HeimFréttirEnn vinnur "Hvalfjörður" verðlaun

Enn vinnur „Hvalfjörður“ verðlaun

-

Guðmundur Arnar veitir aðalverðlaunum Brest stuttmyndahátíðarinnar viðtöku fyrir Ártún.
Guðmundur Arnar veitir aðalverðlaunum Brest stuttmyndahátíðarinnar viðtöku fyrir Ártún.

Hvalfjörður, hin margverðlaunaða stuttmynd Guðmundar Arnars Guðmundssonar, er enn að vinna verðlaun á alþjóðlegum hátíðum og eru þau nú orðin 18 talsins.

Myndin var nýlega valin stuttmynd ársins á „El Corto del Año“, alþjóðlegri kvikmyndahátíð dreifingarfyrirtækisins Promofest í Madrid ásamt dönsku/finnsku stuttmyndinni Listen. Verðlaununum fylgir dreifingarsamningur fyrir yfir 1000 kvikmyndahátíðir um allan heim. Þar sem sigurvegararnir voru tveir að þessu sinni mun Hvalfjörður hljóta dreifingu á u.þ.b. 500 hátíðir víðsvegar um heiminn.

Hvalfjörður, sem var frumsýnd á Cannes kvikmyndahátíðinni árið 2013 og hlaut þar sérstök dómnefndarverðlaun, vann einnig nýlega til aðalverðlauna á International Short and Independent Film Festival í Dhaka, Bangladesh, sem fór fram rétt fyrir jólin 2014.

Nýjustu alþjóðlegu verðlaun­in komu svo í gær­kvöldi á kvik­mynda­hátíðinni Ku­st­endorf In­ternati­onal Film and Music Festi­val í Serbíu. Kvik­mynda­tökumaður Hval­fjarðar, Gunn­ar Auðunn Jó­hanns­son, veitti verðlaun­un­um sem nefn­ast Brons eggið, viðtöku og hljóp þar í skarðið fyr­ir leik­stjór­ann Guðmund Arn­ar Guðmunds­son.

Myndin hefur tekið þátt í gífurlegum fjölda kvikmyndahátíða, yfir 100 talsins, og unnið til samtals 18 alþjóðlegra verðlauna á þeim ásamt því að hafa verið valin stuttmynd ársins á Edduverðlaununum 2014. Auk þess var Hvalfjörður tilnefnd til evrópsku kvikmyndaverðlaunanna fyrir bestu stuttmynd á síðasta ári.

Þess má geta að nýjustu stuttmynd Guðmundar, sem ber heitið Ártún, gengur vel við að feta í fótspor Hvalfjarðar, en hún var nýverið valin til keppni á þrítugustu alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Santa Barbara sem er ein af stærstu hátíðum Bandaríkjanna. Ártún var frumsýnd á RIFF undir lok september á síðasta ári og hefur nú þegar verið valin á hátt í 20 hátíðir og unnið til tvennra stórra verðlauna; aðalverðlaun Brest í Frakklandi og Gullna Skjöldinn í Chicago, Bandaríkjunum.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

ÞAÐ NÝJASTA Á KLAPPTRÉ

Fáðu nýjasta efnið á Klapptré í pósthólfið þitt tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum.

Þú getur afskráð þig hvenær sem er.

NÝJUSTU FÆRSLUR