Hegelskur módelsmiður upphefur þrjár Hollywood kvikmyndir

Hið Hegelska ánægjumódel.
Hið Hegelska ánægjumódel.

Brynjar Jóhannesson skrifar á Starafugl um þrjár Hollywood myndir og leggur fram það sem hann kallar “Hegelskt módel” til að útskýra ánægju sína af þessum myndum.

Brynjar segir meðal annars:

Smekkur manna er misjafn, vissulega, en sumt er drasl. Þessi staðhæfing hvílir á fínni línu sem þolir lítið tog, og hún virðist búa yfir tvöfeldni. Jújú, ég er alveg lýðræðissinni og allt það en sama hversu margir horfa á Ísland Got Talent þá er það rusl. Þessi afstaða hefur verið varin á ýmsan hátt. Sumir líkja þessu við ruslfæði, maður nennir ekki alltaf að elda eitthvað almennilegt og þá er þægilegt að grípa í eitthvað sem maður skammast sín svo fyrir (ég vil reyndar halda því fram að það sé skömmin sjálf sem sé ávanabindandi).

Sumir koma sér undan. Velja afstæðishyggjuna; allir hafa jú sinn smekk. En það er meinið, þetta er undankomuaðferð, tilraun til hlutleysis um eina svið samfélagsins þar sem má enn vera súbjektívur. Það er til eitthvað sem heitir góður smekkur og vondur smekkur, enda viðurkennir fólk oft í vitna viðurvist að það hafi slæman smekk, talar um „guilty pleasures“, þorir ekki annað en að skammast sín fyrir það að njóta. Eflaust er hægt að skoða þetta á marxískum nótum, kannski er það bara vonda menningar- og menntaelítan sem hefur skammast svo í Hollywoodlepjandi glæpasagnaaðdáendum að þeir hafa innlimað skömmina og eru farnir að skammast sín. Ég hef samúð með slíkri greiningu en dett alltaf í tvöfeldnina, í eitt stórt EN (misjafn er smekkur manna EN þú ert smekklaus, allir hafa rétt á sínum smekk EN þú ættir bara að halda kjafti).

Sjá nánar hér: Hegelskur módelsmiður upphefur þrjár Hollywood kvikmyndir | Starafugl.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR