RIFF í Kópavogi að hluta

Una Björg Einarsdóttir, Hrönn Marinósdóttir, Karen E. Halldórsdóttir og Hjálmar Hjálmarsson við undirritun samstarfssamnings RIFF og Kópavogsbæjar í dag.
Una Björg Einarsdóttir, Hrönn Marinósdóttir, Karen E. Halldórsdóttir og Hjálmar Hjálmarsson við undirritun samstarfssamnings RIFF og Kópavogsbæjar í dag.

Dagskrá RIFF – Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík fer að hluta fram í menningarhúsum Kópavogsbæjar í haust. Samkomulag um samstarf Listhúss Kópavogsbæjar, lista- og menningarráðs og RIFF var undirritað í Kópavogi í dag. Framlag lista- og menningarsjóðs til hátíðarinnar nemur 3,5 milljónum króna.

Þetta kemur fram á vef RIFF.

Kvikmyndir fyrir börn verða sýndar í Bókasafni Kópavogs, auk þess sem viðburðir tengdir kvikmyndum verða á fleiri stöðum á torfunni, m.a. í Salnum og Tónlistarhúsi Kópavogs. Þá verða í boði námskeið í kvikmyndagerð fyrir ungt fólk. Dagskráin í Kópavogi er unnin í góðu samstarfi forsvarsmanna RIFF, lista- og menningarráðs og forstöðumanna menningarhúsa bæjarins. Dagskráin verður auglýst nánar er nær dregur.

Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF, segist afar þakklát og ánægð með samvinnu við Kópavogsbæ.„Kópavogsbær hefur löngum verið þekktur fyrir öflugt menningar- og listalíf, og það er einlæg von mín og trú að kvikmyndalistin og Kópavogur muni auðga hvort annað á komandi árum. Kópavogsbúar geta nú fengið margt af því besta sem er að gerast í kvikmyndaheiminum í næsta nágrenni við sig, og hver veit nema erlendir leikstjórar finni nýjan innblástur þar.“

Karen E. Halldórsdóttir, formaður lista- og menningarráðs segir líflegt menningarstarf fara fram í menningarhúsum Kópavogsbæjar allan ársins hring, „en með samstarfi okkar við RIFF bætum við enn við þá flóru. Með því gefum við Kópavogsbúum og öðrum gestum ekki einungis færi á að njóta alþjóðlegrar kvikmyndagerðar heldur drögum við jafnframt fram þá frábæru aðstöðu til menningar og lista, sem finna má á menningartorfu bæjarins.“

Ellefta RIFF hátíðin mun standa frá 25.september – 5. október næstkomandi.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR