Þetta kemur fram á vef RÚV og þar segir einnig:
Mikil óvissa skapaðist um framtíð skólans við gjaldþrot hans í mars en Rafmennt keypti í kjölfarið allar eigur þrotabúsins og hélt kennslu áfram. 21 nemandi útskrifaðist frá skólanum í byrjun júní.
Skólastjóri Kvikmyndaskóla Íslands, Þór Pálsson, staðfesti við fréttastofu að Rafmennt og ráðuneytið hefðu átt í góðum viðræðum um áframhald kvikmyndanáms á Íslandi. Í ljósi þess hafi verið opnað fyrir skráningu nýnema og nemenda sem vilja halda áfram í haust.
„Þeir hafa gefið það út að þeir vilji semja við okkur um framhaldið á náminu og við erum alveg í góðu samtali við þá að mega byrja að auglýsa og innrita nemendur.“
Hann segir ráðuneytið enn vinna að samningi við skólann sem hann búist við að fá til undirritunar eftir helgi, ef ekki fyrr.
„Við erum alla vega komin með það gott vilyrði fyrir því að ráðuneytið vilji halda áfram að styrkja nám í kvikmyndaiðnaði á Íslandi, þannig framtíðin er björt.“
Halda sama striki á framhaldsskólastigi
Kvikmyndaskólinn býður upp á fjórar námsbrautir: leikstjórn og framleiðslu, skapandi tækni, handrit og leikstjórn og leiklist. Nám í skólanum er ekki kennt á háskólastigi og flokkast því sem starfsnám við framhaldsskóla. Skólinn hefur áður sóst eftir viðurkenningu á háskólastigi en hefur til þessa ekki uppfyllt skilyrði um slíkt.
Aðspurður segir Þór að námsbrautirnar verði áfram kenndar á framhaldsskólastigi og það verði að koma í ljós síðar hvort skólinn verði metinn á öðru námsstigi.
„Við höldum sama striki og skólinn var með samþykktar námsbrautir fyrir.“
„Svo verða bara samtöl við háskóla að leiða í ljós hvort að námið verði metið eitthvað á milli skólastiga. En eins og staðan er í dag þá kennum við bara eftir þessum samþykktu námsskrám.“
Upplýsingafulltrúi Mennta- og barnamálaráðuneytisins stafestir að unnið sé að samkomulagi við Rafmennt um nám við Kvikmyndaskólann. Ráðuneytið hafi metið það svo að óhætt væri fyrir skólann að auglýsa nám þar í haust.