Auglýst eftir efndum og endurnýjun á stefnumörkun í íslenskri kvikmyndamenningu

fridrik-hilmarÁrið 2006 var gert samkomulag við þáverandi ríkisstjórn um stefnumörkun til að efla íslenska kvikmyndagerð 2007-2010. Aðilar voru sammála um að Kvikmyndasjóður þyrfti að vera 700 m króna til að geta ræktað menningarhlutverk sitt við framleiðslu á íslensku kvikmyndaefni og var sett upp áætlun hvernig því markmiði yrði náð á samningstímabilinu.

raunframlög kvikmyndasjóður 2006-2015700 milljónir á verðlagi dagsins í dag samsvara tæplega 1.200 milljónum. Framlög í Kvikmyndasjóð á þeim tíma sem síðan er liðinn hafa aldrei náð markmiðum samkomulagsins, þótt vissulega hafi þau farið nálægt því árið 2013. Öll hin árin er munurinn sláandi og samanlagt á árunum 2010-2014 vantar 2,6 milljarða til að þetta markmið náist. Í fjárlögum fyrir árið 2014 var framlag til Kvikmyndasjóð skorið niður um hartnær 40% milli ára, eða um 400 m króna.

Árið 2010 Kvikmyndasjóður líka skorinn niður á milli ára um hartnær 30%. Þá var verið að vinna með fjárlagagat upp á 240 milljarða króna. Í slíku árferði var ekki um auðugan garð að gresja og kvikmynda­gerðinni var stillt upp við vegg þegar núverandi samkomu­lag var endurnýjað. Í samkomulaginu sem gildir 2011-2015 var áætlað að framlag ársins 2015 myndi að vera 700 m króna.

Á núvirði er sú tala 812 milljónir króna og því vantar ennþá nær 100 milljónir króna í áætlað framlag 2015 til að ná framlagi sem var í kreppusamningnum frá árslokum 2010. Á sama tíma eru tekjur ríkissjóðs áætlaðar að raunvirði 17,7% hærri en 2010 á verðlagi í ágúst 2014.

Af þessum tölum er fátt annað hægt að álykta annað en að vilji stjórnvalda standi ekki til þess að hér sé framleitt íslenskt kvikmyndaefni af því magni og gæðum sem þó var víðtæk sátt um árið 2006. Þrátt fyrir betri stöðu ríkissjóðs í dag og hærri framlög til mennta- og menningarmála en árið 2006, virðast stjórnvöld ekki hafa áhuga á að efna samninga frá 2006 og 2010. Íslensk kvikmyndagerð er sú eina í heiminum sem talar íslensku. Innlend kvikmyndagerð endurspeglar þá menningu og samfélag sem við lifum í og sú eina í heiminum sem endurspeglar íslenskt þjóðfélag. Og þetta er staðan, þrátt fyrir að fyrir löngu sé sýnt fram á að öll opinber fjárfesting í innlendri kvikmyndamenningu skili sér margfalt til baka í ríkiskassann í krónum talið.

þróun samkeppnissjóða 2009-2015Kvikmyndasjóður er samkeppnis­sjóður. Rétt eins og tveir aðrir slíkir, varð hann fyrir miklum niðurskurði á síðustu árum. Kvikmynda­fram­leiðendur fagna því að stjórnvöld hafi séð að sér með frekari niðurskurð á tveimur af þessum mikil­vægu samkeppnis­sjóðum en finnst á sama tíma undarlegt að þriðji samkeppnis­sjóðurinn sé skilinn eftir. Þegar þróun þessara sjóða er skoðuð á 6 ára tímabili sést greinilega hvernig Kvikmyndasjóður hefur verið skilinn eftir. Árið 2009 eru Tækniþróunarsjóður og Kvikmyndasjóður nær jafnir að stærð, en árið 2015 stefnir í að sá síðarnefndi sé einungis um helmingur af stærð hinum fyrri, eða 1.373 m kr. á móti 725 m. Þarna munar því um 650 m á framlagi til samkeppnissjóða sem voru nær jafn stórir árið 2009.

Af framsögðu er kannski ekkert undarlegt að undirritaðir auglýsi eftir efndum og endurnýjun frá ríkisstjórn Íslands á stefnumörkun í íslenskri kvikmyndamenningu.

Hilmar Sigurðsson formaður SÍK, Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda

Friðrik Þór Friðriksson formaður SKL, Samtaka kvikmyndaleikstjóra

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR