Berlín 2014: (Ó)mögulegar samræður

Iranian-Mehran Tamadon
„Það er óþægilegt að horfa á myndina vegna þess að kvikmyndagerðarmaðurinn er ærlegur, birtir sjálfan sig ekki sem hetju, fer ekki með einfaldan sigur af hólmi. Myndin er ekki áróður, hún er mynd. Mynd af hálf-ómögulegum möguleika.“
Haukur Már Helgason
Haukur Már Helgason

Hvar sem þú ert er eitthvað spennandi að gerast annars staðar, en kvikmyndahátíð getur verið sérstaklega ströng æfing í að sætta sig við þessa staðreynd.

Iranian: samræður um leikreglur

Í gær sá ég þó eina mynd sem ég er sannfærður um að hafi verið besta myndin sem hægt var að sjá þá stundina. Eða sú áhugaverðasta í öllu falli, mínútunum best varið. Þetta var kvikmyndin Iranian eftir leikstjórann Mehran Tamadon. Mehran Tamadon er Írani að uppruna, fæddur 1972, en hefur búið í Frakklandi um árabil, raunar frá 12 ára aldri. Hann er arkitekt að mennt, lítur á sig sem frjálslyndan í trúmálum og öðrum efnum og dreymir um, að því er fram kemur í myndinni, íranskt samfélag og íranskt ríki sem gæfi manni með slíkar skoðanir jafn mikið rými og þeim sem aðhyllast klerkaveldið. Hann ferðast nokkuð milli landanna tveggja. Árum saman hafði hann leitað að þátttakendum í nokkurra daga langri tilraun sem hann vildi gera: hann vildi fá nokkra menn sem styddu klerkaveldið til að dvelja með sér í húsi, þar sem hver hefði sitt herbergi en þeir deildu líka sameiginlegu rými, bæði innan dyra og utan. Í þessu sameiginlega rými myndu fara fram samræður þeirra á milli um hvers konar leikreglur þeir gætu sett samlífinu sem þeir allir féllust á, reglur sem þá mætti hugsanlega heimfæra upp á óskaskipulag Írans. Samræðurnar yrðu kvikmyndaðar.

Þetta tekst honum loks og úr varð myndin sem var sýnd hér í gær. Ég heyrði útundan mér að þetta teldist verk í vinnslu, ég heyrði líka útundan mér að þetta væri eina sýningin á myndinni, aðeins blaðamenn fengju að sjá hana … mér sýnist að þessar heimildalausu upplýsingar séu ekki heldur sérlega áreiðanlegar. Þegar verk verður til úr þvingandi eða kúgandi aðstæðum virðist algengt að sögur fari af stað um það sem gætu verið sannar, hljóma trúlega, samræmast því litla sem ég og fjöldi annarra vitum um upprunastaðinn. En já, höfundurinn hefur lent í trássi við yfirvöld vegna kvikmyndagerðarinnar, honum hefur verið neitað um að fara úr landi, vegabréfið hans gert upptækt og svo framvegis. Hann tekur áhættu með lífsafstöðu sinni einni, lendir í veseni.

Myndin hefst þegar honum hefur tekist að finna þátttakendur í tilrauninni. Mennirnir fjórir sem hann fær til liðs við sig virðast allir gegna einhvers konar ábyrgðarstöðum innan klerkaveldisins, pólitískir og/eða trúarlegir leiðtogar og/eða kennimenn, en hafi komið fram nákvæmlega hvað hlutverk þeirra heita fór það fram hjá mér. Tamadon teppaleggur jarðhæðina á húsi sem móðir hans á, úti á landi, sem mun gegna hlutverki hins sameiginlega rýmis mannanna. Hvað á ég að kalla þá fjóra sameiginlega? Trúmennina. Segjum það. Trúmennirnir fjórir mæta einn af öðrum, og sá þeirra síðastur sem mun reynast vera í forsvari fyrir þá lungann af samræðunni. Stórt og mikið sjarmatröll sem minnti á Bud Spencer og Slavoj Zizek, stríðinn, gleðipinni, lifandi í samræðu og finnst ekki við hæfi að konur fari um torg með óhulin andlit. Segir hinum frjálslynda að hann hugsi lýðræðislega en hegði sér einræðislega. Haldi að veraldlega ríkið sem hann vilji sé ekki neitt, haldi að það sé hlutlaust, sjái ekki að það sé líka byggt á hugmyndafræði og hann vilji beygja alla undir hana. Tamadon rekur í rogastans, hann á erfitt með að svara, hann lendir í vandræðum með að verja þær skoðanir sem hann og meirihluti áhorfenda, að ætla má, líta á sem sjálfsagðar.

Áður en þeir koma sér fyrir í húsinu og hefja samskiptin, þegar trúmennirnir hafa séð híbýlin, spyrja þeir hvers vegna þeir hafi ekki tekið konurnar sínar með sér. Þá þyrfti þeim ekki að leiðast heima á meðan. Tamadon segir auðvitað, hringið í þær, látið þær taka leigubíl. En von hans um að þær fái að taka þátt í samræðunni verður að engu, eins og má jafnvel ætla að hann hafi séð fyrir. Heimsmynd trúmannanna virðist fyrst og fremst grundvallast á hugmyndum um hlutskipti kvenna: þær skulu hylja sig á torgum, ef tónlist er á annað borð leyfð verður að banna söng kvenna, í það minnsta má hann ekki heyrast í viðurvist karlmanna. Þar sem allt þetta, allar vísbendingar um tilvist kvenna sem kvenna, stefni sálarheill karlmanna og drengja í voða. Og svo framvegis. En auðvitað er fleira: hvers konar myndir mega sjást í almannarýminu? Þar verða til dæmis myndir af skáldum og höfundum vandamál, ef höfundarnir eru þekktir af verkum sem gætu vakið rangar hugmyndir með ungu fólki. Kvikmyndagerðarmaðurinn sjálfur á furðulega erfitt með að svara mönnunum. Hann er ósammála þeim, það má jafnvel segja að hann sé hjartanlega ósammála þeim, en lendir í hrakningum þegar hann reynir að rökstyðja afstöðu sína: þegar hann segir að menn eigi að geta haldið aftur af sér sjálfir, eigi að þroskast til að ráða við ólguna í sjálfum sér, svarar sá sveri: ó, hefur þú rétt til að segja mér hvað ég á að gera? Og eins og það ætti að vera auðvelt að svara, þá verður Tamadon svaravant. Aftur og aftur á hann ekki til annað viðbragð en flissa eða hlæja að sjálfum sér, að því er virðist. Aftur og aftur hefur trúmaðurinn yfirhöndina í samræðunni. Áhorfendur hlæja vandræðalega, vita ekki hverju þeir eru að hlæja að – það er taugastrekkjandi að hlusta á sjarmerandi mann tjá þennan hugarheim. Það reynir á tjaldið, ef svo má segja: ef hann væri fyrir framan okkur gildir um flesta áhorfendur að þeir væru búnir að bregðast harkalega við: standa upp, yfirgefa samræðuna, löðrunga manninn, bölva honum, hella úr glasi yfir hann, öskra. Því okkur ofbýður. Tjaldið á milli okkar verður hlaðið spennu.

Mehran Tamadon.
Mehran Tamadon.

Hvers vegna lendir Tamadon, kvikmyndagerðarmaðurinn, í þessum hrakningum? Stundum heldur hann velli, stundum ber hann mál sitt vel fram og nær jafnvel að sveigja viðmælendurna til að samþykkja einhvern afkima eigin skoðana. En hvers vegna á hann erfitt með að verja hið sjálfsagða? Er það vegna þess að rök hníga ekki alla leið, heldur er grundvallarafstaða órökvís ákvörðun? Er það vegna þess hvað hann sjálfur er veiklundaður? Er hann fastur í goggunarröð þar sem alfa-male-ið hefur yfirhöndina hvað sem það bullar? Eða er kannski ekkert óvenjulegt við hrakningarnar, getur verið að hann birtist þarna sem hversemer, að við þekkjum upp til hópa ekki forsendur skoðana okkar vel, göngum að þeim sem vísum eins og að brauðrist eða hvaða annarri hátækni sem er, sem fæst okkar kynnu að gera við ef bilar, hvað þá smíða frá grunni. Að föst í herbergi með sjálfsöruggum og sannfærðum andstæðingi gætum við endað á að flissa vandræðalega að sjálfum okkur fyrir einmitt það sem við ætlum ekki að láta eftir? Eða er það fjöldinn? Hvers vegna valdi hann að fara einn gegn þeim fjórum?

Það er óþægilegt að horfa á myndina vegna þess að kvikmyndagerðarmaðurinn er ærlegur, birtir sjálfan sig ekki sem hetju, fer ekki með einfaldan sigur af hólmi. Myndin er ekki áróður, hún er mynd. Mynd af hálf-ómögulegum möguleika. Líklega má það heita fyrirsjáanlegt frá upphafi myndar að hvorki fjórmenningarnir sem Tamadon rökræðir við né hann sjálfur, sem stendur einn andspænis þeim, munu í grundvallaratriðum skipta um skoðun í gegnum samræðuna. Að verða vitni að samræðunni er forvitnilegt og erfitt. Íranskir kvikmyndagerðarmenn hafa uppgötvað vídd í kvikmyndum, og þá ekki síst á mörkum heimildamynda og leikinna – hér með sviðsetningu mannanna á sjálfum sér, viljugri þáttöku í kvikmyndaðri tilraun – sem er ekki iðkuð víða annars staðar. Eða ef hún er það, þá vildi ég gjarnan heyra af því. Þessi mynd gengur inn í hefð Makhmalbar-feðginanna og Kiraostamis og reynist, með nær engum tilkostnaði og án alls hávaða, meira ögrandi og um leið skemmtilegri en annað sem ég hef séð á hátíðinni fram að þessu. Verkefnið er nógu vandasamt til að ég veit ekki enn nákvæmlega hvað mér þykir um myndina, Þess vegna langar mig að sjá hana aftur. Það er í fyrsta sinn sem það gerist á hátíðinni þetta árið.

Haukur Már Helgason
Haukur Már Helgason
Haukur Már Helgason er kvikmyndagerðarmaður.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR