spot_img

Bókarumsögn | Hagræn áhrif kvikmyndalistar

Helstu upplýsingar:

Höfundur: Ágúst Einarsson, ©2011
Útgefandi: Háskólinn á Bifröst
245 bls.

Bókina má finna í heild sinni hér.

Mynd 4.29. Smelltu til að stækka.
Mynd 4.29. Smelltu til að stækka.

Flott bók og mjög gott að hafa þetta samantekið. Áhugaverðustu upplýsingarnar í henni fyrir bransann er úttektin á efnahag hans á bls 167-172. Ástandið er ekki ýkja gott – en þrátt fyrir það eru möguleikarnir til vaxtar miklir ef rétt er á haldið. Einstök fyrirtæki geta staðið þokkalega eða ágætlega en meðaltalið er óviðunandi. Mynd 4.29 á bls 170 sýnir þróunina ágætlega. Á síðasta áratug jókst umfang bransans mjög mikið en eigið fé var yfirleitt neikvætt (2007 undanskilið). Eftir hrun hefur hallað enn meir undan fæti hvað eigið fé varðar.

Nú væri gott ef mér fróðari menn leiðréttu mig, en fyrir mér lítur þetta þannig út að þrátt fyrir miklar tekjur er kostnaður enn meiri og framlegð afar lítil og oft engin. Ef svo, hvað er til ráða?

Vissulega væri fróðlegt að fá nánari útlistanir, helst niðurstöðu ársreikninga allra fyrirtækja mörg ár aftur í tímann (þó mér sé ljóst að það er varla raunhæft) til að sjá þróunina. Er ástandið gegnumgangandi þannig að flestir eru á horriminni og berjast áfram frá degi til dags eða eru nokkur stór fyrirtæki að draga meðaltalið niður? Einnig væri fróðlegt að sjá nánari útlistun á einstökum liðum: hvernig er skiptingin milli framleiðslu bíómynda og heimildamynda, framleiðslu leikinna sjónvarpssería og annars sjónvarpsefnis (utanhúss) og framleiðslu auglýsinga og kynningarefnis – fyrir innlenda og erlenda aðila. Hvernig lítur bransinn út að innan?

hagræn áhrif kvikmyndalistar-kápa
Kápa bókarinnar.

Ágúst gerir ráð fyrir að velta bransans hafi verið rúmir 50 milljarðar (á verðlagi 2010) á árunum 1997-2009 (bls 169) með gríðarlegri veltuaukningu á síðari hluta tímabilsins (veltan jókst rúmlega þrefalt á tímabilinu). Inní því er væntanlega ekki innanhússframleiðsla sjónvarpsstöðvanna. Hann gerir því jafnframt skóna að auglýsingaframleiðsla sé um helmingur af veltu bransans (bls 168). Rauða skýrsla SÍK styður þetta, þar er talað um 3 milljarða á ári 2006-2009 í framleiðslukostnað kvikmyndaverkefna (og ekki allt talið) – meðan Ágúst talar um að heildarveltan sé frá 6.5-7.2 milljörðum á sama tímabili.

Ágúst nefnir þrjár leiðir til úrbóta:

  • Nýtt eigið fé
  • Meiri tekjur
  • Sameining fyrirtækja

Nýtt eigið fé: Almennt má spyrja hver vill leggja til nýtt eigið fé í bransa með þetta ekónómíska trakk record? Vissulega geta einstök fyrirtæki verið áhugaverður fjárfestingakostur en heilt á litið er erfitt að ímynda sér fjárfesta bíðandi í röðum eftir að setja pening í kvikmyndafyrirtæki meðan ástandið er svona.

Meiri tekjur: Þetta element kannast bransinn ágætlega við. Það blasir við að stjórnvöld setji meira fé í kvikmyndagerð (KMÍ, RÚV, endurgreiðslan). Aðrir tekjupóstar virðast nálægt sínu fulla pótentiali (erlend fjármögnun, miðasala o.sv.frv.). Skv. Rauðu skýrslunni er heildarfjármögnun innlendra sjóða (KMÍ og endurgreiðsla) að meðaltali rúmlega 22% af kostnaði. Þarna er töluvert rými til að bæta úr. Ágúst mælir einnig með að framlög til KMÍ verði stóraukin og færir fyrir því ýmis rök. Rauða skýrslan gerir það einnig afar vel.

Sameining fyrirtækja: Staða bransans gefur sterkar vísbendingar um að þörf sé á aukinni rekstrarhagkvæmni. Hinsvegar getur þetta verið snúið í framkvæmd vegna almennrar tilhneigingar til að valda sitt horn. Friðrik Eysteinsson hjá Viðskiptafræðideild HÍ fjallaði nýlega um þetta atriði í Alkemistanum, þætti Viðars Garðarssonar á mbl.is. Þar lagði hann út frá ritgerð Konráðs Pálmasonar um samkeppnistöðu íslensks kvikmyndaiðnaðar. Eitt af því sem hann nefnir sem veikleika bransans er að aðilar hans virðast ekki sjá möguleikana í samlegðaráhrifum eða samvinnu, þ.e. að sú hugsun að stækka kökuna er ekki ríkjandi heldur frekar að skipta henni. Hann leggur til að greinin auki samvinnu almennt, bæði við kvikmyndagerðina sjálfa en einnig við markaðssetningu og talar um „klasamyndun“ í þessu samhengi, þ.e. að fyrirtæki vinni markvisst saman að því að stækka kökuna. Hann bendir einnig á að stjórnvöld geti ýtt undir þessa þróun mála. Ágúst tekur einnig undir þetta.

Er þarna ekki komið eitt mikilvægasta mál sem bransinn stendur frammi fyrir (ásamt því að auka framlög til kvikmyndagerðar)?

(Upphaflega skrifað í september 2011).

 

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR