Gagnrýni | Tore dansar (Tore tanzt)

Julius Feldmeier í Tore tanzt.
Julius Feldmeier í Tore tanzt.
[column col=“1/2″][message_box title=“BÍÓ PARADÍS | Tore dansar (Tore tanzt)“ color=“gray“] [usr 4] Leikstjóri: Katrin Gebbe
Handrit: Katrin Gebbe
Aðalhlutverk: Julius Feldmeier, Sascha Alexander Gersak, Annika Kuhl og Swantje Kohlhof
Lengd: 110 mín.
Þýskaland, 2013
SÝND Á ÞÝSKUM KVIKMYNDADÖGUM 2014 og áfram
[/message_box][/column]Tore er heittrúaður unglingspiltur. Hann er líka munaðarlaus og flogaveikur. Þetta hljómar kannski eins og klassísk nútímauppfærsla einhverrar Biblíusögunnar frá popúlískum kristniboðasamtökum – en það er áður en við ræðum allan hreinræktaða djöfulskapinn sem Tore kynnist í myndinni.

Fyrir það fyrsta er trúariðkun Tore nokkuð óvenjuleg. Hann tilheyrir Jesúfríkunum – sem trúa á hina helgu bók en þykir nálgun kirkjunnar ansi forn og nálgast trúna á ólíkt pönkaðri nótum. Þetta eru börn Guðs af því enginn annar vill eiga þau, óútskýrðir munaðarleysingjar sem finna styrk í hverjum öðrum sem og föður sem er jafn ósýnilegur og blóðfeðurnir.

Tore er hins vegar frík meðal fríka, á einni skemmtuninni tekur Tore nokkur hefðbundin dansspor áður en hann tekur sinn persónulega angistardans á gólfinu. Tore er nefnilega flogaveikur – en flogin eru að hans sögn leið Guðs til að tala við hann. Hin Jesúfríkin skipta sér lítið af floginu – sem gefur djöflinum sjálfum tækifæri til að skerast í leikinn.

Benno reynist nokkur konar white trash djöfull í mannsmynd – en framan af virðist hann bara grunsamlega hugulsamur félagi Tore. Hann veitir honum húsaskjól í sumarhreysi fjölskyldunnar og fljótlega er Tore orðinn eins og einn af fjölskyldunni.

[quote align=“right“ color=“#999999″] Leikararnir eru svo ofur-hversdagslegir að þeir fengju varla hlutverk í ódýru íslensku raunsæisdrama – sem er skemmtilegt kontrast við afskaplega fallegar landslagstökur.[/quote]Framan af minnir myndin um margt á Nymphomaniac Lars von Triers – eins og von Trier skiptir leikstjórinn Katrin Gebbe myndinni í nokkra kafla og nálgunin á Jesúfríkin er álíka óvænt og nálgun von Triers á kynlífsfíkn. Það er einhver skrítinn taktur sem myndirnar deila – en hins vegar er Nymphomaniac Hollywood-glansmynd í samanburði við Tore tantzt. Leikararnir eru svo ofur-hversdagslegir að þeir fengju varla hlutverk í ódýru íslensku raunsæisdrama – sem er skemmtilegt kontrast við afskaplega fallegar landslagstökur.

Kaflarnir þrír heita „trú“, „ást“ (eða mögulega er „kærleikur“ betri þýðing á liebe hér) og „von“ og myndin snýr að mörgu leyti skemmtilega upp á hugtökin og neyðir áhorfandann til að hugsa þessi klisjukenndu hugtök alveg upp á nýtt.

Varúð: spilliefni (e. spoiler warning)

Þegar djöfullegt eðli Benno fer að koma betur í ljós þá yfirgefur Tore þó ekki fjölskylduna – og ástæðan er einföld: hann er orðinn hrifinn af dóttur Benno. Fyrst þegar djöfulskapur Benno kemur upp á yfirborðið þá fer myndin að minna töluvert á Síðustu freistingu Krists.

Benno spyr merkilegra líkra spurninga um trú Tore og djöfullinn spyr Jesú í mynd Scorsese. Og Tore svarar með því að dansa aftur við Guð. Flogaköstin eru flótti hans frá erfðasyndinni og þrátt fyrir sívaxandi og versnandi andstyggilegheit þá er hann áfram sami hjartahreini glókollurinn og í upphafi myndarinnar. Undir lokin tekur myndin svo óvænt tvist á lokasenu Gaukshreiðursins áður en í ljós kemur að rétt eins og Jesus de Montreal er myndin í raun og veru ákveðin endursögn á Píslarsögunni, þar sem Tore deyr og endurfæðist í lausn annarra.

Sumar guðfræðipælingarnar reynast vissulega ansi óþægilegar og jafnvel vafasamar (eins og ákveðin hommafóbía í einu atriðinu er til marks um) en þar fyrir utan birtir myndin ansi magnaða sýn á hvernig einelti er stundað og fórnarlambinu gert ómögulegt að flýja – og ekki síður hvernig meðvirkni verður til þegar fanturinn ginnir hægt og rólega alla í kringum sig til þess að gerast meðsekir í djöfulskapnum.

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR