Viðhorf | Einnar aldar saga, átta og hálfs árs afmæli

Tilda Swinton og Mark Cousins hylla Gög og Gokke með fleira fólki.
Tilda Swinton og Mark Cousins hylla Gög og Gokke með fleira fólki.

Eitt orð enn um Mark Cousins, eftir að horfa á The Story of Film. Í fyrsta lagi, vinsamlegast látið ykkur hlakka til því að þættirnir verða sýndir á RÚV í vetur. Síðan:

Í lokahluta þáttaraðarinnar er eins og Cousins sé svolítið tvístígandi. Raunar hefst tíundi áratugurinn í yfirferð hans með óvæntu og mögnuðu efni, það er einhver markverðasta og mikilvægasta dirfska hans að byrja á að horfa fram hjá öllum blockbösterum heimsins í þessari kanónusmíð og beina sjónum að þeim sem hann lítur svo á að hafi lagt mest af mörkum til að þenja möguleika kvikmyndarinnar: hann teflir fram þeim sem hann segir hafa lagt rækt við raunveruleikann síðustu daga filmunnar, áður en myndflöguvæðingin setti Kodak á hausinn. Áratugurinn hefst í Íran.

Mynd Samiru Makhmalbaf, The Apple, virðist stórkostleg. Ég hef ekki séð hana. Í brotinu hér að ofan sjást persónur leika sjálfar sig: faðir sem lokaði dætur sínar inni í ellefu ár leikur sjálfan sig í samræðu um það. Og dæturnar leika sjálfar sig líka. Mynd Mohsens Makhmalbafs, föður Samiru, A Moment of Innocence, virðist líka mögnuð. Eftir að fjalla um verk þeirra víkur Cousins að Abbas Kiarostami sem ég þekki hótinu betur. Það gildir um verk þeirra allra að þau afmá eða leika sér að mörkum heimildamynda og leikinna kvikmynda, veruleika og skáldskapar. Leika sér, ef það er nothæft orðalag þegar svona mikið er í húfi.

Það birtist margt áhugavert eftir þetta, í lokahluta kvikmyndasögunnar, allt til enda. Mark Cousins lýkur sögunni á Rússneskri örk eftir Alexander Sokurov, myndinni sem fylgir heldri borgurum í Rússlandi keisarans rétt fyrir byltingu í eina kvöldstund, í einni óklipptri töku. Þetta er ekki nýjasta myndin í verkinu, heldur er hún frá árinu 2002. Það er þannig ákvörðun Cousins sem höfundar að ljúka verkinu þarna, ef til vill til að tefla fram einhvers konar hliðstæðu: kannski eru myndirnar sem við erum búin að ferðast í gegnum með honum, hundrað ára saga, tilbrigði við kvöldstundina í höllinni, að kvikmyndirnar sem okkur bregður fyrir sjónir séu þar að draga síðasta andann fyrir byltingu, þegar hvað … þeim verður slátrað af bolsévikum með stafrænar myndavélar? Kannski eitthvað í þá veru. Kvikmyndasalir voru einhvers konar hallir í samanburði við fartölvuskjái, síma, sjónvarp eða hvaða tæki sem við notum helst til að horfa í dag.

[quote align=“left“ color=“#999999″]“Cousins spyr: Hvað gerist núna? Hvað gerist næst? Og veltir fyrir sér, í eftirmála, möguleikanum á að kvikmyndir hreinlega hverfi – að stafrænn stormur eða hugmyndafræðilegur stormur, eins og sá sem þurrkaði út yfirstétt Rússlands, gæti útrýmt kvikmyndinni, og niðjar okkar myndu aðeins heyra af þessum verkum í endursögn, heyra orðróma, sjá endursviðsetningar.“[/quote] Hvað sem því líður, þarna á milli, tímabilið frá því 2002 að Sokurov lýkur við Rússnesku örkina og til dagsins í dag, er eins og Cousins sé tvístígandi, fálmi, eigi erfitt með að festa fingur á hvað hafi verið eða sé markverðast í samtímasögu kvikmyndarinnar. Hin og þessi verk birtast, en fyrst og fremst virðist hann pirraður út í James Cameron. Cousins er kurteis og lætur ekki mikið á því bera, lýsir vinnuaðstæðunum við gerð Avatar sem klínísku verksmiðjurými og bætir við: Honum, það er Cameron, finnst þetta spennandi.

Í nokkra daga sat þessi endir í mér – ekki Rússneska örkin og ekki Cameron, heldur hvað síðustu stundirnar voru fálmkenndar í samanburði við allt sem á undan fór. Auðvitað getur verið erfiðara að henda reiður á hvað er markvert við samtímann en tímabil sem er lokið, eru hætt að gerast, og hafa hlotið merkingu af því sem á eftir fór. En samt. Cousins spyr: Hvað gerist núna? Hvað gerist næst? Og veltir fyrir sér, í eftirmála, möguleikanum á að kvikmyndir hreinlega hverfi – að stafrænn stormur eða hugmyndafræðilegur stormur, eins og sá sem þurrkaði út yfirstétt Rússlands, gæti útrýmt kvikmyndinni, og niðjar okkar myndu aðeins heyra af þessum verkum í endursögn, heyra orðróma, sjá endursviðsetningar.

Þetta sat í mér í nokkra daga og síðan fattaði ég: Cousins er of kurteis til að orða beint út hegelíska skrefið sem hann tók, eða vill taka, grunar að hafi kannski heppnast. Þegar Hegel skrifaði sögu heimspekinnar lauk hann þeirri sögu á sjálfum sér og sagði henni þar með lokið. Hvað sem tæki við væri ekki heimspeki, hún hefði verið innsigluð og kórónuð með þessu verki hans sjálfs. Eða eitthvað í þá veruna, afsakið, ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði. En verk Cousins, sem fyrsta kvikmyndaða saga kvikmyndanna, er nákvæmlega þess háttar verk: ef það hefur heppnast jafn vel og mér þykir það hafa gert, þá er svarið við spurningunni „hvað er að gerast núna?“ verkið sjálft. Það sem þú ert að horfa á. The Story of Film. Það breytti einhverju að heimspekin segði sögu sína sjálf, segði hana sem heimspeki, og það breytir líka einhverju að kvikmyndin geri það, birti sögu sína í kvikmynd. Cousins er aftur á móti alls ekki nógu megalómanískur til að tala um verkefnið á þeim forsendum sjálfur.

Það vill svo til að sömu árin og Cousins var að skrifa bókina The Story of Film, og síðan gera kvikmyndina, var Joshua Oppenheimer að gera kvikmyndina The Act of Killing. Þeir eru um það bil jafnaldrar, og þeir vinna hvor að sínu verki frá því um 2004 til 2012. Með skekkjumörkum. The Act of Killing er ekki bara kvikmynd um pólitískt ástand í Indónesíu, möguleika forherðingar, möguleika illskunnar eða það fagnaðarerindi að fasismi er sjúkt ástand, orkufrekt og krefst mikillar viðhaldsvinnu. Hún er líka kvikmynd um kvikmyndir. Fjöldamorðingjarnir, smákrimmarnir sem stjórnvöld beittu í útrýmingarherferðinni á sjöunda áratugnum, sáu sjálfa sig í ljósi bandarískra kvikmynda: sem gangstera og kúreka, sem Al Pacino, John Wayne, jafnvel Elvis Presley. Kvikmyndagerðarmaðurinn tók þá ákvörðun í ferlinu að heimta ekki raunsæjar endursviðsetningar á atburðunum heldur leyfa mönnunum að endursviðsetja þá eftir sínu eigin höfði. Og úr verða undarlegar endurgerðir atriða úr þekktum kvikmyndum sem túlkun morðingja á eigin gjörðum.

Að einhverju leyti má jafnvel finna samsvörun með því vali Cousins að ljúka sögu kvikmyndanna á Rússneskri örk, með brotunum sem við sjáum úr þeirri mynd, og með kvikmyndasögunni eins og hún birtist í verki Oppenheimers: í verki Oppenheimers eru kvikmyndirnar dregnar til ábyrgðar. Hugsast getur að þær hafi valsað um eins og rússneska yfirstéttin án þess að þurfa einu sinni að vita af áhrifunum sem gleði þeirra hafði á veröldina í kringum þær. Án þess, að einhverju leyti, að gefa mikinn gaum að þeirri veröld.

Þannig eru þessar tvær myndir, fyrir mér, að einhverju leyti óvæntur kontrapunktur hvor annarrar: Cousins heldur til haga ríkidæmi, fögnuði og fegurð kvikmyndarinnar, virði hennar. Oppenheimer dregur fram ábyrgð hennar. Verkin andmæla ekki hvort öðru, þau eru ekki í mótsögn, en á milli þeirra er mikilvæg spenna. Mér finnst ánægjulegt að þau hafi komið fram bæði í einu, hvort um sig töluverður viðburður.

Hvað gerist næst? „You’re not going to like what comes after America,“ sagði Leonard Cohen í ljóði. (Í mínu minni hljómar hún alltaf „You may not like what comes after America“, sem mér fellur betur en ég asnaðist til að gúgla þetta og setningin verður víst að standa eins og skáldið skildi við hana.) Mark Cousins veðjar á að framundan geti verið eitthvað magnað og er að búa í haginn fyrir það. Til viðbótar við kvikmyndagerðina sem hann fæst við sjálfur starfar hann sem eins konar aktífisti fyrir hönd kvikmyndanna. Í Skotlandi hófu hann og Tilda Swinton átak til að hvetja börn og uppalendur þeirra til að halda upp á bíóafmæli: átta og hálfs árs afmælið. Ekki til að sjá bíómyndir yfirleitt, heldur sjá aðrar bíómyndir, myndir sem komast ekki endilega í sjónvarpið, sem börnin færu annars trúlega á mis við. Verkefnið er styrkt af breska lottósjóðnum, meðal annars. Þau hafa farið saman til afskekktra byggða með kvikmyndasýningarsal – ef ég skil rétt átti Swinton frumkvæði að því að draga 33 tonna kvikmyndasal upp á skosku hálöndin, til að sýna verk óháðra kvikmyndagerðarmanna. Cousins gerði aðra heimildamynd sem ég hef aðeins séð brot úr, þar sem hann sýndi íröskum börnum kvikmyndir í fyrsta sinn, fylgdist með og ræddi við þau um upplifun þeirra. Brotið sem ég sá var heillandi. Þau eru að boða fagnaðarerindi. Og þá aftur að upphafinu. Hér hylla Tilda Swinton og Mark Cousins, í einhverjum tengslum við kvikmyndahátíðina í Edinborg, Gög og Gokke:

Haukur Már Helgason
Haukur Már Helgason
Haukur Már Helgason er kvikmyndagerðarmaður.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR