Berlín 2014: Fyrsta bréf

71
71 er vel skrifuð og vel sögð en minnir á Bloody Sunday, segir Haukur Már.
Haukur Már Helgason
Haukur Már Helgason

Berlinale fer ágætlega af stað, tveimur dögum eftir dag múrmeldýrsins. Í það minnsta stendur hefðbundinn hópur af 20-100 manns við útganginn á Hyatt hótelinu þar sem blaðamannafundir fara fram, eftir því hversu stórri stjörnu bílstjórarnir bíða eftir.

Í sama hóteli er miðstöð blaðamanna á svæðinu. Ég held að fyrirkomulagið hafi verið nákvæmlega það sama frá því ég kom hingað fyrst fyrir tólf árum síðan: miðabarinn þar sem fagstéttin flykkist að á morgnana til að sækja skammt dagsins er á annarri hæð, til móts við upplýsingabásinn, við hliðina á ísskápnum með vatnsflöskunum, en án þess ísskáps myndi stór hópur kvikmyndagagnrýnenda deyja úr þorsta þessa tíu daga í febrúar, því svæðið í kringum Potsdamer Platz er að öðru leyti eyðimörk fyrir þá sem ekki eru með botnlausan fríðindareikning. Ég borgaði þúsundkall fyrir kaffibolla í gær, og það var alls ekki besti kaffibolli sem ég hef drukkið. Þolgæði blaðamannanna, biðlund þeirra og umfram allt reglusemin í öllu glitsinu, er til marks um lélega stéttavitund: þeir vakna fyrir dögun til að tryggja sér miða á mikilvægustu myndirnar þarna í biðröðinni við hliðina á ísskápnum, biðröð sem þrátt fyrir allan marmarann í Hyatt hótelinu minnir helst á réttir eða síðustu fréttir af meðferð kjúklinga fyrir slátrun, En þeir fá auðvitað ókeypis í bíó.

Ein ógerð mynd

Það hvarflaði að mér að þarna leyndist ein ógerð mynd: kvikmyndagagnrýnendur á kvikmyndahátíð væru fyrirtaks sögusvið til að tryggja verki í það minnsta þrjár stjörnur í öllum helstu miðlum. Ég held að blaðamennirnir yrðu margir tárvotir að sjá að loks væri hlutskipti þeirra viðurkennt. Þrjár stjörnur í forgjöf fyrir hvern sem er að leita að breiki inn á alþjóðamarkaðinn – ef einhver pikkar upp hugmyndina bið ég ekki um annað en að vera boðið á frumsýninguna biðraðarlaust.

Bill og Wes

Það er við hæfi, í þessu umhverfi sem hefur ekki breyst að ráði í tólf ár hið minnsta, að Bill Murray virðist vera úti um allt. Mér finnst Bill Murray alltaf vera að þvælast þarna á Potsdamer Platz, hátíðin hefur dálæti á kvikmyndum Wes Anderson og Wes Anderson á hátíðinni, virðist vera. Síðast þegar ég gekk út af kvikmynd í miðjum klíðum var það á mynd hans, The Life Aquatic, hér á hátíðinni fyrir nokkrum árum. Ég þoli ekki nálgun hans, ég hef enn ekki fest fingur á því nákvæmlega hvers vegna, en ég upplifi mannfyrlrlitningu í myndum hans á seinni árum, mannfyrirlitningu sem heldur að hún sé eitthvað annað – svo ég lét opnunarmynd hátíðarinnar fram hjá mér fara. Það er leiðinlegt að ganga út úr sal í miðri mynd.

71

Ég sá hins vegar mynd núnar tvö í keppnisdagskránni, myndina 71 sem gerist í Belfast árið 1971. Leikstjóri er Yann Demange. Þetta er stríðsmynd og kannski má byrja á að segja að hún er góð – ég get umsvifalaust gefið henni þrjár stjörnur. En gott ef það var ekki fyrir tólf árum síðan sem ég sá einmitt Bloody Sunday, aðra mynd um átókin í Írlandi. Í 71 fylgjum við breskum hermanni inn í yfirráðasvæði kaþólikka í Belfast, hann fer með hópi í vopnaleit, en verður eftir í miðjum óeirðum. Sagan er vel skrifuð og vel sögð – og þetta er þannig séð allt önnur saga en Bloody Sunday, en fagurfræðilega nálgunin er keimlík, og siðferðilega nálgunin líka: djöfull var þetta ljótt.

the turning
„The Turning er bæði heitið á einni sögunni og skírskotun til þess sem sameinar þær allar: augnablik í lífi persónu þar sem allt breytist, yfirleitt út frá veigamikilli siðferðilegri ákvörðun.“

The Turning

Síðan gerðist ég djarfur og gekk inn á þriggja klukkustunda sýningu, verk sem heitir The Turning, og er unnið upp úr smásögum ástralska rithöfundarins Tim Winton. The Turning er bæði heitið á einni sögunni og skírskotun til þess sem sameinar þær allar: augnablik í lífi persónu þar sem allt breytist, yfirleitt út frá veigamikilli siðferðilegri ákvörðun. Leikstjórarnir eru nokkuð stór hópur og þess vegna lét ég það hvarfla að mér að fjölbreytnin yrði næg til að sitja við í þrjá tíma. En hún var það ekki. Hver og ein myndanna sem ég sá hefði getað notið sín ágætlega ein og sér, en þetta hlass varð endurtekningasamt, fyrirsjáanlegt og eftir nærri tvo tíma eiginlega orðið óbærilegt. Svo ég gekk út – ég klunnaðist út úr salnum að græna skiltinu með hvíta kallinum sem er á hlaupum, sá áletrun á hurðinni þegar ég kom að henni: neyðarútgangur, notist aðeins í neyð, leit upp og yfir salinn, vissi ekki hvort fólkið horfði á mig eða tjaldið, eini leyfilegi útgangurinn var alveg hinu megin, uppi vinstra megin, ég var niðri hægra megin, og ákvað að láta mig hafa það: opnaði dyrnar og neyðarútgangurinn reyndist fullkomlega nothæfur.

Það tekur svolítinn tíma að átta sig á dagskránni – yfirleitt finnst mér ég ekki kominn með almennilega yfirsýn fyrr en hátíðinni er að ljúka, ég mun missa af fleiru en en ég sé. Og ég er orðinn alltof seinn á miðabásinn í dag, það er hætt við að ég hafi misst af miðunum á Nymphomaniac sem verður sýnd hér á morgun. Ég ætla að tygja mig upp eftir, sjá hvað er eftir, sjá hvort Bill Murray segir eitthvað af viti.

 

 

 

Haukur Már Helgason
Haukur Már Helgason
Haukur Már Helgason er kvikmyndagerðarmaður.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR