Kvikmyndaskólinn útskrifar nemendur undir nýrri stjórn

Kvikmyndaskóli Íslands útskrifaði nemendur á dögunum, en skólinn er nú rekinn af Rafmennt. Viðræður við stjórnvöld um áframhald námsins standa yfir.

Segir í tilkynningu frá skólanum:

Óvissa skapaðist um framtíð skólans í vetur þegar rekstrarfélag hans varð gjaldþrota. Rafmennt — skóli í eigu Rafiðnaðarsambandsins og rafverktaka — keypti eigur þrotabúsins og hóf skólastarf að nýju með stuttum fyrirvara í húsnæði Stúdíó Sýrlands. Allir nemendur og flestir kennarar héldu áfram námi og kennslu á nýjum vettvangi.

Námið er á fjórða hæfniþrepi framhaldsskóla og er það eina sinnar tegundar hér á landi. Það gegnir tvíþættu hlutverki: Annars vegar að undirbúa nemendur fyrir störf í kvikmyndaiðnaði og hins vegar að veita aðgang að háskólanámi. Viðræður standa yfir við Háskólann á Bifröst um að námið verði metið til eininga. Jafnframt er það lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna.

Í ávarpi Þórs Pálssonar, skólastjóra Rafmenntar, við útskriftina kom meðal annars fram hversu mikilvægt námið er fyrir kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi. Þá lagði hann áherslu á að samheldni og baráttuhugur nemenda og kennara hefðu skipt sköpum þegar halda þurfti áfram skólastarfi í kjölfar gjaldþrots rekstrarfélagsins.

Við útskriftina voru sýndar fimm stuttmyndir eftir útskriftarnemendur sem þóttu skara fram úr. Besta mynd ársins var að þessu sinni frá leiklistardeild. Hún ber nafnið Fyrir neðan beltið og er eftir Hjört Kjartansson.

Rafmennt hefur átt í samtali við Mennta- og barnamálaráðuneytið um áframhaldandi fjárhagsstuðning við námið. Slíkur stuðningur á sér heimild í fjárlögum. Stuðningur stjórnvalda mun tryggja framhald námsins — náms sem íslenskur kvikmyndaiðnaður treystir í vaxandi mæli á. Stór hluti starfsfólks í kvikmyndaverkefnum á Íslandi eru útskrifaðir nemendur skólans.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR