“Harry og Heimir: Morð eru til alls fyrst” í bíó 11. apríl

harry-og-heimirHarrý og Heimir: Morð eru til alls fyrst! er frumsýnd í kvöld en almennar sýningar hefjast föstudaginn 11. apríl.

Þetta mun vera saga um vináttu, fórnfýsi, tryggð, frosnar bunur og óheyrilega veðurfræði. Aðstandur segja myndina svo stóra “að í samanburði við hana verða allar aðrar myndir eins og passamyndir.” Byggt er á sagnaheiminum um einkaspæjarana Harry og Heimi sem skapaðir voru af Karli Ágústi Úlfssyni, Sigurði Sigurjónssyni og Erni Árnasyni og hafa birst áður í útvarpi, sjónvarpi og leikhúsi.

Þokkadísin Díana Klein leitar ásjár hjá einkaspæjurunum Harrý og Heimi, þar sem faðir hennar, sem er veðurathugunarmaður á Regingnípu, virðist hafa horfið sporlaust. Harrý og Heimir leggja í leiðangur upp á hálendið og tekst að stöðva svívirðilegt samsæri danskra skíðaáhugamanna um að stela íslenska hálendinu og flytja það úr landi.

Aðalhlutverk eru í höndum Karls Ágústs Úlfssonar, Sigurðar Sigurjónssonar, Arnar Árnasonar og Svandísar Dóru Einarsdóttur. Að auki koma svið sögu Stefán Karl Stefánsson, Ólafur Darri Ólafsson, Kjartan Guðjónsson og Þröstur Leó. Leikstjórn er í höndum Braga Þórs Hinrikssonar. Þórir Snær Sigurjónsson og Skúli Malmquist hjá Zik Zak kvikmyndum framleiða. Sena dreifir.

Athugasemdir

álit

Tengt efni