Gagnrýni | Dúfa sat á grein og hugleiddi tilveruna (RIFF 2014)

En Duva satt på en gren och funderade på tillvaron[column col=“1/2″][message_box title=“En duva satt på en gren och funderade på tillvaron“ color=“gray“] [usr 4] Leikstjóri: Roy Andersson
Handrit: Roy Anderssson
Aðalhlutverk: Holger Andersson, Nils Westblom
Svíþjóð, 2014
[/message_box][/column]Sænski leikstjórinn Roy Andersson hefur átt langan og gæfuríkan feril sem kvikmyndagerðarmaður, hann er 71. árs og hefur gert kvikmyndir í næstum hálfa öld. Samt hefur hann aðeins gert handfylli af myndum í fullri lengd og er nýjasta myndin hans, En Duva satt på en gren och funderade på tillvaron, sjötta myndin hans (vert er að geta að hún vann nýverið gullna ljónið á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum). Hann hefur líka gert örfáar stuttmyndir og nokkrar heimildarmyndir en það sem hann er líklega þekktastur fyrir og gert mest eru auglýsingarnar hans sem teljast í hundruðum.

En þetta nýja verk hans er lokahlutinn í þríleik og fylgir á eftir Sånger från andra våningen og Du levande. Allar þessar myndir í þríleiknum hafa engan eiginlegan söguþráð heldur samanstanda af röð af senum sem eru hver og einn eitt, statískt skot. Stundum er farið aftur og aftur til sömu karakteranna en flestar senurnar hafa lítið að gera með restina nema á þematískan máta.

Aðalþemað hérna er dauðinn en það má einnig líta á þetta sem verk um manneskjuna í heild. Það mætti kalla þetta tómhyggjulega íhugun um tilgang lífsins sjálfs, en það mætti líka einfaldlega segja að myndin sé bara um alls ekki neitt.

Ef titilinn hljómar tilgerðarlega þá er það líklega viljandi. Það er óbeint vísað til hans sem hluta af ljóði eftir barn sem segir e.t.v. ansi mikið um myndina. Allar þessar litlu sögur eru um fólk sem eru, á einhvern hátt, einfeldningar sem eru blind fyrir umheiminum og umhverfi sínu, eins og lítil börn. Allir hérna hugsa fyrst og fremst um sjálfa sig og gefa lítið fyrir tilfinningar annarra. Einnig eru allir með hvíta málningu í andlitinu, eins og þau séu lík. Við erum öll vitlaus börn og öll að deyja er það sem þessi mynd gæti verið að segja. Eða kannski ekki.

Í það minnsta er En duva… glæsileg útlits og oft bráðfyndin (t.d. má nefna senuna þar sem maður einn deyr úr hjartaáfalli á farþegaskipi en starfsfólkið virðist hafa mestar áhyggjur af því hvað eigi að gera við matinn sem hann var að borga fyrir). Andersson er samt svolítið að endurtaka sig hérna, en þar sem þessi mynd er hluti af þríleik má líka líta svo á að hann sé einfaldlega að halda áfram með það sem hann var að gera í hinum tveim myndunum. Myndin er engu að síður örlítið síðri en hinar tvær. Sanger fra andra vaningen var gríðarlega fersk á sínum tíma en með hverri mynd í þríleiknum hefur þessi stíll hans misst örlítið af ferskleika sínum og En duva… er ekki alveg jafn fyndin og sniðug og hinar tvær, en sniðug og fyndin samt sem áður. Það er margt í gangi í þessari mynd og oft ekki alltaf ljóst hvert Andersson er að fara en þetta virðist vera ein af þessum myndum sem dýpkast við hvert áhorf.

Atli Sigurjónsson
Atli Sigurjónsson
Atli Sigurjónsson er mikill kvikmyndaunnandi og er með meistaragráðu í samanburðarbókmenntum. Hann stefnir á að gerast frægur kvikmyndaleikstjóri einn góðan veðurdag.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR