Mikil veltuaukning milli ára hjá Sagafilm

sagafilm-logo-grár-grunnurVelta Sagafilm jókst um næstum 150% milli áranna 2012 og 2013 vegna mikilla umsvifa í erlendum verkefnum. Hagnaður minnkar þó um þriðjung á sama tímabili.

Þetta kemur fram á Vísi:

Velta kvikmyndaframleiðslufyrirtækisins Sagafilm jókst úr 1.077 milljónum króna árið 2012 í 2.485 milljónir króna árið 2013, samkvæmt ársreikningi félagsins. Þetta er aukning um næstum 150 prósent á milli ára.

Guðný Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins, segir að veltuaukningin stafi af því að verkefni fyrir erlenda framleiðendur hafi verið mörg á árinu 2013, en verkefnastaðan sé ólík á milli ára. Þessi gríðarlega veltuaukning skilaði þó ekki auknum hagnaði fyrirtækisins. Hagnaðurinn var 66 milljónir króna árið 2013 en 96 milljónir árið á undan.

„Þetta er rosalega misjafnt eftir ári, bara eftir því hvaða verkefni eru í gangi. En við vorum með stórt bandarískt verkefni sem heitir Interstellar og er núna í bíóhúsunum. Við vorum að þjónusta það á Íslandi. Svo vorum við með stórt verkefni sem heitir Deadsnow sem var fyrir norskt framleiðslufyrirtæki. Það er mynd sem var sýnd hér á landi fyrr á árinu. Síðan vorum við með kanadískt verkefni sem hét Pawn Sacrifice og fjallaði um Bobby Fischer. Við vorum líka með rússneskt verkefni sem hét Calculator og er að fara að koma í kvikmyndahús í Rússlandi núna á næstu mánuðum,“ segir Guðný.

Tekjur fyrirtækisins vegna Interstellar námu um 700 milljónum og tekjur af Deadsnow voru 600 milljónir. „Þannig að veltan samanstendur rosalega mikið af þessum erlendu verkefnum,“ segir Guðný. Hún segir að minna hafi verið um erlend verkefni í ár, en íslensku verkefnin hafi verið þeim mun fleiri.

Guðný bendir á að Ísland hafi verið mjög vinsælt að undanförnu þegar kemur að þjónustu við erlenda kvikmyndagerðarmenn. Þetta megi sjá á veltutölum við iðnaðinn í heild. „En það sorglega í þessu er að á meðan erlendu verkefnin eru að vaxa svona mikið er niðurskurður í Kvikmyndasjóði. Sem þýðir að það er ekki jafn mikil framleiðsla á íslensku efni,“ segir hún.

Sjá hér: Vísir – Velta Sagafilm jókst um tæp 150 prósent.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR