spot_img

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir er látin

Lilja Guðrún Þor­valds­dótt­ir leik­kona er lát­in, 73 ára að aldri. Hún fædd­ist 7. júlí 1950 og lést 10. nóv­em­ber 2023.

Hennar er minnst á mbl.is, þar sem segir meðal annars:

Lilja Guðrún fædd­ist 7. júlí 1950 á Akra­nesi, dótt­ir Ing­unn­ar Val­gerðar Hjart­ar­dótt­ur og Þor­vald­ar Steina­son­ar.

8 ára göm­ul flutti hún með for­eldr­um sín­um á ættaróðalið, Nar­f­astaði í Hval­fjarðasveit, hvar for­eldr­ar henn­ar tóku við bú­skap fjöl­skyld­unn­ar. Um tólf ára ald­ur flutt­ist fjöl­skyld­an svo í Kópa­vog­inn og festi þar ræt­ur. Lilja lauk námi frá gagn­fræðaskól­an­um við Lind­ar­götu og síðan tækni­teikn­un frá Iðnskól­an­um í Reykja­vík. Hún var einn af stofn­end­um leik­list­ar­skól­ans SÁL árið 1972 og ein af fáum sem komst í gegn­um nál­ar­augað í inn­töku­prófi að Leik­list­ar­skóla Íslands. Þaðan út­skrifaðist hún 1978.

Fyrsta hlut­verk Lilju í Þjóðleik­hús­inu var hlut­verk Mörtu í Stund­arfriði eft­ir Guðmund Steins­son árið 1979 und­ir leik­stjórn Stef­áns Bald­urs­son­ar. Það verk ferðaðist á leik­hátíðir víða um heim. Í Þjóðleik­hús­inu lék hún hvert burðar­hlut­verkið af öðru, allt fram til starfs­loka við 70 ald­ur, svo sem Mörtu í Hver er hrædd­ur við Virg­in­íu Wolf, og Höllu í Fjalla-Ey­vindi og Höllu. Hún lék einnig burðar­hlut­verk í upp­setn­ing­um Leik­fé­lags Ak­ur­eyr­ar og Útvarps­leik­húss­ins og upp­setn­ing­um sjálf­stæðra leik­hópa eins Alþýðuleik­húss­ins og Lab Loka.

Síðustu tvo ára­tug­ina lék hún aðal- og auka­hlut­verk í fjölda bíó­mynda og sjón­varpsþátta. Af bíó­mynd­um má nefna mynd­irn­ar Börn og For­eldr­ar í leik­stjórn Ragn­ars Braga­sonar, Okk­ar eig­in Osló í leik­stjórn Reynis Lyng­dal, Von­ar­stræti og Óróa eft­ir Bald­vin Z, Strák­un­um okk­ar í leik­stjórn Ró­berts Douglas, Sum­ar­land­inu í leik­stjórn Gríms Há­kon­ar­son­ar og Köld slóð í leik­stjórn Björns Brynj­úlfs Björnssonar en fyr­ir hlut­verk sitt í síðast­nefndu mynd­inni hlaut Lilja til­nefn­ingu til ís­lensku kvik­mynda­verðlaun­anna. Þá lék hún fjölda hlut­verka í sjón­varpi eins og í Fanga­vakt­inni, Rétti, Manna­veiðum og nú síðast Flat­eyj­argát­unni.

Bar­átta fyr­ir rétt­lát­ari heimi var Lilju Guðrúnu í blóð bor­in. Hún var virk í verka­lýðsbar­áttu, sinnti trúnaðar­störf­um fyr­ir BSRB og SFR (nú Sam­eyki) og tók þátt í skipu­lagn­ingu verk­falls­viðburða. Þá sat hún á lista Alþýðubanda­lags­ins fyr­ir alþing­is­kosn­ing­arn­ar árið 1995. Lilja tók þátt í ýms­um átaks­verk­efn­um svo sem gegn um­ferðarslys­um og fyr­ir for­eldra barna í vímu­efna­neyslu, friðargöng­um, viðburðum verka­fólks og gegn kjarn­orku­vá. Þá átti hún hluta­bréf í Hlaðvarp­an­um, miðstöð kvenna gegn kyn­ferðisof­beldi.

Lilja Guðrún var fjall­kona Íslands á þjóðhátíðar­deg­in­um 17. júní árið 2013, þar sem hún flutti ljóð Pét­urs Gunn­ars­son­ar.

Dæt­ur Lilju Guðrún­ar Þor­valds­dótt­ur eru Kar­en María Jóns­dótt­ir f. 10. des­em­ber 1975 og Inga Val­gerður Henrik­sen f. 20. maí 1985.

HEIMILDMbl.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR