Þetta kemur fram á vef RÚV og þar segir einnig:
Stofnað var til Íslensku sjónvarpsverðlaunanna fyrr á árinu og nú hefur verið kunngjört að verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í fyrsta sinn 30. október í Gamla bíói. Á hátíðinni verða veitt verðlaun fyrir sjónvarpsefni frá Sýn, Sjónvarpi Símans og RÚV frá árunum 2023 og 2024.
Á þessu fyrsta hátíðarkvöldi liggur lengra tímabil undir en ella þar sem ekki hefur verið verðlaunað fyrir allt það sjónvarpsefni sem framleitt hefur verið eftir árið 2022. Þá skildu leiðir Íslensku sjónvarps- og kvikmyndaakademíunnar, sem heldur utan um Edduverðlaunin, og fyrrnefndra sjónvarpsstöðva. Eddan veitir nú eingöngu verðlaun fyrir kvikmyndaefni.
Til stóð að veita verðlaunin í maí á þessu ári en þeim var frestað fram á haust.
Auglýst verður eftir innsendingum í upphafi ágústmánaðar í rúmlega 20 flokkum; flokkum fagverðlauna ýmissa, fyrir leikið sjónvarpsefni, barnaefni, íþróttir, heimilda-, menningar- og skemmtiefni svo eitthvað sé nefnt. Um leið og auglýst verður eftir innsendingum verður nýr verðlaunagripur Íslensku sjónvarpsverðlaunanna kynntur til sögunnar.
Framkvæmdastjórn verðlaunanna skipa fulltrúar sjónvarpsstöðvanna, Birkir Ágústsson, Helga Hauksdóttir og Gísli Berg auk Kristjáns Freys Halldórssonar sem sinnir verkefnastjórn.