Niðurskurðurinn bitnar mjög á verkefnastöðu greinarinnar, gerir fjármögnun erfiðari og stöðvar mörg verkefni, enda er framlag frá Kvikmyndasjóði forsenda frekari fjármögnunar flestra verkefna. Á sama tíma hefur umsóknum um styrki fjölgað gríðarlega, samkvæmt því sem fram kom í máli Gísla Snæs Erlingssonar, forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar, í vor.
Reynt að koma í veg fyrir enn einn niðurskurðinn
Viðræður milli fagfélaganna og stjórnvalda eru í gangi um að finna leiðir til að koma í veg fyrir að fjórða niðurskurðarárið í röð verði að veruleika. Það yrði þá lengsta niðurskurðartímabil í sögu sjóðsins og heildarniðurskurðurinn með þeim hæstu.
Verði af niðurskurðinum sem ráðgerður er í fjárlagafrumvarpi 2025, nemur hann um 46% að núvirði frá 2022. Á þessu tímabili hefur kostnaður aukist mjög, og verðbólga verið yfir 30%.
Á þessu stigi er alger óvissa um hvort eitthvað komi út úr þessu samtali, en vonast er til að hreyfing verði á málum á næstunni.
Áhersla á að gera samkomulag um uppbyggingu sjóðsins til ákveðins tíma
Einnig er lögð áhersla á að gert verði samkomulag við stjórnvöld um uppbyggingu sjóðsins til næstu ára, líkt og gert var reglulega allt frá 1999. Slíkt samkomulag var síðast gert fyrir árin 2016-2019, líkt og Klapptré greindi frá á sínum tíma.
Til stóð að gera slíkt samkomulag í tengslum við Kvikmyndastefnuna sem kom út 2020, líkt og Klapptré skýrði frá hér, en af því varð ekki. Unnið var með slíkar tölur í vinnslu Kvikmyndastefnu, en þær birtust ekki í plagginu sjálfu.
Sjónvarpssjóður ófjármagnaður
Lagabreyting á kvikmyndalögum varðandi framleiðslustyrk til lokafjármögnunar var samþykkt á Alþingi í vor. Rætt hefur verið um þetta sem sjónvarpssjóð og er þessum lið meðal annars ætlað að styðja við framleiðslu leikinna þáttaraða. Ekki hefur verið gert ráð fyrir fjármögnun þessa liðar, en SÍK hefur lagt á það áherslu. Enn á eftir að útfæra fyrirkomulag lokafjármögnunarstyrks í reglugerð.
Menningarframlag streymisveita verði hrein viðbót
Þá er einnig lögð áhersla á að fyrirhugað menningarframlag streymisveita, sem Menningar- og viðskiptaráðuneytið gerir ráð fyrir að byrji að koma inn í Kvikmyndasjóð 2026, verði hrein viðbót, en ekki hluti af nauðsynlegri leiðréttingu á framlögum til sjóðsins. Skilningur er sagður vera á þessu hjá stjórnvöldum, samkvæmt heimildum Klapptrés. Þá telja kvikmyndagerðarmenn ekki koma til greina að sjónvarpsstöðvum og streymisveitum verði heimilt að sækja beint um styrki af þessu framlagi, líkt og þrýst hefur verið á um, enda gangi það gegn því fyrirkomulagi sem ríkt hefur hér á landi sem og annarsstaðar í Evrópu.
Vanefndir á forgangsmáli Kvikmyndastefnunnar
Í Kvikmyndastefnu 2020-2030, sem fram kom haustið 2020, er fjallað um það sem til stendur að gera varðandi kvikmyndagreinina. Sett eru fram fjögur markmið og undir hverju þeirra eru aðgerðir. Fyrsta aðgerð fyrsta markmiðs hljóðar svo:
Aðgerð 1. Sterkara sjóðakerfi sem styður við fjölbreyttari kvikmyndaverk
a. Kvikmyndasjóður efldur
Fjárframlag til sjóðsins hækki með áherslu á stuðning við handritsgerð og fjölbreytni í þróun og framleiðslu kvikmyndaðs efnis svo sem stutt- og heimildamynda, listrænna og sögulegra kvikmynda og kvikmyndaðs efnis fyrir börn og unglinga. Úthlutunarrammi Kvikmyndasjóðs verði skilgreindur árið 2020 og úthlutað á grundvelli nýrra viðmiða frá vorinu 2021.
Ábyrgð: Mennta og menningarmálaráðuneyti og Kvikmyndamiðstöð Íslands.
Tímaáætlun: Vorið 2021.
Staða: Eftir mikla aukningu 2021 hefur Kvikmyndasjóður verið skorinn verulega niður á undanförnum árum og nemur lækkunin um 46% að núvirði að meðtöldu frumvarpi til fjárlaga 2025. Hin mikla aukning sem varð 2021 hefur öll verið tekin til baka og mun meira til. Sjóðurinn hefur ekki verið lægri að raunvirði síðan niðurskurðarárið 2014.
b. Nýr fjárfestingarsjóður sjónvarpsefnis
Fjárfestingarsjóður er ný leið í sjóðakerfi menningar og skapandi greina á Íslandi og kemur til móts við nýja tíma sem einkennast af hröðu þróunar- og fjármögnunarferli verkefna. Sjóðurinn verður rekinn að fyrirmynd Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins og honum er ætlað að ýta undir framleiðslu, sölu og dreifingu leikinna sjónvarpsþáttaraða. Arður af endurgreiðslum verður nýttur til frekari fjárfestinga á þessu sviði. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn fjárfesti í allt að þremur þáttaröðum á ári fyrst um sinn, en í náinni framtíð gæti framleiðslugetan orðið allt að tíu til tólf þáttaraðir á ári.
Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti og Kvikmyndamiðstöð Íslands.
Tímaáætlun: Vorið 2021.
Staða: Komið í lög. Fjármögnun fylgir ekki. Fyrirkomulag óútfært í reglugerð.