Ný frétt: Útvarpsstjóri hættir

Páll Magnússon útvarpsstjóri.
Páll Magnússon útvarpsstjóri.

Þessi póstur, sem Páll Magnússon útvarpsstjóri var að senda starfsmönnum sínum, barst Klapptré rétt í þessu:

Góðir samstarfsmenn!

Ég hef ákveðið í samráði við stjórnarformann Ríkisútvarpsins að láta af starfi mínu sem útvarpsstjóri frá og með deginum í dag.

Ástæðan er sú að ég tel mig ekki njóta nægilegs trausts í stjórn Ríkisútvarpsins til að gegna stöðunni áfram með árangursríkum hætti á erfiðum tímum.

Þrátt fyrir illnauðsynlegar niðurskurðaraðgerðir fyrir skemmstu skil ég stoltur við Ríkisútvarpið á þessari stundu. Samkvæmt öllum þeim mælikvörðum sem við notum til að meta stöðu RÚV hefur hún sjaldan verið sterkari en nú. Það gildir jafnt um almennt viðhorf þjóðarinnar til RÚV, traust á stofnuninni samanborið við aðrar stofnanir samfélagsins, traust á fréttastofu RÚV samanborið við aðra fjölmiðla, vinsældir meðal þjóðarinnar mældar í áhorfi og hlustun og loks rekstrarstöðu félagsins. Innan tíðar verður kynnt uppgjör síðasta rekstrarárs sem skilar jákvæðri niðurstöðu í samræmi við áætlanir. Þar með hefur náðst það markmið að skila síðustu fjórum rekstrarárum Ríkisútvarpsins samanlögðum réttu megin við núllið.

En allt um það , – traustið er ekki fyrir hendi og því hljóta leiðir að skilja.

Af hjartans einlægni þakka ég öllum þeim sem ég hef unnið með hjá Ríkisútvarpinu síðustu átta árin fyrir árangursríkt og ánægjulegt samstarf. Saman hefur okkur tekist að sigla Ríkisútvarpinu í gegnum bankahrun, niðurskurðaraðgerðir og almennan trúnaðarbrest í samfélaginu – með rekstur, traust og vinsældir í góðu horfi. Það var ekki sjálfgefið.

Ég óska ykkur öllum og Ríkisútvarpinu gæfu og gengis í framtíðinni.

Kær kveðja,

Páll Magnússon

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR