Baráttan við kríurnar í anda Saving Private Ryan er satt að segja með þeim hugmyndaríkari í íslenskum gamanmyndum undanfarin ár. Aðrar kvikmyndavísanir í vestfirsku umhverfi sóma sér ágætlega, svo sem „High Noon“ á milli golfkónganna tveggja.

Og það gleður mann að sjá Albatrossinn loksins hreyfast fyrir eigin afli, því mér skilst að þetta sé fyrsta myndin hérlendis sem er alfarið hópfjármögnuð. Það er gaman að vita að slíkt sé hægt, enda er myndin ekki síðri en margar sem hafa hlotið opinbera styrkveitingu. Klippingin er hugmyndarík og persónur komast ágætlega áfram á sjarmanum, þó að ljóst sé að Pálmi sé langreyndastur. Textinn er á tímum hnyttinn en á köflum kannski full hversdagslegur, þó eftirminnilegar línur leynist inn á milli.

Sjá nánar hér: Náttúrukommúnistar og klósettbrandarar – DV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR