Greinin birtist með leyfi Elísabetar og er svohljóðandi:
Agnes var einn af okkar öflugu kvikmyndaframleiðendum. Hún vissi hvert hún vildi fara með verkefnin sín, og hún vissi líka hvernig átti að koma þeim þangað.
Þau sem seint á kvöldin gengu fram hjá Næpunni, á sínum tíma, þar sem Agnes var með skrifstofu, gátu ekki annað en tekið eftir þessari fögru veru í björtum glugganum, álfi í miðri Reykjavík, niðursokkin í verkefnin sín.
Hún var ekki aðeins vinnuþjarkur, afkastamikil og drífandi, hún var líka vandvirk og fór aldrei af stað með neitt nema að grunnurinn væri traustur og markmiðin skýr.
Þannig nálgaðist hún vináttu okkar líka, hún tók sér langan tíma til að meta mig, skoða hvort mér væri treystandi. Það var ekki fyrr en okkur lenti all harkalega saman að við sáum hvað við vorum líkar. Þá var ekki aftur snúið og ég eignaðist aldar fjórðung af innblástri, óteljandi samtölum um söguuppbyggingu, karaktera, kvikmyndatöku, klippingu, búninga og allt þar á milli.
Við vorum mjög nánar á tímabili, þó heimagangar hjá hvor annarri værum við aldrei. En við unnum saman – og við unnum mikið. Og þar blómstraði vináttan okkar.
Við ræddum um lífið, fjölskyldur, áhyggjur og gleði, og Agnes talaði alltaf með miklu stolti um dætur sínar. Síðar bættust barnabörnin við og ekki minnkaði stoltið við það.
Agnes bjó yfir mikilli hlýju og visku, oft þegar ég stóð ráðvillt í mínum málum, þá var Agnes ein fyrsta manneskjan sem ég leitaði til.
Það er erfitt að kveðja samstarfskonu, vinkonu og innblástur, en minningin um Agnes lifir áfram. Í gegnum verkin hennar, í gegnum samtöl hennar við kvikmyndagerðarfólk, og í því hvernig hún kenndi manni, bæði í starfi og í lífinu, að halda fókus og leyfa ekki bullinu að komast að.
Takk, Agnes.
Ég sendi dætrum Agnesar, barnabörnum, systkinum, vinum og samstarfsfólki innilegar samúðarkveðjur.
Elísabet Ronaldsdóttir