Spennandi haustdagskrá í Bíó Paradís

Winter's Sleep eftir tyrkneska meistarann Nuri Bilge Ceylan hlaut Gullpálmann á síðustu Cannes hátíð og er meðal þeirra mynda sem Bíó Paradís sýnir í haust.
Winter’s Sleep eftir tyrkneska meistarann Nuri Bilge Ceylan hlaut Gullpálmann á síðustu Cannes hátíð og er meðal þeirra mynda sem Bíó Paradís sýnir í haust.

Á haustdagskrá Bíó Paradísar gætir margra spennandi grasa. Þar á meðal eru margar myndir sem hafa slegið í gegn og unnið til verðlauna á öllum helstu kvikmyndahátíðum heims á undanförnum mánuðum.

OKTÓBER

TURIST
Drama, 2014 Leikstjóri: Ruben Östlund
Sænsk fjölskylda fer í skíðaferð til frönsku Alpanna, sólin skín en þegar þau setjast dag einn niður til að snæða hádegisverð snýr snófljóð öllu á hvolf. Ebba kallar á eiginmann sinn Tomas í örvæntingu sinni, og reynir að verja börn þeirra sem einnig sitja við borðhaldið. Tomas hleypur fyrir lífi sínu og skilur fjölskyldu sína eftir í örskammann tíma. En snjófljóðið náði ekki að veitingastaðnum, en afleiðingarnar af atvikinu munu eiga sér djúpstæða merkingu fyrir samband Tomas og Ebbu, en hjónaband þeirra hangir á bláþræði í kjöflarið. Tomas reynir eftir bestu getu að endurheimta stöðu sína innan fjölskyldunnar en myndin er grátbrosleg kómedía um hlutverk karlmannsins í fjölskyldumynstri nútímans. Turist í leikstjórn Ruben Östlund var tilnefnd í Un Certain Regard flokknum á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2014, og vann til verðlauna dómnefndar í sama flokki. Myndin er tilnefnd til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna sem og að hún var valinn sem framlag Svíþjóðar til Óskarsverðlaunanna.

THE TRIBE
Drama, 2014 Leikstjóri: Myroslav Slaboshpytskiy
The Tribe (Plemya), fjallar um heyrnalausan ungling sem fer í heimavistarvistaskóla fyrir heyrnalausa og gengst þar inn í villt samfélag, The Tribe. Hann verður ástfanginn af einum meðlimi hópsins og fellur smátt og smátt í þá gryfju að brjóta allar þær óskrifuðu reglur sem hópurinn hefur sett sér. Myndin er fyrsta kvikmynd í fullri lengd í leikstjórn Myroslav Slaboshpytskiy en hún sópaði að sér verðlaunum á gagnrýnendaviku kvikmyndahátíðarinnar í Cannes og hafa gagnrýnendur víðsvegar um heim staðið á öndinni yfir þeirri stórbrotnu kvikmyndagerð sem hér er um að ræða. Myndin er án tals.

A STREETCAR NAMED DESIRE
Lifandi uppfærsla, 2014. Leikstjóri: Benedict Andrews
Þann 9. október frumsýnir Bíó Paradís nýja uppfærslu af tímalausu meistaraverki Tennessee Williams, A streetcar named Desire. Er hér um að ræða uppfærslu Young Vic leikhússins á verkinu í leikstjórn hins margverðlaunaða leikstjóra Benedict Andrews. Andrews býr í Reykjavík og setti upp Lé konung og Machbeth í Þjóðleikhúsinu og hefur hann fengið sex Grímuverðlaun fyrir þær uppsetningar. A streetcar named Desire var frumsýnt á dögunum í London og vakti uppfærslan mikla athygli og fékk gríðarlega góðar viðtökur gagnrýnenda. Í aðalhlutverkum eru Gillian Anderson úr X-Files sem Blance DuBois, Ben Foster (Lone Survivor, Kill Your Darlings) sem Stanley og Vanessa Kirby sem Stella. Atli Rafn Sigurðarson mun spjalla við leikstjórann, Benedict Andrews um verkið að sýningu lokinni. Aðrar sýningar verða 11. október, 12. otkóber, 23. október, 26. október og 1. nóvember.

FRANKENSTEIN
Lifandi uppfærsla, 2011. Leikstjóri: Danny Boyle
Uppfærslan mun fara í sýningar í Bíó Paradís í október, en henni er leikstýrt af Danny Boyle (Trainspotting, Slumdog Millionaire), með Benedict Cumberbatch (12 Years A Slave, Star Trek: Into Darkness) og Jonny Lee Miller (Trainspotting, Mansfield Park) í aðalhlutverkum. Hún sló í gegn í National Theatre árið 2011 og nú er komið að því að gestir Bíó Paradís geta notið hennar. Verkið er byggt á sígildri hryllingsögu Mary Shelly sem flestir þekkja. Ekki missa af einni umtöluðustu leiksýningu af uppfærslu Frankenstein! Um tvær útgáfur af leikritinu er um að ræða. Í fyrri útgáfunni sem sýnd er 16, 18 og 19. október leikur Benedict Cumberbatch Creature og Jonny Lee Miller Frankenstein. Í seinni útgáfunni sem sýnd er 25. og 30. október og 2. nóvermber snúast hlutverkin við, Jonny Lee Miller leikur Creature og Benedict Cuberbatch leikur Frankenstein.

LEVIATHAN 
Drama, 2014. Leikstjóri: Andrey Zvyagintsev
Myndin er nútímaleg frásögn af biblíusögu, í Rússlandi nútímans. Kolia býr í litlum bæ nálægt Barentshafi í norður Rússlandi, og rekur þar sitt eigið bílaverkstæði. Verkstæðið er við hliðina á húsinu sem hann býr í með Lilyu, ungri eiginkonu sinni og syni hennar af fyrra hjónabandi Romka. Bæjarstjórinn reynir hvað hann getur að gera Kolia eignarlausann, fyrst með því að reyna kaupa allar eigur hans, en Kolia hefur ekki áhuga á peningum né því að missa allt, fegurð landsins sem hefur umlukt hann síðan hann fæddist. Hann grípur því til þeirra ráða að fá besta vin sinn, lögfræðinginn Dmitri, með sér í lið en sú ákvörðun á eftir að hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Myndin var sýnd í keppnisflokki Palme d´Or á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2014. Andrey Zvyagintsev og Oleg Negin unnu verðlaun fyrir besta handrit á sömu hátíð. Myndin er framlag Rússlands til Óskarsverðlaunanna. Myndin verður frumsýnd á Rússneskri kvikmyndahátíð sem fram fer í október í Bíó Paradís.

CLOUDS OF SILS MARIA
Drama, 2014. Leikstjóri: Olivier Assayas
Á hátindi alþjóðlegs ferils síns er Maria Enders (Juliette Binoche) beðin um að koma fram í leikriti sem kom henni á kortið tuttugu árum áður. Þá lék hún hlutverk Sigrid, ungrar konu sem á endanum verður valdur þess að yfirmaður hennar Helena, fremur sjálfsmorð. En þar sem nú, tuttugu árum síðar, er hún beðin um að leika hlutverk Helenu, og heldur af stað til að æfa fyrir hlutverkið í Ölpunum, á afskekktu svæði í Sils Maria ásamt aðstoðarkonu sinni (Kristen Stewart). Maria Enders er ekki eingöngu að æfa fyrir hlutverk sitt fyrir verkið, heldur glímir hún við sjálfa sig, bæði sem manneskju og sem leikkonu þar sem hún stendur frammi fyrir því að sér yngri leikkona eigi von á því að landa hlutverki Sigrid. Myndin var tilnefnd til Palme d´Or aðallverðlauna Cannes 2014, tilnefnd sem besta alþjóðlega myndin á kvikmyndahátíðinni í Munich og Juliette Binoche vann sem besta leikkona í aðalhlutverki International Cinephile Society verðlaunanna 2014.

20.000 DAYS ON EARTH
Heimilidamynd,2014. Leikstjórar: Iain Forsyth, Jane Pollard
Spenna, átök og kaldur raunveruleiki mætast í „uppspunnum“ 24 klukkutímum tónlistarmannsins og poppgoðsins Nicks Cave. Myndin gengur langt í nærgöngulli lýsingu sinni á átökum listamannsins við sjálfan sig og list sína og leitar svara við heimspekilegum spurningum um tilveru okkar um leið og hún skoðar mátt skapandi hugsunar. Myndin vann fyrir bestu leikstjórn og klippingu á Sundance kvikmyndahátíðinni sem og að hún var tilnefnd til Grand Jury Prize verðlaunanna sem besta heimildamyndin. Hún vann FIPRESCI verðlaunin á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Istanbúl, og tilnefnd sem besta kvikmynd ársins á kvikmyndahátíðinni í Sidney.

NÓVEMBER

SALÓME
Heimildamynd, 2014 Leikstjóri: Yrsa Roca Fannberg
Salóme í leikstjórn Yrsu Roca Fannberg var valin besta norræna heimildamyndin á Nordisk Panorama stutt- og heimildamyndahátíðinni í Malmö. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk heimildamynd hlýtur þessi verðlaun á hátíðinni. Salóme er sérstaklega persónuleg heimildamynd sem fjallar um Salóme Herdísi Fannberg veflistakonu, sem er jafnframt móðir leikstjórans. Salóme hætti að búa til list til að geta sinnt lífinu. Núna er það listin sem heldur henni lifandi. Nordisk Panorama er fyrsta erlenda kvikmyndahátíðin sem Salóme tekur þátt á, en áður hafði hún verið sýnd á Skjaldborg heimildamyndahátíðinni á Patreksfirði, þar sem hún hlaut áhorfendaverðlaun sem besta mynd hátíðarinnar. Salóme hefur því unnið til verðlauna á báðum hátíðunum sem hún hefur tekið þátt á. Næst á dagskrá fyrir Salóme eru hátíðarþátttökur á Szczecin European Film Festival í Szczecin, Póllandi í lok september og á FICCali kvikmyndahátíðinni í Cali, Kólumbíu, þar sem hún mun taka þátt í keppni, einnig í lok september. Þá mun Salóme taka þátt á IFFEST Document.Art. í Búkarest, Rúmeníu, um miðjan október. Yrsa Roca Fannberg leikstýrir og skrifar handritið að Salóme, auk þess að stjórna kvikmyndatöku og vera einn af klippurum myndarinnar ásamt Stefaníu Thors, Federico Delpero Bejar og Núria Esquerra. Helga Rakel Rafnsdóttir framleiðir myndina fyrir hönd Skarkala og meðframleiðendur eru Emelie Carlsson Gras og Marta Andreu. Tónlist myndarinnar samdi Ólöf Arnalds.

WHITE GOD
Drama, 2014. Leikstjóri: Kornél Mundruczó
Stórbrotin mynd sem fjallar um hina þrettán ára gömlu Lili, sem berst fyrir því að fá að hafa halda hundinn sinn Hagen hjá sér, en eftir að hún fer til föðurs síns breytist veröld hennar allverulega og Hagen hverfur úr lífi hennar. Myndin tæpir á því þema að sýna fram á samband þessara tveggja dýrategunda, hunds og manns, þar sem Lili og Hagen reyna að finna hvort annað en gríðarlegt magn villihunda eru á götunni eða í hundaskýlum þar sem þeir berjast fyrir tilvist sinni. Hagen kemur sér upp hundagengi þar sem þeir rísa upp gegn mannkyninu þar sem þeirra eina takmark er að hefna grimmilega. Lili er sú eina sem getur komið að málum í þessu skugglega stríði hunda og manna, en myndinni hefur verið lýst sem dystópískri spennumynd þar sem pólitískri og menningarlegri spennu í Evrópu er lýst með meistarlegum hætti. Myndin vann flokkinn Un Certain Regard á nýliðinni kvikmyndahátíð Cannes 2014, sem og að hundarnir unni verðlaun gagnrýnenda fyrir frammistöðu sína í myndinni. Myndin er framlag Ungverjalands til Óskarsverðlaunanna 2015.

GIRLHOOD
Drama, 2014. Leikstjóri: Céline Sciamma
Marieme gengur illa í skólanum og upplifir sig bælda í fjölskylduaðstæðum og er þreytt á strákunum í hverfinu sínu. En hún hefur nýtt líf þegar hún vingast við þrjár stúlkur sem henni eru frekar að skapi, hún breytir nafni sínu, klæðaburði og hættir í skólanum til þess að vera samþykkt betur inn í hópinn. Myndin hlaut stórkostlegar viðtökur á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2014, þar sem hún var sýnd í flokknum Director´s Fortnight. Myndin er tilnefnd til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna árið 2014.

JIMMY´S HALL
Drama, 2014 Leikstjóri: Ken Loach
Jimmy Gralton byggði danshús árið 1921 á afskekktum vegamótum í Írlandi, þar sem ungt fólk gat komið og lært, skipst á skoðunum og látið sig dreyma, en fyrst og fremst til þess að dansa og hafa það skemmtilegt. Þá var það talin synd, en Jimmy´s Hall fagnar anda hinnar frjálsu hugsunar. Danshúsið var pólítískur minnisvarði um þessa tíma, en myndin var valin í keppni hinna virtu Palme d´Or verðlauna á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2014.

DESEMBER

HUMAN CAPITAL
Drama, 2014 Leikstjóri: Paolo Virzì
Lake Como, Ítalía. Jeppi ekur á hjólreiðamann á jólunum. Hvað gerðist þetta kvöld? Hvernig breytir slysið örlögum hinnar ríku Barnaschi fjölskyldu og hinnar fátæku Rovelli fjölskyldu sem er á barmi gjaldþrots? Ítalska myndin Human Capital er byggð á samnefndri bók eftir Stephen Amidon. Hún hefur hlotið fjölmörg verðlaun, m.a. fyrir bestu leikkonu í aðalhlutverki en Valeria Bruni hreppti þau á kvikmyndahátíðinni í Tribeca árið 2014. Myndin er tilnefnd til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna árið 2014. Myndin er framlag Ítalíu til Óskarsverðlaunanna 2015.

MOMMY
Drama, 2014 Leikstjóri: Xavier Dolan
Móðir og ekkja á fullt í fangi með að sjá um 15 ára son sinn sem á erfið unglingsár með ADHD. Þau reyna að lifa af mánaðarmót eftir mánaðarmót. Hin nýja nágrannakona þeirra Kyla, kemur til sögunnar sem býður fram hjálp sína. Í sameiningu reyna þau að finna jafnvægi og þar með er framtíðin bjartari. Mommy er kanadísk kvikmynd í leikstjórn Xavier Dolan. Myndin var valin í aðalkeppni Palme d´Or á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2014 þar sem hún vann verðlaun dómnefndar. Myndin er framlag Kanada til Óskarsverðlaunanna.

WINTER SLEEP
Drama, 2014. Leikstjóri: Nuri Bilge Ceylan
Leikarinn Aydin, sem nú rekur lítið hótel í miðri Anatólíu ásamt ungri eiginkonu sinni, á í stormasömu hjónabandi. Að vetri til þegar snjó tekur að falla, verður hótelið einhverskonar athvarf en samtímis rými sem erfitt er að flýja í einveruna. Myndin gerist í Anatólíu og rannsaka þann gríðarlega ójöfnuð á milli ríkra og fátækra, á milli þeirra valdamiklu og valdalitlu í Tyrklandi. Myndin vann aðalverðlaun kvikmyndahátíðarinnar í Cannes og FIPRESCI verðlaunin 2014. Myndin er framlag Tyrklands til Óskarsverðlaunanna.

Auk alls þessa munu Svartir Sunnudagar snúa aftur, boðið verður upp á Rússneska kvikmyndahátíð, spænska kvikmyndadaga og kvikmyndahátíð sem haldin verður í tilefni af 25 ára afmæli Berlínarmúrsins. Um alla þessa viðburði verður nánar tilkynnt síðar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR