Árni Tryggvason látinn

Árni Tryggvason, einn ástsælasti leikari Íslands, er látinn 99 ára að aldri. Í tilkynningu frá fjölskyldu hans segir að hann hafi látist í gær, 13. apríl, á hjúkrunarheimilinu Eir.

Árni lék í mörgum kvikmyndum og sjónvarpsverkum á löngum ferli, þar á meðal eru Drottinn blessi heimilið (1979) eftir Lárus Ými Óskarsson, Húsið (1982) eftir Egil Eðvarðsson, Atómstöðin (1984) eftir Þorstein Jónsson og Dís (2004) eftir Silju Hauksdóttur. Þá framleiddi hann og kom fram í heimildamyndinni Handfærasinfónían (1993) sem Páll Steingrímsson gerði og fjallaði um smábátaútveg og trillukarla í Hrísey.

RÚV fer yfir ævi hans og störf hér:

Árni fæddist 19. janúar 1924 í Syðri-Vík í Árskógsstrandarhreppi. Eiginkona hans, Kristín Nikulásdóttir, lést í júlí í fyrra. Hún var 94 ára.

Árni lauk námi frá Alþýðuskólanum að Laugum 1943. Hann lauk prófi í leiklist í Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar árið 1948.

Árni hlaut heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands fyrir frábært ævistarf í þágu leiklistar árið 2010. Fjölmargir þekkja hann úr Dýrunum í Hálsaskógi, en hann lék Lilla Klifurmús eftirminnilega í sýningunni í Þjóðleikhúsinu. Söng hans og leik er einnig að finna á ótal öðrum plötum í tengslum við leiklist.

Um árabil var Árni í hópi fremstu leikara landsins, en hann var fastráðinn leikari hjá Leikfélagi Reykjavíkur á árunum 1947 til 1961 og við Þjóðleikhúsið 1961 til 1991. Eftir það lék hann til dæmis í hinum ýmsu sýningum í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og Loftkastalanum.

Leiklist var ekki eina hugðarefni Árna því hann stundaði sjóróðra og gerði út trillu, bæði frá Reykjavík og Hrísey. Þau hjónin dvöldu gjarnan í Hrísey á sumrin, þar sem Árni var trillukarl á hverju sumri árum saman.

Árni gaf út tvær plötur í eigin nafni, sú fyrri kom út 1971 og sú seinni, sem hafði að geyma tónlist úr söngleikjum, kom út 1992.

Ævisaga hans, Lífróður Árna Tryggvasonar leikara, kom út 1991.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR