Nú seilist ég á svið sem ég hef ekki mikla þekkingu á: Richard Schechner heitir prófessor við Tisch listadeild New York háskóla. Hann er, að því er ég best veit, einn upphafsmanna performansins sem listgreinar en líka, aftur að því er ég best veit, einn hinna fyrstu til að skrifa fræðilega um performans. Yfirleitt er hugtakið þýtt sem gjörningur, en ég hef á tilfinningunni að það orð hafi þrengri merkingu í huga flestra en performans eins og Schechner skrifaði um hann: hugtakið performans, í hans fræðum, nær líka til alls hefðbundins leikhúss, danssýninga, messuhalds og annarra helgisiða, það nær til kennara upp við töflu, og jafnvel til þess að fara út í búð, í það minnsta í byggðum þar sem það er ennþá félagslegt athæfi. Unglingar performera þegar þeir hanga úti í sjoppu, og að setjast niður til kvöldverðar er performans með sínar siðvenjur.
En jafnvel þeir performansar sem er löng hefð fyrir að líta á sem slíka, til dæmis leikhússýningar, ná í greiningu Schechners miklu lengra en sviðsröndin, bæði í tíma og rúmi: performansinn hefst, af hálfu áhorfenda, þegar þeir velja sér föt heima fyrir, aðdragandi hans eða fyrsti þáttur er leiðin að heiman á sýningarstað, að leggja bílnum, að ganga að dyrunum, að standa í röð, afhenda miða, rekast á fólk, finna sæti, bíða. Og aftur, eftir að sýningunni á sviðinu lýkur, heldur performansinn áfram á leiðinni út, aftur heim. Anda inn, anda út.
Þar til á síðustu árum má segja að enn hafi verið einn sviðslistamaður á hverri kvikmyndasýningu: sýningarstjórinn, listamaður í að láta sig hverfa. Að skipta um rúllu á hárréttu augnabliki, þannig að kvikmyndin héldi áfram frá einni filmu til annarrar hnökralaust – er til minimalískari listgrein? Nú er þessi sýningarstjóri farinn frá. Enn hafa tæknimenn einhverja aðkomu að sýningum, það þarf að vanda stillingar á stafrænum búnaði til að græni, blái og rauði geislinn falli áreiðanlega í synk, og nú sem fyrr verður maður aðeins meðvitaður um tæknimennina þegar eitthvað misferst. En þeir þurfa ekki lengur að vaka yfir sýningunni – með stafrænni tækni eru áhorfendur í fyrsta sinn einir í salnum, enginn ósýnilegur andi vakir yfir þeim í bakherbergi til að ganga úr skugga um að allt gangi hnökralaust fyrir sig.
Hið andfélagslega frelsi kvikmyndahúsanna
Strákarnir sem urðu franska nýbylgjan skrifuðu sumir um frelsi kvikmyndahúsanna sem andstæðu leikhúsa. Þetta var þegar kvikmyndahúsin voru enn óformlegri samkomustaðir en þeir eru í dag: í það minnsta í París voru ekki einu sinni fastir sýningartímar, heldur hófst einfaldlega sýning myndar, þú borgaðir þig inn hvenær sem þig bar að garði, og horfðir á myndina rúlla gegnum sýningarvélina, kannski frá miðri mynd til enda, síðan frá byrjun að miðju og jafnvel aftur og aftur, jafn lengi og þig lysti. Þú hvarfst í myrkrið, dvaldir þar jafn lengi og þú vildir, með augun á þessu flökti fyrir framan þig, og þurftir engan að hitta eða ræða við frekar en þú vildir. Frelsi kvikmyndahúsanna var, í samanburði við leikhús, andfélagslegt. Þó að myndirnar gangi ekki lengur í hringi, einn miði gangi aðeins á eina sýningu, þó að enn séu gerð hlé á sýningum á Íslandi, fólk neyðist til að líta hvert framan í annað á miðri sýningu, og kvikmyndahúsin verði í og með samkomustaðir – á meðan leikhúsin hafa færst í hina áttina og það er ekki lengur nauðsynlegt að klæða sig sérstaklega upp fyrir leikhúsferð – þá er þarna enn einhver munur. Enn einhver hátíðleiki við að fara í leikhús, í það minnsta hjá mörgu fólki, og eitthvað hversdagslegra við að fara í bíó. Kannski verður munurinn enginn þegar fólk getur horft á myndir í sömu gæðum heima hjá sér, kannski verður ákvörðunin um að fara í bíó þá bara ákvörðun um að taka þátt í félagslegum performans.
Allt um það, kvikmyndahátíð er auðvitað hámörkun á perfomatífum möguleikum kvikmyndasýninga: performansinn er þaninn til hins ítrasta og bíóið gert að leikhúsi: í Berlín er rauður dregill og gala-sýningar, margnefndar hjarðir blaðamanna og ljósmyndara, blaðamannafundir, hátíðarkvöldverðir, partí – og til þess urðu kvikmyndahátíðir kannski til eftir seinna stríð, kannski þarf að heiðra alla hluti með performansi til að tekið sé mark á þeim. Að tala um mekka kvikmyndaiðnaðarins er kannski ekki einu sinni líkingamál – þetta er það næsta sem við komumst því að fara í kirkju.
Free Range
Þegar ritúallinn gengur sinn vanagang er frá engu að segja. En ritúall er kannski það sem gengur aldrei alveg sinn vanagang. Það verða alltaf frávik frá forskriftinni. Í gærkvöldi beið ég í lengstu röð sem ég hef staðið í á hátíðinni til þessa, til að sjá eistnesku myndina Free Range. Víðavangur. Þetta var ágæt mynd, ég var sérstaklega hrifinn af kvikmyndatöku Marts Taniel. Leikstjórinn virtist hins vegar hafa orðið óþarflega óöruggur um efnið í eftirvinnslu og valið að þekja myndina með tónlist af ólíkum toga, sem var í mörgum tilfellum alveg óþarft, og kaffærði stundum falleg atriði eins og tómatsósa.
Hvað um það. Ég stóð mjög aftarlega í fyrrnefndri biðröð, og þegar ég kom í salinn fann ég hvergi laust sæti nema á öðrum bekk. Þriðji bekkur var fullur og allir fyrir aftan hann, en fyrsti og annar enn að mestu lausir. Reyndar var eitt sæti ósetið á þriðja bekk, en ung kona hélt því frá fyrir vinkonu sína. Fleiri spurðu: er sætið laust, og hún svaraði nei, þar til kona um tvítugt svaraði: vá, eru allir að …? – rauk til baka aftur í salinn, birtist síðan við sætaröðina á þriðja bekk og sagði við þá sem hélt sætinu fráteknu: Þú getur ekki gert þetta! Það eru laus sæti á fyrsta bekk sagði einhver áhorfandi við hana. Þið vitið öll að það eru ömurleg sæti, svaraði hún og var bálreið út í salinn, okkur öll sem eitt, en sérstaklega við konuna sem útskýrði að vinkona hennar hefði brugðið sér á klósettið. Sú reiða strunsaði fram og aftur, reifst aðeins meira, settist síðan á fremsta bekk, tók af sér kápu, leit aftur og kallaði: thanks a lot! Nokkrir fóru að hlæja, eins og til að létta á spennunni sem hafði tekið yfir þessar þrjár sætaraðir. Reiða konan sat þar til myndin byrjaði, þá stóð hún upp og strunsaði aftur upp salinn – hvort hún fann betra sæti eða yfirgaf sýninguna veit ég ekki. En myndin hófst.
Það var ekki bara reiðin sem var óþægileg. Reiða manneskjan rauf ritúalinn. „Veistu ekki að bíósalur er staðurinn þar sem við komum öll saman til að láta eins og við séum ekki hérna?“ langaði mig að spyrja hana.
Gullöld kvikmyndanna lokið?
Eftir að myndinni lauk voru leikstjórinn, aðalleikkona og tökumaður leidd upp á svið fyrir framan tjaldið, til að svara spurningum. Leikstjórinn, Veiko Ounpuu, var einkar viðkunnanlegur og vandræðalegur á sviðinu. Spurður hvers vegna birst hefði íkon af Jesú í einni senu sagði hann að það væri engin ástæða, honum hefði bara líkað myndin. Hvers vegna þetta eða hitt: engin ástæða, þetta er bara svona, ég er ekki góður kvikmyndagerðarmaður, og þið sjáið að ég er ekki góður handritshöfundur heldur, það er engin saga þarna – hann komst loks á flug þegar hann útlistaði hvers vegna hann teldi gullöld kvikmyndanna lokið, enginn væri um þessar mundir að gera verk á sama kaliberi og Tarkovskí eða aðrir leikstjórar á seinni hluta 20. aldar. Honum var sjálfum skemmt yfir aðstæðunum og hvað hann bar sig vandræðalega við að svara spurningum, táraðist nokkrum sinnum úr hlátri.
Meðhjálpari á blaðamannafundi
Allt í allt var það ágætt. Og það að vera vandræðalegur, bera vandræðaleikann sjálfur, uppi á sviði, aðeins gjafmildara en uppákoma á stærri vettvangi fyrr um daginn. Sú uppákoma hefur þegar ratað í helstu fjölmiðla. Á blaðamannafundi eftir forsýningu en fyrir frumsýningu Nymphomaniac Lars von Trier voru framleiðandi og nokkrir leikarar – ekki Trier sjálfur sem stendur við yfirlýsinguna frá því 2011, að segja ekki múkk á opinberum vettvangi.
Meðal leikaranna var Shia Labeouf, sem ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki en les að hafi verið gerður að sjónvarpsstjörnu sem barn. Mestallan tímann faldi hann sig undir derhúfu, á meðan blaðamenn spurðu spurninga sem þeir hefðu viljað spyrja Trier sjálfan, og aðrir svöruðu fáu – nema að það hafi verið gott að vinna með Trier, hann hafi verið gjöfull, jafnvel mjúkhentur, skapað öruggt umhverfi, gefið sér og öðrum mikinn tíma, unnið af nærgætni fyrir tilfinningum.
Þegar spurningu var loks beint að Labeouf leit hann til hálfs upp undan kaskeytinu, og sagði: „When the seagulls follow the trawler, it is because they think sardines will be thrown into the sea.“ Þegar mávar fylgja togara er það í von um að sardínum verði kastað í sjóinn. Síðan stóð hann upp og gekk burt. Hinir leikararnir hlógu, til að létta á spennunni. Mér sýnist að þetta hafi verið feitasta sardínan þann daginn.
Á BBC les ég að línan sé tilvitnun í fótboltastjörnuna Eric Cantona. Blaðamenn reyndu að gera gott úr þessu, en auðvitað urðu þeir svolítið vandræðalegir. Við. Því blaðamennirnir vita alveg hvað þeir eru í aulalegu hlutverki gagnvart stjörnunum, milliliðir, að því er virðist, um hyllingu þeirra. Ég er viss um að til eru prestar, jafnvel meðhjálparar, sem langar stundum að úthúða sóknarnefndinni fyrir að vera bara afætur. Og kannski verða sjómenn einhvern tíma svo pirraðir út í mávagargið að þeir vilji helst stökkva fyrir borð.
Það er engin mennska eins og sjómennska þýddi einhver línuna úr lagi Irvings Berlin. Flestir á sviðinu voru vanir sjómenn, flest hafa þau performerað ótal blaðamannafundi – og kannski var hófstilltari tjáning þeirra á sama sentimenti enn forvitnilegri en óþol Labeoufs. Allur blaðamannafundurinn var einhvers konar anti-performans, eins og meira að segja Christian Slater og Umu Thurman þætti allt þetta húllumhæ svolítið skrítið. Þau minntu jafnvel helst á námuverkamennina eftir björgunina í Chile, árið 2010: eitthvað miklu raunverulegra hefði verið að gerast en svo að hundrað blaðamenn með míkrófóna, myndavélar og spurningar gæti vakið mikla athygli þeirra.
Vandræðagangur og anti-performansar eru performansar líka. Von Trier sjálfur forðaðist allan vandræðagang með sínum anti-performans, eða ver sig frekara brambolti með því að leita skjóls í vandræðaganginum eina, dvelja í árinu 2011: hann mætti í myndatöku í svörtum stuttermabol með Cannes-lógóinu og gylltri áletrun: PERSONA NON GRATA. Ef við sem fögnum kvikmyndum erum enn, með því, að leita skjóls undan félagslegu samhengi í myrkrinu, og viljum helst ekki horfa beint í augun á því sem horfir til baka, óttumst að verða að steini, þá má sæta furðu að allt þetta sviðsljós, öll þessi augnaráð og samskipti gangi þrátt fyrir allt tiltölulega snurðulaust fyrir sig.