Enn vinnur „Hvalfjörður“ verðlaun

Guðmundur Arnar veitir aðalverðlaunum Brest stuttmyndahátíðarinnar viðtöku fyrir Ártún.
Guðmundur Arnar veitir aðalverðlaunum Brest stuttmyndahátíðarinnar viðtöku fyrir Ártún.

Hvalfjörður, hin margverðlaunaða stuttmynd Guðmundar Arnars Guðmundssonar, er enn að vinna verðlaun á alþjóðlegum hátíðum og eru þau nú orðin 18 talsins.

Myndin var nýlega valin stuttmynd ársins á „El Corto del Año“, alþjóðlegri kvikmyndahátíð dreifingarfyrirtækisins Promofest í Madrid ásamt dönsku/finnsku stuttmyndinni Listen. Verðlaununum fylgir dreifingarsamningur fyrir yfir 1000 kvikmyndahátíðir um allan heim. Þar sem sigurvegararnir voru tveir að þessu sinni mun Hvalfjörður hljóta dreifingu á u.þ.b. 500 hátíðir víðsvegar um heiminn.

Hvalfjörður, sem var frumsýnd á Cannes kvikmyndahátíðinni árið 2013 og hlaut þar sérstök dómnefndarverðlaun, vann einnig nýlega til aðalverðlauna á International Short and Independent Film Festival í Dhaka, Bangladesh, sem fór fram rétt fyrir jólin 2014.

Nýjustu alþjóðlegu verðlaun­in komu svo í gær­kvöldi á kvik­mynda­hátíðinni Ku­st­endorf In­ternati­onal Film and Music Festi­val í Serbíu. Kvik­mynda­tökumaður Hval­fjarðar, Gunn­ar Auðunn Jó­hanns­son, veitti verðlaun­un­um sem nefn­ast Brons eggið, viðtöku og hljóp þar í skarðið fyr­ir leik­stjór­ann Guðmund Arn­ar Guðmunds­son.

Myndin hefur tekið þátt í gífurlegum fjölda kvikmyndahátíða, yfir 100 talsins, og unnið til samtals 18 alþjóðlegra verðlauna á þeim ásamt því að hafa verið valin stuttmynd ársins á Edduverðlaununum 2014. Auk þess var Hvalfjörður tilnefnd til evrópsku kvikmyndaverðlaunanna fyrir bestu stuttmynd á síðasta ári.

Þess má geta að nýjustu stuttmynd Guðmundar, sem ber heitið Ártún, gengur vel við að feta í fótspor Hvalfjarðar, en hún var nýverið valin til keppni á þrítugustu alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Santa Barbara sem er ein af stærstu hátíðum Bandaríkjanna. Ártún var frumsýnd á RIFF undir lok september á síðasta ári og hefur nú þegar verið valin á hátt í 20 hátíðir og unnið til tvennra stórra verðlauna; aðalverðlaun Brest í Frakklandi og Gullna Skjöldinn í Chicago, Bandaríkjunum.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR