ÆVINTÝRI TULIPOP selst víða um heim

Sýn­ing­ar­rétt­ur á teikni­myndaþáttaröðinni Ævin­týri Tulipop hef­ur nú þegar verið seld­ur til tíu landa. Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri verkefnisins er í viðtali við Morgunblaðið um þættina.

Á mbl.is segir:

Fyr­ir utan Ísland eru sýn­ing­ar þegar hafn­ar í Nor­egi. Í öðrum ríkj­um, s.s. í Finn­landi, Kan­ada, Póllandi, Suður- Afr­íku og í Mið-Aust­ur­lönd­um, hefst sýn­ing þátt­araðanna á næsta ári.

Þætt­irn­ir hafa notið vin­sælda hér á landi og slegið áhorf­enda­met í Sjón­varpi Sím­ans. Eft­ir því sem Morg­un­blaðið kemst næst er þetta fyrsta teikni­myndaþáttaröðin sem bygg­ist á ís­lensku hug­verki sem fer í alþjóðlega dreif­ingu.

„Við erum mjög ánægð með þenn­an ár­ang­ur,“ seg­ir Helga Árna­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri og ann­ar stofn­andi Tulipop.

„Við höf­um stefnt að því um ára­bil að fram­leiða vandaðar teikni­mynd­ir fyr­ir börn, sem henta til alþjóðlegr­ar dreif­ing­ar í sjón­varpi. Þetta er metnaðarfull teikni­myndaþáttaröð sem bygg­ist á ís­lensku hug­viti. Sala á sýn­ing­ar­rétti þátt­anna er því ekki aðeins viður­kenn­ing á þátt­un­um sjálf­um og efni þeirra, held­ur líka á ís­lensku hug­viti og því sem hægt er að skapa hér á landi.“

Hver þáttaröð inni­held­ur 13 þætti, og búið er að semja um fram­leiðslu á fjór­um þáttaröðum. Fyrsta þáttaröðin er sem fyrr seg­ir kom­in í sýn­ingu og fram­leiðsla á ann­arri þáttaröð er langt kom­in. Breska dreif­ing­ar­fyr­ir­tækið Ser­i­ous Kids sér um alþjóðlega sölu þátt­araðar­inn­ar.

Reynslu­mikið fólk í fram­leiðslu
Ævin­týri Tulipop bygg­ist í stuttu máli á hinum sér­ís­lenska æv­in­týra­heimi sem nefn­ist Tulipop og fjöl­breyttu per­són­un­um sem þar búa, en Tulipop-heim­ur­inn hef­ur notið vin­sælda meðal barna og full­orðinna á Íslandi um ára­bil. Þær Helga og Signý Kol­beins­dótt­ir, hönnuður og skap­ari Tulipop-heims­ins, stofnuðu Tulipop árið 2010.

Til að vinna að hand­rits­gerð þátt­anna fengu þær til liðs við sig hóp reynslu­mik­illa hand­rits­höf­unda. Þar má nefna Gunn­ar Helga­son barna­bóka­höf­und, Dav­ey Moore, sem er reynslu­mik­ill bresk­ur höf­und­ur og hef­ur unnið með Puff­in Rock og Rastamou­se svo tek­in séu dæmi, og Sara Daddy, sem hef­ur verið yf­ir­hand­rits­höf­und­ur við gerð barna­efn­is fyr­ir bæði Disney og BBC.

Leik­stjóri þátt­araðar­inn­ar er Sig­valdi J. Kára­son. Fyr­ir utan fjölda ís­lenskra kvik­mynda og sjón­varpsþátta starfaði hann um ár­araðir fyr­ir Lata­bæ og hef­ur því tals­verða reynslu af gerð barna­efn­is. Gísli Gald­ur Þor­geirs­son sem­ur tónlist fyr­ir þætt­ina og Gunn­ar Árna­son í Upp­tekið sér um hljóðvinnslu. Mik­ill metnaður er lagður í tónlist þátt­anna, meðal ann­ars með frum­sömdu lagi og texta í hverj­um þætti.

„Það er mik­il þekk­ing og reynsla til staðar hér á landi til að vinna að efni og fram­leiðslu þátt­anna og við höf­um verið svo hepp­in að fá að njóta þess við fram­leiðslu á Ævin­týri Tulipop,“ seg­ir Helga.

Tal­sett á mörg­um tungu­mál­um
Þá er tölu­verð áhersla lögð á tal­setn­ingu þátt­araðar­inn­ar en um 350 börn mættu í opn­ar áheyrn­ar­pruf­ur fyr­ir hlut­verk­in, sem haldn­ar voru í nóv­em­ber á síðasta ári fyr­ir sýn­ing­ar hér á landi. Þá eru þætt­irn­ir tal­sett­ir á tungu­mál­um allra þeirra landa sem þeir eru sýnd­ir í. Helga seg­ir það skipta miklu máli.

„Tal­setn­ing barna­efn­is fær­ir efnið nær börn­um í hverju landi. Við lít­um þannig á að það auki jafn­framt gæði þátt­anna og þess efn­is sem verið er að sýna börn­um,“ seg­ir hún.

Hún seg­ir að sala á þáttaröðinni sé í raun rétt að hefjast, en stefnt sé að því að fyr­ir lok næsta árs verði búið að selja sýn­ing­ar­rétt til yfir 20 landa, og að þáttaröðin verði kom­in í sýn­ing­ar í yfir 80 lönd­um inn­an nokk­urra ára.

„Við vilj­um að sjálf­sögðu selja þætt­ina sem víðast og telj­um að efni þeirra og boðskap­ur eigi er­indi út um all­an heim,“ seg­ir Helga og vís­ar þar til þess að hver þátt­ur­inn inni­haldi óvænt­ar og skemmti­leg­ar uppá­kom­ur þar sem fimm sögu­per­són­ur þátt­anna þurfa að tak­ast á við fjöl­breytt­ar áskor­an­ir með vináttu og sam­vinnu að leiðarljósi.

Varn­ing­ur til nú þegar
Fram­leiðsla svona þátt­araðar er stórt og um­fangs­mikið verk­efni, en að verk­efn­inu koma hátt í 100 manns í heild­ina. Spurð um fjár­mögn­un verk­efn­is­ins seg­ir Helga að Tulipop hafi fengið til liðs við sig öfl­uga fjár­festa sem hafa veitt verk­efn­inu lið enda hafi þeir haft trú á því. Auk þess hef­ur fram­leiðslan fengið veg­leg­an stuðning frá Kvik­mynda­miðstöð Íslands, Nordisk Film og TV Fond. Verk­efnið fær einnig end­ur­greidd­an hluta þess fram­leiðslu­kostnaðar sem fell­ur til á Íslandi og seg­ir Helga að hækk­un end­ur­greiðslu vegna kvik­mynda­gerðar úr 25% í 35% skipti miklu máli og styðji við áfram­hald­andi upp­bygg­ingu fram­leiðslu­teym­is­ins hér á landi.

Helga seg­ir fram­leiðslu þátt­araðar­inn­ar í raun bara vera byrj­un­ina á ferðalagi Tulipop-hug­verks­ins um heim­inn, en þegar krakk­ar kynn­ast Tulipop-heim­in­um og per­són­um hans á sjón­varps­skján­um verða til fjöl­mörg tæki­færi til að nýta hug­verkið, til dæm­is í út­gáfu bóka, tölvu­leikj­um, leik­föng­um og öðrum varn­ingi. Þá kem­ur sér vel að ýmis varn­ing­ur í kring­um sögu­per­són­ur Tulipop-æv­in­týra­heims­ins er nú þegar til eft­ir þann rúma ára­tug sem fé­lagið hef­ur starfað. Fé­lagið hef­ur hannað og látið fram­leiða yfir 300 vör­ur sem tengj­ast Tulipop og gert svo­nefnda nytja­leyf­is­samn­inga um frek­ari fram­leiðslu á varn­ingi.

„Í flest­um til­vik­um þurfa fram­leiðend­ur að veðja á að sjón­varps­efni eða kvik­mynd­ir nái ákveðnum vin­sæld­um áður en fram­leiðsla og sala á varn­ingi sem þeim teng­ist get­ur haf­ist. Í okk­ar til­viki höf­um við þó það for­skot að varn­ing­ur­inn er nú þegar til og þar er hægt að gera enn meira,“ seg­ir Helga að lok­um.

Hér fyr­ir neðan má sjá sýn­is­horn úr þátt­un­um.

 

HEIMILDMbl.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR