[Stikla] JARÐSETNING: Glæstar vonir rifnar niður í Lækjargötu

Anna María Bogadóttir arkitekt ræðir við Víðsjá á Rás 1 um heimildamyndina Jarðsetning sem fjallar um niðurrif Iðnaðarbankahússins við Lækjargötu 12 í Reykjavík. Myndin er nú í  almennum sýningum í Bíó Paradís.

Á vef RÚV segir:

Hús Iðnaðarbankans stóð við Lækjargötu 12 í rúm 50 ár og bar vitni um framfarahyggju sjötta áratugs síðustu aldar. Húsið átti að vera hluti af stærra heildarskipulagi sem aldrei náði fullnustu og var að endingu rifið 2017.

„Þetta var mjög táknræn bygging,“ segir Anna María Bogadóttir arkitekt. Iðnaðarbankinn var stofnaður um miðja síðustu öld og byggingin reist við Lækjargötu 12 í miðbæ Reykjavíkur á árunum 1959-1962 og mikið var í hana lagt. „Hún var mikið tákn alþjóðlegs módernisma sem einkenndist af framfarahyggju og trú á hraða og framsýni.“

Stórhýsið var rifið árið 2017 og Anna María gerði heimildamyndina Jarðsetning um niðurrifið sem frumsýnd var á RIFF í fyrra og er nú í almennri sýningu. Hún gaf nýverið út bók um sama efni þar sem hún tvinnar saman hugleiðingar sínar um uppbyggingu og niðurrif, fortíð og nútíð, hið samfélagslega og hið persónulega. Rætt var við Önnu Maríu í Víðsjá á Rás 1.

Iðnaður víkur fyrir ferðaþjónustu
Hús Iðnaðarbankans var reist að fyrirmynd húss Sameinuðu þjóðanna í New York og átti að verða hluti af heildarskipulagi á svæðinu sem ekkert varð að. Bakhlið bankans átti í raun að verða eins konar framhlið að Ráðhústorgi sem stóð til að reisa auk endurnýjunar annarra húsa í kring. Af þessu varð ekki og byggingin skar sig frá öðrum í kring. „Þess vegna var þessi bygging líka alltaf umdeild. Hún var ekki allra en engu af síður gerð af þessum rosalega miklu gæðum.“

Lækjargata 12 skömmu fyrir niðurrif
Anna María speglar niðurrif og uppbyggingu sjötta áratugarins og uppbyggingu nútímans. „Ég segi að byggingin hafi verið fórnarlamb eigin hugmyndafræði.“ Hugmyndafræðin hafi snúist um að vaða svolítið áfram, að láta hluti víkja fyrir nýrri og stærri hlutum. „Þessi hugmynd um bæði vöxt í handiðnaði og verksmiðjuiðnaði sem var á sjöunda áratugnum hefur horfið til baka og nú er meiri áhersla á ferðaþjónustu og hugverkaiðnað.“

Breyttar áherslur í iðnaði hafa áhrif á landslag borgarinnar. „Við sjáum það í miðborginni hvernig ferðaþjónustan er orðin ríkur þáttur í uppbyggingu miðborgarinnar.“ Á reitnum þar sem Iðnaðarbankinn stóð áður hefur nú verið opnað nýtt hótel sem er að einhverju leyti táknrænt fyrir þessa breyttu tíma.

Gengið á auðlindir eins og þær séu óþrjótandi
„Það er mjög mikið niðurrif fram undan. Ég hef stundum bent á að við erum á einhverju stærsta uppbyggingartímabili samfélagsins og ekki síst höfuðborgarsvæðisins.“

Uppbygging og niðurrif fara oft hönd í hönd. Gamalt er látið víkja fyrir nýju og gengið er á auðlindir eins og þær séu óþrjótandi. „Það er hugmyndafræði sem kerfin okkar hafa byggt á og það er hugmyndafræði sem við erum að horfast í augu við að verði að víkja. En við eigum ekki endilega auðvelt með að takast á við það og gera þær breytingar sem eru nauðsynlegar.“

Umhverfisvænast að nota það sem þegar er til
Ríkari krafa um umhverfisvænar lausnir í byggingariðnaði hefur látið á sér kræla. Grænar áætlanir og vottanir verða algengari en Anna María bendir á að umhverfisvænast sé að nota það sem þegar er til. „Umhverfisvænasta byggingin er sú bygging sem þegar stendur, sem þegar er risin.“ Hún segir að það mætti taka með í reikninginn þegar umhverfisfótspor bygginga er reiknað út. „Það eru einhverjir tékklistar og box en það þarf ekki endilega að tékka í boxið hversu mikið þurfti að rífa til að geta byggt þessa umhverfisvænu byggingu.“

Hér þarf að stíga fast til jarðar, að mati Önnu Maríu, að gaumgæfa það sem þegar er til og gæta að viðhaldi bygginga til að hjálpa þeim að lifa áfram. „Byggingaúrgangur, þetta er ótrúlegt magn af úrgangi sem er hérna í hlíðum Vífilfells og Álfsnesi og víðar. Þannig að höfuðborgarsvæðið er með rosalega stórar úrgangskistur.“ Þessi svæði geta þó ekki tekið endalaust við.

Nýju fagnað en hið gamla gleymist
Anna María hefur velt fyrir sér þessu hringrásarkerfi bygginga. Uppbyggingu hins nýja á kostnað hins gamla. Hún vissi að til stóð að rífa gamla Iðnaðarbankann og fékk að fylgjast með niðurrifinu ásamt myndatökumanni. Hún kynntist fagmennsku niðurrifs og segir það áhugavert fyrir sig sem arkitekt að kynnast því ferli. „Við erum alltaf að kynna nýjar teikningar og líkön að því sem koma skal og við fögnum því með veislum og skálum. En þetta niðurrif og jarðsetning er svolítið eins og úrgangurinn sem við leiðum ekki hugann að og það fer fram í kyrrþey.“

„Ég var upptekin af þessum endalokum og úrganginum sem er kominn upp á sjónarsviðið.“ Með auknum vistvænum áherslum í arkitektúr er nauðsynlegt að beina sjónum að öllum líftíma bygginga. „Það er ekki nóg fyrir okkur að sjá hvernig hlutirnir byrja og allt það nýja sem við erum að fá. Við þurfum líka að vita hvernig hluturinn veðrast og þróast og hvar hann endar eftir að við erum búin að nota hann.“

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR