Dagskrá Bransadaga RIFF

Meðal efnisatriða í dagskránni er pallborðsumræða um barnamenningu, 2. október. Í upphafi flytur Rikke Flodin framsögu en hún er danskur sérfræðingur sem hefur getið sér gott orð fyrir að beita verkfærum gervigreindar og mannfræði til að hjálpa kvikmyndagerðarfólki að ná til yngri áhorfenda. Í kjölfarið taka við pallborðsumræður þar sem ásamt Flodin munu taka til máls leikstýran, lekkonan og handritshöfundurinn Agnes Wild, handritshöfundurinn Helga Arnardóttir, og Julia Granath, sem hefur í yfir áratug stýrt barnakvikmyndahátíðinni BUFF í Malmö. Björgvin Franz Gíslason stýrir umræðunum.

RIFF Talks fer einnig fram 2. október. Þar flytur ungt og efnilegt kvikmyndagerðarfólk, í bland við meiri reynslubolta, stutt erindi með það að markmiði að blása yngri kollegum sínum og nemum vind í brjóst – en öll sem hafa áhuga á kvikmyndagerð eru velkomin.

3. október verður boðið upp á meistaraspjall og pallborðsumræður um spunagervigreind (generative AI) og möguleikana og spurningarnar sem vakna varðandi aðkomu hennar að kvikmyndagerð. Ásgrímur Sverrisson stýrir umræðum.

Síðar sama dag verður pallborð um framtíð greinarinnar með áherslu á sölu og dreifingu. Þátttakendur eru Tine Klint frá danska sölufyrirtækinu LevelK, Konstantín Mikaelsson framkvæmdastjóri Smárabíós, Tómas Þorvaldsson lögfræðingur og Sara Nassim framleiðandi. Hilmar Sigurðsson stýrir umræðum.

4. október fer fram meistaraspjall um búningahönnun og förðun með mikilsmetnu fagfólki á því sviði, þeim Margréti Einarsdóttur búningahönnuði og Ástu Hafþórsdóttur förðunarmeistara. Helga Rakel Rafnsdóttir stýrir umræðum.

Dagskrá Bransadaga má nálgast í heild á vef RIFF.

HEIMILDRIFF
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR