spot_img

Gagnrýni | París norðursins

Björn Thors í París norðursins.
Björn Thors í París norðursins.
[column col=“1/2″][message_box title=“París norðursins“ color=“gray“] [usr 4] Leikstjóri: Hafsteinn Gunnar Sigurðsson
Handrit: Huldar Breiðfjörð
Aðalhlutverk: Björn Thors, Helgi Björnsson, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Sigurður Skúlason, Jón Páll Eyjólfsson, Haki Lorenzen.
Lengd: 95 mín.
Ísland, 2014
[/message_box][/column]Björn Thors hleypur í gegnum vestfirskan smábæ undir dúndrandi tónlist Prins Póló og svo koma stafirnir á tjaldið: París norðursins. Hann er svo varla búinn að ná andanum þegar honum er sagt upp – og er of andstuttur til þess að hreyfa mótbárum.

Tja, kannski líka of tilfinningalega heftur. Hafsteinn Gunnar heldur hér áfram að rannsaka sambönd á milli tilfinningalega heftra karlmanna – og raunar eru snertifletirnir við frumraun hans í fullri lengd, Á annan veg, ansi margir. Í báðum myndum erum við með aðalpersónu í dauðadæmdu fjarsambandi við gamla kærustu – og eini munurinn er að síminn hefur tekið við af sendibréfunum. Svo er fjölmennið öllu meira á Flateyri heldur en á vegum úti – þannig að í staðinn fyrir brómans á milli tveggja karlmanna fáum við að fylgjast með Huga (Birni Thors) eiga einlægar stundir með fjórum karlmönnum af þremur kynslóðum. Hann sækir raunar AA fundi með tveimur þeirra og í vissum skilningi er myndin öll ákveðin þerapía fyrir aðalpersónuna sem virðist hafa brotlent illilega fyrir sunnan og notar Flateyri sem flugbraut til að koma sér aftur á flug.

Þessi líkindi við Á annan veg eru þó alls ekki endilega ókostur. Hafsteinn er einfaldlega að halda áfram að rannsaka þessa hluti á stærra sviði – og þó er sviðið ennþá ansi lítið, íbúafjöldinn hefur hækkað úr 2 í 150 og með þessu áframhaldi kemst hann varla í borgina fyrr en eftir 2-3 myndir. Þetta er raunar ekkert ólíkt því ferðalagi sem Á annan veg hefur farið um heiminn, því þótt ameríska endurgerðin segði í meginatriðum sömu söguna þá gjörbreyttist hún við að koma í nýtt umhverfi og við það að eignast nýja fortíð, enda amerískt eitís alls ekki það sama og íslenskt eitís.

En af hverju París? Á blaðamannafundi (á Karlovy Vary hátíðinni) kom fram að annars vegar væri verið að vísa í ástarþríhyrning þar sem feðgarnir Hugi og Veigar (Helgi Björnsson) koma við sögu og eins þá staðreynd að Flateyri er fjölþjóðlegur bær þar sem tælenskir, pólskir og íslenskir íbúar búa saman í sátt og samlyndi. En hér komum við kannski að helstu veikleikum myndarinnar; bæði hefði mátt gefa útlendingum aðeins stærra hlutverk en að afgreiða í sjoppum og veitingastöðum og þá mætti aðalkvenhlutverkið vera burðugra. Nanna Kristín skilar hlutverki Ernu vel – en við vitum sáralítið um þessa konu og hún er um margt óleyst ráðgáta við lok myndarinnar.

En þetta er kraftmikil, launfyndin og manneskjuleg mynd með frábærri tónlist Prins Póló í bakgrunninum. Björn Thors og Helgi Björns eru skemmtilegir feðgar og Sigurður Skúlason á það til að stela senunni á þriggja manna AA-fundunum sem hann stjórnar – og tekur þar þátt með tveimur fyrrverandi tengdasonum sínum, svona til þess að undirstrika enn frekar smæð þessarar kuldalegu Parísar.

(Þessi umsögn Ásgeirs var skrifuð á kvikmyndahátíðinni í Karlovy Vary og birtist upphaflega á Klapptré þann 10. júlí s.l., hér ögn stytt).

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR