spot_img

Gagnrýni | Afinn

Sigurður Sigurjónsson er afinn.
Sigurður Sigurjónsson er afinn.
[column col=”1/2″][message_box title=”Afinn” color=”gray”] [usr 2] Leikstjóri: Bjarni Haukur Þórsson
Handrit: Bjarni Haukur Þórsson, Ólafur Egill Egilsson
Aðalhlutverk: Sigurður Sigurjónsson, Sigrún Edda Björnsdóttir, Þorsteinn Bachmann, Tinna Sverrisdóttir, Steinþór Hróar Steinþórsson
Ísland, 2014
[/message_box][/column]Afinn segir frá Guðjóni Herbertssyni, manni sem er að komast á ellilífeyrisaldur. Hann er ekki alveg nógu sáttur með það og líkar t.d. illa við að vera kallaður “gamli” af tengdasyni sínum. Guðjón er á krossgötum í lífi sínu og fer í gegnum ákveðið ferli við að finna sjálfan sig, en þessar breytingar hafa vissar afleiðingar með sér í för sem umturna lífi hans og skapa erfiðleika milli hans og ástvina sinna.

Það er ekki mikið “plott” í afanum heldur er hún frekar karakterstúdía. Þetta er mynd um mann sem er að finna sjálfan sig upp á nýtt. Miðað við markaðssetninguna, aðalleikarana og leikstjórann myndi maður halda að hér væri á ferðinni ærslafull gamanmynd en svo er víst ekki. Afinn er eiginlega meira dramamynd en gamanmynd og mætti kalla hana drama með gamansömu ívafi, þetta er meira mynd um mann í tilvistarkreppu heldur en mynd um gamlan kjána sem skilur ekki nútímann. En í raun er eins og myndin geti ekki ákveðið hvað hún vilji vera og þar liggur líklega helsti galli hennar.

Að blanda saman gamni og drama er ekki auðvelt viðfangsefni og ákveðið jafnvægi sem þarf að viðhalda. Afinn nær illa að viðhalda þessu jafnvægi þar sem grínið er máttlaust og gamaldags og líður oft mjög langt á milli brandaranna. Sömuleiðis er mestöll dramatíkin í myndinni hálf flöt og myndin nær aldrei almennilegu risi. Myndin á greinilega að vera lágstemmd en það háir henni, svona mynd hefði líklega virkað betur með aðeins meiri látum. Hún líður áfram án þess að mikið gerist og það sem gerist er of kraftlítið þannig að myndin er einfaldlega langdregin.

Myndin er þó, rétt svo, áhorfanleg og er það að mestu leyti leikurunum að þakka sem standa sig flestir með ágætum. Lítið er um hin svokallaða leikhúsleik sem hefur hrjáð íslenskar myndir gegnum tíðina og virðist sá stíll smám saman vera að hverfa úr íslensku bíói. Sigurður Sigurjónsson er fínn í aðalhlutverkinu og nær vel að túlka þann lífsleiða sem hrjáir Guðjón. Þorsteinn Bachmann er líka skemmtilegur að vanda og sömuleiðis er Steinþór Hróar (Steindi Jr.) nokkuð fyndinn (aðallega svipbrigðin hans) og báðir ná að moða aðeins úr því litla sem þeir fá að gera. Sigrún Edda Björnsdóttir er líka ágæt sem amman en þó örlar fyrir smá leikhústöktum hjá henni. Yfir höfuð hafa leikararnir samt einfaldlega ekki úr nógu miklu að moða og fá því lítil tækifæri til að láta ljós sitt virkilega skína.

Natni við smáatriði er oft það sem gerir myndir en hér virðist lítið hafa verið hugsað út í þau. T.d. má nefna að í hvert skipti sem Guðjón talar um vinnuna sína virðist eins og enginn hugsun hafi verið lögð út í það og hann segir bara eitthvað sem hljómar “verkfræðingslega” fyrir leikmönnum. Það er í raun frekar óljóst hvað hann gerir nákvæmlega.

Hegðun afans er heldur ekki mjög trúverðug eða sannfærandi og vandræðagangur hans þegar kemur að tali um málefni eins og holdris og hægðartregðu mjög klisjukennd. Viagra brandarar voru kannski fyndnir fyrir 15 árum en í dag er þetta bara dauðþreytt. Það mætti kannski líta svo á að gamaldags húmorinn í myndinni endurspegli aðalpersónuna sem í einhvers konar tímaskekkju en það er samt hæpið. Svo skilur hann heldur ekki facebook, er sá brandari ekki orðinn frekar þreyttur?

Kvikmyndagerðinni í Afanum er best lýst sem viðunandi. Það er ekkert sem sker sig úr við hana, hvorki á slæman né góðan hátt. Þessi mynd er gerð af mönnum sem vita hvað þeir eru að gera en um leið vantar allan karakter og stíl og fyrir vikið er myndin óttalega þurr og bragðlítil. Það á eiginlega við um myndina í heild sinni líka. Það eru ágætis pælingar í henni og áhugavert hvað hún er að reyna að gera en framkvæmdin er máttlaus og óspennandi.

Atli Sigurjónsson
Atli Sigurjónsson
Atli Sigurjónsson er mikill kvikmyndaunnandi og er með meistaragráðu í samanburðarbókmenntum. Hann stefnir á að gerast frægur kvikmyndaleikstjóri einn góðan veðurdag.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR