Svona eru meðal laun í íslenskri kvikmyndagerð

Í nýrri skýrslu Reykjavík Economics um skattaleg áhrif kvikmyndagerðar er meðal annars fjallað um laun í íslenskri kvikmyndagerð. Fram kemur að meðallaun í greininni eru um 77% af meðallaunum í landinu, en laun í stórverkefnum eru mun hærri.

Segir í skýrslunni:

Meðallaun í ÍSAT 59 atvinnugreinaflokkuninni voru að jafnaði kr. 671.619 árið 2023. Til samanburðar var meðaltal heildarlauna fullvinnandi launafólks kr. 868.000 árið 2023. Laun í ÍSAT 59 flokknum voru því 77% af meðaltalinu.

Af hverju stafar þessi launamunur? Tilgáta skýrsluhöfunda er að atvinnugreinin hafi einkenni launamunar t.d. á milli sjálfstæðu leikhúsanna og stóru atvinnuleikhúsanna. Margir ungir kvikmyndagerðarmenn eru að hasla sér völl í greininni og sætta sig því við að vinna á lágmarkslaunum til að koma sér og sínum verkum á framfæri við almenning og aðra hagaðila.

Fórnarkostnaður þess að vinna í listum

Þetta er fórnarkostnaður þess að vinna í listum í stað þess að taka að sér hefðbundna vinnu þar sem launakjör eru betri. Langtímaráðningar er eingöngu að finna í stórum stofnunum sem reknar eru með miklum opinberum stuðningi og þar eru launin hæst.

Því er ekki til að dreifa í kvikmyndagerð.

Kvikmyndaframleiðsla er í eðli einstakt framleiðsluverkefni í hvert skipti sem byggir á tímabundnum ráðningum til þess að tryggja sveigjanleika og áhættunni er skipt milli framleiðanda og verktaka. Listamenn og tæknilegt starfsfólk vinnur sem íhlaupastarfsfólk (e. freelance) og sjálfstæðir verktakar. Framboð af vinnuafli einkennist af endurteknum og óreglulegum umskiptingum á milli atvinnu og atvinnuleysis eða annarra íhlaupastarfa.

Verktakalaun við stórframleiðslu eru hærri

Leitað var eftir upplýsingum frá kvikmyndaframleiðendum og þjónustufyrirtækjum í geiranum til þess að renna stoðum undir fyrrgreinda tilgátu. Upplýsingar bárust um þrjú nýleg stórverkefni og verkatakakjör í þeim. Það er hve háar verkefnatengdar greiðslur voru til listamanna og tæknilegs starfsfólks að jafnaði á viku að gefnum ákveðnum vinnutíma. Taflan hér á eftir sýnir niðurstöðuna úr úrtakinu.

Verktakagreiðslur í stórverkefnum eru mun hærri en meðallaun í atvinnugreininni gefa til kynna. Hefðbundið verktakaálag er milli 30% til 40% eftir eðli verkefna og undirliggjandi kostnaði verktaka.

Miðað við hæstu verktakalaun í greininni og 40% kostnaðarhlutfall vegna launatengdra gjalda og annars rekstrarkostnaður þá gætu framtalin laun á mánuði numið tæpum 1,3 milljónum á mánuði. Þá er m.v. 12 tíma vinnudag og 22 vinnudaga. Annar rekstrarkostnaður gæti falið í sér síma, bifreið, skrifstofu o.s.frv.

Verkefni A (12 tíma dagar) 2024
Meðaltalsgreiðsla á viku ef eingöngu heilir dagar, fimm daga vika og án dagpeninga= kr. 487.190 ( dagurinn á kr. 97.438)

Verkefni B (10 tíma dagar) 2024
Meðaltalsgreiðsla á viku ef eingöngu heilir dagar, fimm daga vika og án dagpeninga = kr. 349.425 ( dagurinn á kr. 69.885)

Verkefni C (12 tíma dagar) 2023
Meðaltalsgreiðsla á viku ef eingöngu heilir dagar, fimm daga vika og án dagpeninga = kr. 393.415 ( dagurinn á kr. 78.683)

Verkefni D (12 tíma dagar) 2022-23
Meðaltalsgreiðsla á viku ef eingöngu heilir dagar, fimm daga vika og án dagpeninga = kr. 335.755 ( dagurinn á kr. 67.151)

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR