Greinin birtist með leyfi Baltasars og er svohljóðandi:
Hvernig þakkar maður starfsmanni sem hefur unnið fyrir mann sleitulaust í 25 ár? Ég átti ekki von á að þurfa að skrifa um þig minningargrein, kæra Agnes. Um aldamótin, þegar ég var að stíga mín fyrstu skref í kvikmyndagerð, hitti ég Agnesi. Hún var þá fulltrúi Íslands hjá EURIMAGE, kvikmyndasjóði EFTA ríkjanna. Agnes studdi umsókn okkar fyrir kvikmyndina Hafið. Satt best að segja man ég ekki eftir því hvort við hlutum styrkinn enda hafði það miklu minni þýðingu en kynni mín við Agnesi. Eftir að hafa kynnst vinnusiðferði og heilindum hennar kom ekki annað til greina af minni hálfu en að reyna að fá hana til að starfa með mér við kvikmyndaframleiðslu.
Það reyndi heldur betur á í okkar fyrsta samstarfsverkefni, kvikmyndinni Hafinu. Þetta var og er eitt erfiðasta tökuferli sem ég hef tekið þátt í. Við skutum að vetrarlagi í Neskaupstað, þar sem vart sást til sólar mánuðum saman. Við enduðum svo með að kveikja í gamla frystihúsinu fyrir slysni.Þarna kynntist ég úr hverju Agnes var gerð. Staðfastari og traustari manneskju hafði ég ekki kynnst við vinnu. Það var sama hvað dundi á aldrei gafst Agnes upp. Þetta var bara byrjunin en við áttum eftir að framleiða fjöldann allan af kvikmyndum saman. Agnes var þeim fágæta eiginleika gædd að það var sama hvað að höndum bar hún veigraði sér ekki við að takast á við það. Á 25 árum man ég ekki til þess að hún hafi beðist undan einu né neinu og vék sér aldrei undan ábyrgð. Agnes gekk líka fremst í stafni með góðu fordæmi. Hún vann þar til verkinu lauk. Stundum þannig að manni óaði við, slík var eljan.
Agnes var ekki alltaf allra enda hörð í horn að taka. Ég ber örugglega sök í því máli þar sem hún tók stundum að sér verkefni sem aðrir báðust undan, að mér meðtöldum.
Agnes var þeim sterka kosti búinn að hún sagði hug sinn allan. Hvort er heldur henni líkaði eða mislíkaði. Hún var örlát á hrósið en hikaði ekki við að segja manni hvað betur mátti fara. Auðvitað gat það tekið á í löngu samstarfi en varð grunnurinn að ævarandi trausti. Mikil er sorg mín og okkar hjá RVK Studios og mikil var gæfa okkar að fá að njóta krafta Agnesar, hæfileika og þekkingar.
Takk Agnes. Án þín værum við ekki komin á þennan stað. Við stöndum á tímamótum. Ég og við erum þér ævinlega þakklát og munum byggja á því sem þú lagðir upp með okkur. Takk fyrir örlætið, traustið og fórnfýsina.
Tönju og Kristínu, dætrum Agnesar, ásamt þeirra nánustu sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Þinn vinur og samstarfsmaður
Baltasar K