Notkun á nafni og námsskrá Kvikmyndaskóla Íslands mótmælt

Böðvar Bjarki Pétursson, formaður stjórnar Icelandic Film School og fyrrum eigandi Kvikmyndaskóla Íslands, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna tilkynninga rafiðnaðarmanna um starfrækslu skólahalds undir heitinu Kvikmyndaskóli Íslands.

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

Icelandic Film School hefur mótmælt notkun rafiðnaðarmanna á heitinu Kvikmyndaskóli Íslands. Sömu mótmæli hafa verið kynnt skiptastjóra Kvikmyndaskóla Íslands, báðum menntamálaráðuneytum, Hugverkastofu og alþjóðasamtökum kvikmyndaháskóla Cilect og Geect.

Röksemdir eru augljósir hagsmunaárekstrar við Icelandic Film School, sem heldur úti sömu starfsemi og Kvikmyndaskóli Íslands, enda hafa skólarnir verið í samlifandi rekstri sem ein stofnun í eigu sömu aðila um margra ára bil.

Yfirlýsingar rafiðnaðarmanna, um að ætla að gjaldfella námið gagnvart Listaháskóla Íslands og skilgreina námið sem handverks- og iðnnám fremur en listnám, ganga þvert gegn starfsemi Icelandic Film School sem áfram skilgreinir sig sem listaskóla á háskólastigi. Þessi niðurfærsla námsins gengur líka gegn niðurstöðum alþjóðlegrar úttektar sem ráðuneyti háskólamála lét gera á skólanum, þar sem skýr niðurstaða var að við skólann færi fram nám á grunnháskólastigi.

Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytinu hefur verið tilkynnt um að Icelandic Film School fari með umboð háskólaumsóknar. Jafnframt hefur verið kynnt að opnað hefur verið fyrir viðræður við virta erlenda kvikmyndaháskóla um samstarf við íslensk stjórnvöld um viðurkenningar vegna háskólastarfseminnar. Allt er þetta í virku ferli.

Meintum kaupanda heitisins Kvikmyndaskóli Íslands, Rafmennt ehf, hefur þrívegis verið kynnt skriflega mótmæli Icelandic Film School á notkun heitis, kennsluskrá og skipulagi Kvikmyndaskóla Íslands. Nemendum var veitt heimild til notkunar á framangreindu fram yfir útskrift, en síðan voru mótmæli ítrekuð síðast þann 10. júní. Nú láta þessir aðilar ekki segjast og skal því mótmælt opinberlega fyrir hönd Icelandic Film School að heitið Kvikmyndaskóli Íslands sé notað af Rafmennt.

Jafnframt er því mótmælt að þau hugverk sem liggja í kennsluskrám og skipulagi skólans skuli notuð án leyfis. Nemendum sem vilja ljúka náminu hjá Rafmennt skal bent á að það félag rekur skólann Kvikmyndatækni. Vilji sá skóli spreyta sig á að kenna eftir kennsluskrám Icelandic Film School þá skal gefin heimild fyrir því fyrir nemendur sem voru við nám við Kvikmyndaskóla Íslands í janúar 2025.

Öðrum er ekki veitt heimild, þar með talið nýnemum. Yfirlýsingar um að hér sé um opinber gögn að ræða standast enga skoðun, enda skipulag Kvikmyndaskóla Íslands/Icelandic Film School, einstakt í grunnnámi háskólastigs í kennslu í kvikmyndagerð, vegna ýmissa þátta sem þróast hafa á löngum tíma. Skólinn hefur aldrei fengið fjármuni frá ríki vegna kennsluskrárgerðar eða þróunar náms.

Gjaldþrotaferill Kvikmyndaskóla Íslands er tilkominn vegna þess að Mennta- og barnamálaráðuneytið neitaði að semja við skólann um útgreiðslu eyrnamerktra fjármuna af fjárlögum án skýringa. Afleiðingin var sú að hátt í 40 kennarar misstu verktakalaunin sín vegna vinnu sem þegar hafði verið unnin. Skorað er á stjórnvöld að greiða merkta fjárveitingu til skiptastjóra svo greiða megi laun og kostnað til kennara og annarra sem þegar hafa skilað sinni þjónustu.

Fyrir hönd Icelandic Film School og sjálfs mín,
Böðvar Bjarki Pétursson
formaður stjórnar Icelandic Film School

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR