Ozu, Weir og Jón Karl í Bíótekinu 2. febrúar

Sunnudaginn 2. febrúar sýnir Bíótekið í Bíó Paradís kvikmyndirnar Tokyo Story eftir Yasujiro Ozu, The Plumber eftir Peter Weir og Mótmælandi Íslands eftir Jón Karl Helgason.

Dagskráin er sem hér segir:

15:00 – Tokyo Story (1953)

Tokyo Story segir frá eldri hjónum sem ferðast til Osaka og Tokyo til að verja tíma með börnum sínum sem þar búa. Börnin reyna að hafa ofan af fyrir foreldrum sínum, meira af skyldurækni en löngun, enda upptekin við annað í eigin lífi. Þessi hjartnæma saga fjallar um tengsl barna við foreldra sína og þær breytingar sem verða þegar börn eignast sínar eigin fjölskyldur og hafa ekki lengur tíma fyrir foreldra sína. Myndin er eitt af meistaraverkum japanska leikstjórans Yasujiro Ozu og einkennist af hans sérstaka stíl. Hún er almennt álitin af áhorfendum og gagnrýnendum ein af bestu kvikmyndum sögunnar. Myndin er sýnd í samstarfi við JP Foundation og Japanska sendiráðið.

17:35 – The Plumber (1979)

The Plumber er þriðja kvikmynd Peter Weir sem sýnd er í Bíótekinu. Myndin er áhrifarík spennumynd sem fléttar félagslegri ádeilu saman við óhug og hræðslu. Líf menntafólks umhverfist þegar pípulagningamaður mætir til að laga baðherbergið. Það sem byrjar sem venjuleg viðgerð verður að ástandi þar sem persónur myndarinnar ramba á barmi örvæntingar eða klárrar sturlunar. Myndin sver sig í ætt við önnur verk Peter Weir með því að vera einskonar hversdags hrollvekja þar sem upplifanir og veruleiki ólíkra manneskja í bland við fordóma getur byggt upp sannkallað martraðarástand. Gríðarlega spennandi mynd eftir einn af bestu leikstjórum okkar tíma.

19:10 – Mótmælandi Íslands (2003)

Mótmælandi Íslands er heimildamynd sem var frumsýnd í október 2003 og fjallar um Helga Hóseasson sem var þekktur fyrir að mótmæla ríkisvaldi og þjóðkirkjunni á Íslandi. Helgi var mjög ákveðinn í baráttu sinni fyrir trúfrelsi og krafðist þess að vera skráður úr þjóðkirkjunni. Myndin hefur fengið lof fyrir að varpa ljósi á persónulega sögu Helga, sem þótti hálfgerður furðufugl, en eftir sýningar myndarinnar í kvikmyndahúsum og sjónvarpi jókst samúð almennings með honum. Helgi hafði ekki haft sigur í baráttu sinni þegar hann lést árið 2009. Leikstjórar myndarinnar eru Þóra Fjeldsted og Jón Karl Helgason. Myndin hefur víða verið sýnd á kvikmyndahátíðum og hlotið tilnefningar til verðlauna, meðal annars Eddunnar. Böðvar Bjarki, framleiðandi myndarinnar spjallar við áhorfendur að sýningu lokinni. Boðið verður upp á léttar veitingar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR