spot_img

Ferðasaga um bíómyndir, bíóbransa og íslenskan kúltúr í Manitoba

Ásgrími Sverrissyni var boðið til Manitoba í Kanada að ræða um íslenskar kvikmyndir á 17. júní, heimsækja bransafólk í Winnipeg og vitja Íslendingaslóða við Winnipegvatn. Hér er ferðasagan í máli og myndum.

Vilhjálmur Wiium, ræðismaður Íslands í Manitoba, var svo vinsamlegur að bjóða mér að koma og spjalla um íslenskar kvikmyndir í höfuðborginni, Winnipeg, á 17. júní sem þar kallast dagur Jóns Sigurðssonar og hefur verið haldinn hátíðlegur síðan 1982. Í leiðinni fékk ég nasasjón af kvikmyndabransanum í Manitoba sem og ferð inn í hjarta Íslendingabyggða í Gimli og Riverton sem liggja við Winnipeg vatn í um klukkustundar akstursfjarlægð frá Winnipeg.

Það var sannarlega skemmtilegt, fróðlegt og áhugavert að upplifa stemmninguna á þessum merkilega stað, heimsækja Íslendingaslóðir í Manitoba og upplifa hvernig íslensk menning, tunga og saga liggur þar yfir og allt um kring. Hér er eitt og annað sem fyrir augu bar.

Kvikmyndabransinn í Winnipeg

Á fyrsta degi heimsóknar naut ég leiðsagnar Andrew Gallinger, framkvæmdastjóra þjónustu hjá Manitoba Film and Music, sem er einskonar Kvikmyndamiðstöð Íslands, Film in Iceland og endurgreiðslan í einni stofnun og styður einnig við tónlistarsköpun í fylkinu. Andrew sýndi mér nokkra staði í Winnipeg borg sem hafa verið notaðir sem staðgenglar bandarískra stórborga, til dæmis Chicago og jafnvel New York. Hann benti einnig á að í nágrenni Winnipeg er að finna litla bæi og landssvæði sem svipar mjög til miðvestur ríkja Bandaríkjanna. Andrew sagði mér að Ameríkanar sæktust nokkuð í að skjóta þarna hrollvekjur, þegar ég spurði afhverju nefndi hann auðvelt aðgengi að drungalegum sveitabæjum á gresjunni sem dæmi. Bandarískur kvikmyndaiðnaður sækir mjög til Kanada vegna hagstæðs verðlags og ívilnana, meira um það síðar.

Í The Exchange hverfinu er síðan að finna eldri byggingar og götumyndir sem hafa verið brúkaðar í períódumyndum. Þar kíktum við einnig á The Manitoba Sports Hall of Fame and Museum, þar sem meðal annars má finna sýningu um Winnipeg Falcons, íshokkíliðið frá fyrri hluta 20. aldar sem skipað var mönnum af íslenskum uppruna. Liðið þótti ekki par merkilegt framan af en endaði með því að keppa fyrir hönd Kanada á Ólympuleikunum 1920 og vinna þar fyrstu gullverðlaunin í íshokkíi. Nú vill svo til að Snorri Þórisson hjá Pegasus hefur verið með kvikmynd um þessa skemmtilegu underdog sögu í undirbúningi um nokkurt skeið, vonandi verður af því sem fyrst.

Þaðan lá leiðin í Big Sky Studios, splunkunýtt myndver í hjarta borgarinnar, sem opnaði formlega í upphafi ársins. Þarna er að finna fjögur stúdíó, hvert um sig um 1400 fermetrar með um 12 metra lofthæð. Auk þess er þarna afar rúmgóð aðstaða undir leikmyndasmíði, skrifstofur og annað tilheyrandi. Alls er heildarrýmið rúmir 17 þúsund fermetrar. Allt var þetta ljómandi fínt og hugur í mannskapnum eftir faraldurinn.

Big Sky Studios í Winnipeg er nýkomið í rekstur.
Eitt af fjórum myndverum Big Sky Studios.

Í hádeginu áttum við Andrew skemmtilega stund með Kenny Boyce, sem stýrir utanumhaldi kvikmyndaverkefna og stórviðburða hjá Winnipeg borg. Hann bað kærlega að heilsa góðum kunninga sínum, Jóni Gústafssyni leikstjóra, sem hann umgekkst reglulega þegar Jón dvaldi í borginni á tíunda áratuginum.

Á skrifstofu Manitoba Film and Music var ég fræddur um bransann, sem í grófum dráttum virðist ekki ósvipaður þeim íslenska að umfangi. Þarna eru gerðar á annan tug kvikmynda árlega auk svipaðs fjölda þáttaraða og ýmiskonar annarra verkefna. Um tvö þúsund manns starfa í greininni í Manitoba. Allnokkur hluti byggist á heimsóknum bandarískra tökuliða en heimamyndir eru einnig gerðar, bæði stærri verkefni og minni. Sjóðurinn styrkir þróun, framleiðslu og dreifingu kvikmynda og sjónvarpsefnis. Endurgreiðsla nemur 38% að grunni til, en getur farið uppí allt að 65% að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Einnig er boðið uppá víðtæka þjónustu varðandi tökustaðaleit og annan undirbúning, tengslamyndun við bransann á svæðinu, aðstöðu, útvegun leyfa og ýmiskonar aðstoð meðan á tökum stendur.

Síðdegis var móttaka á glæsilegu heimili ræðismannshjónanna, Vilhjálms og Guðlaugar Erlendsdóttur, sem stendur við Assiniboine ána. Skammt frá má kalla rætur borgarinnar, þar sem Assiniboine mætir Rauðá (Red River) á stað sem kallast The Forks og hefur verið mikilvæg verslunarmiðstöð í yfir sex þúsund ár.

Í móttökunni músiseraði annar gestur ræðismannsins, Sölvi Kolbeinsson saxófónleikari, ásamt Will Bonness píanista. Miklir snillingar báðir. Margt var þarna góðra gesta, þar á meðal áðurnefndur Kenny Boyce, Rod Bruinooge, stjórnandi Manitoba Film and Music; Janis Guðrún Johnson, öldungadeildarþingmaður fyrir Manitoba um árabil og stjórnarformaður Gimli Film Festival; Terry Macleod, kunnur fjölmiðlamaður sem einnig situr í stjórn Gimli Film Festival; Roger Boyer ungur og upprennandi leikstjóri sem undirbýr nú sína fyrstu bíómynd og séra Stefan M. Jonasson ritstjóri Lögbergs-Heimskringlu. Heimskringla var stofnað 1886 og Lögberg 1888. Blöðin runnu saman 1959 og útgáfan var á íslensku fram á áttunda áratug síðustu aldar. Það kemur nú út hálfsmánaðarlega. Við sátum nokkur fram eftir kvöldi og hlustuðum á sagnameistarann Stefan segja frá. Þar var komið víða við og hvergi að tómum kofum.

Ritstjóri Klapptrés og séra Stefan M. Jonasson ritstjóri Lögbergs-Heimskringlu.

Ísland í Kanada: Gimli, Riverton og Sigtryggur Jónasson

Á öðrum degi var haldið til Íslendingabyggða í Gimli og Riverton undir stjórn Vilhjálms ræðismanns. Með í för voru Sölvi og kona hans Andrea Pálsdóttir. Fyrst var áð að Hvítasteini (White Rock) rétt hjá bænum, þar sem fyrstu landnemarnir stigu á land og fyrsta barn þeirra kom í heiminn, 21. október 1885.

Árið 1875 kom fyrsti hópur íslenskra innflytjenda til nýlendu vestan við Winnipegvatn, sem síðar hlaut nafnið Nýja Ísland. Hópurinn átti að nema land við White Mud River í Riverton en vegna kröftugra vinda rak bátinn á land við Willow Point. Á myndinni sést málverkið The Landing at Willow Point sem Arni Sigurdson málaði árið 1950 | Mynd: Vísindavefurinn.
Minnismerkið við Hvítaklett (White Rock).

Í Gimli heilsuðum við uppá Alan Wong, stjórnanda Gimli Film Festival og hans góða teymi, sem er hýst í aðstöðu ræðismannsskrifstofunnar í Gimli. Undirbúningur hátíðarinnar, sem hefst í lok júlí, var á fullu og nokkrar íslenskar kvikmyndir voru til skoðunar, en hátíðin sýnir myndir hvaðanæva frá. Hún var stofnuð 2001 og meðal stofnenda var fyrrnefndur Jón Gústafsson. Eitt helsta kennileiti hátíðarinnar eru kvikmyndasýningar að kvöldi við Winnipeg vatn.

Alan Wong stjórnandi Gimli Film Festival fyrir miðju ásamt teymi sínu.
Útibíó í Gimli við Winnipegvatn í júlí 2016.

Í Gimli, sem morar í íslenskum staðarheitum og örnefnum, er að finna safn um vesturfarasöguna, The New Iceland Heritage Museum. Hér eru nokkrar svipmyndir úr safninu og frá Gimli.

Frá Gimli var för heitið til bæjarins Riverton sem er skammt frá. Við bakka Icelandic River – Íslendingafljóts – er fallegur garður þar sem finna má fjölda minnismerkja um Íslendingabyggðina. Þar tóku á móti okkur Nelson Gerrard, Jóel Friðfinnsson, Val Anderson og Heather McIntosh, aðstandendur Icelandic River Heritage Sites. Nelson, sem er fyrrum kennari og nú fjárbóndi, miðlaði til okkar sögu vesturfaranna af miklum fróðleik. Hann  hefur meðal annars gefið út bækur um efnið auk þess sem hann vann um margra ára skeið við Vesturfarasetrið á Hofsósi. Hann sagði okkur ekki síst frá Sigtryggi Jónassyni (1852–1942) sem kallaður hefur verið faðir nýja Íslands. Nelson hefur meðal annars skrifað um hann svo:

Sigtryggur Jónasson leikur án efa eitt stærsta hlutverkið í þeirri miklu sögu sem hófst með stofnun nýja Íslands við strendur Winnipegvatns árið 1875. Sem leiðtogi með hugsjón, frumkvöðull, stjórnmálamaður og “faðir nýja Íslands”, skipar hann einstakan sess í sögu íslensku þjóðarinnar í Kanada.

Sigtryggur kom frá fábrotnu sveitaheimili á Norðurlandi en reis vegna frumkvæðis síns og hæfileika til valda og áhrifa í sínum nýju heimahögum. Hann varð kanadískur alríkisfulltrúi, flutninga- og timburhöndlari, skipstjóri, ritstjóri og útgefandi og þingmaður á löggjafarþingi Manitoba, svo eitthvað sé nefnt. Líklega var þó einn mesti heiður sem honum hlotnaðist og það sem stóð hjarta hans næst á efri árum, þegar samfélag hans veitti honum titilinn „faðir hins nýja Íslands“.

Við styttu af Sigtryggi Jónassyni í Riverton. Frá vinstri: Jóel Friðfinnsson, Nelson Girrard segir frá, Vilhjálmur Wiium, Andrea Pálsdóttir, Sölvi Kolbeinsson, Val Anderson og Heather McIntosh.
Við styttuna af Sigtryggi Jónassyni í Riverton. Frá vinstri: Val Anderson, Jóel Friðfinnsson, Nelson Girrard, Ásgrímur Sverrisson, Vilhjálmur Wiium, Andrea Pálsdóttir og Sölvi Kolbeinsson | Mynd: Heather McIntosh.

Eftir að hafa skoðað minnismerkin við Íslendingafljót var haldið að Engimýri sem er skammt frá. Þar bjó Sigtryggur síðustu árin. Húsið hefur verið gert upp og er nú safn til minningar um hann. Við þáðum þar veitingar, kaffi og hjónabandssælu og sátum góða stund að spjalli við þetta góða fólk.

Á bakaleið til Winnipeg stoppuðum við í Árnesi, fæðingarstað Vilhjálms Stefánssonar landkönnuðar, en þar má finna þennan minnisvarða um hann.

17. júní í Winnipeg

Þriðji dagur heimsóknar hófst með hátíðlegri stund þar sem lagður var blómsveigur að styttu Jóns Sigurðssonar við þinghús Manitoba í miðborg Winnipeg. Já, ég er að tala um Brautryðjandann. Styttan er semsagt nákvæmlega eins og sú sem stendur á Austurvelli. Nelson hafði áður frætt okkur á því að vestur-Íslendingar voru meðal þeirra sem fjármögnuðu gerð styttunnar af Jóni sem afhjúpuð var 1911. Safnaðist nægt fé til að Einar Jónsson myndhöggvari gæti unnið aðra slíka. Hún kom til Winnipeg 1912 og var sett upp við þinghúsið 1921. Það var sannarlega einstök upplifun að sjá þessa rammíslensku táknmynd í þessu umhverfi.

Eftir þetta var haldið í Winnipeg Art Gallery (WAG) sem er glæsileg bygging, skammt frá þinghúsinu. Þar var heljarinnar dagskrá að viðstöddu margmenni. Sólskríkjukórinn flutti þjóðsöngva beggja landa og ýmislegt fleira, Len Isleifsson þingmaður og Markus Chambers aðstoðarborgarstjóri Winnipeg fluttu ávörp, sjálfur hélt ég tölu um íslenskar kvikmyndir í gegnum tíðina og sýndi brot úr þáttaröðinni Ísland: bíóland. Í framhaldi voru sýndar tvær stuttmyndir, Selshamurinn eftir Uglu Hauksdóttur og Eldhús eftir máli eftir Atla Arnarsson og Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur. Athöfninni lauk með tónlistarflutningi þeirra Sölva Kolbeinssonar og Will Bonness. Um kvöldið spiluðu þeir Sölvi og Will í Scandinavian Cultural Centre og í framhaldi var slegið upp norrænni veislu. Ríkti þar sannkölluð ættarmótsstemmning fram eftir kvöldi.

 

 

Bestu þakkir til Vilhjálms Wiium ræðismanns fyrir boðið, þetta var hin skemmtilegasta upplifun. Þakkir einnig til samferðafólks og allra sem ég hitti.

 

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR