spot_img

Ingvars Lundberg minnst á Eddunni

Ingvars Lundberg, hljóðmanns, var minnst í ræðum þeirra Björns Viktorssonar og Rögnu Kjartansdóttur, þegar þau tóku við verðlaunum fyrir hljóð ársins á Eddunni í gær. Björn og Ingvar unnu saman að hljóðinu í kvikmyndinni Dýrið, sem vann til 12 verðlauna á hátíðinni.

Ingvar Lundberg.

RÚV segir frá:

Björn Viktorsson og Ingvar Lundberg unnu verðlaun fyrir hljóð ársins í kvikmyndinni Dýrið á Eddunni í gær. Ingvar féll frá í sumar og fyrir hans hönd tók Ragna Kjartansdóttir við verðlaununum. Þau Björn og Ragna minntust hans í ræðum sínum.

„Ingvar kom með krafti inn í eftirvinnslu myndarinnar í janúar 2020 og endaði með því að mixa myndina síðar um vorið,“ minnist Björn. „Það var alltaf gaman að vinna með Ingvari. Hann var fagmaður fram í fingurgóma sem kunni sannarlega að hlæja og taka öllu þessu bíóstressi mátulega alvarlega.“ Björn þakkaði Ingvari kærlega fyrir samstarfið í Dýrinu og öllum öðrum kvikmyndaverkefnum undanfarin 20 ár. „Vertu sæll elsku vinur,“ sagði hann að lokum.

Ragna Kjartansdóttir tók við verðlaununum fyrir hönd Ingvars og Santíu eiginkonu hans. „Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að kynnast Ingvari í gegnum vinnuna og urðum við bestu vinir frá fyrsta degi,“ segir Ragna. „Ingvar hvatti mig áfram, stöðugt, og fram að síðasta degi sem að við hittumst. Hann talaði aldrei niður til mín og gaf alveg ótrúlega mikið af sér og nálgaðist allt sem hann tók sér fyrir hendur af alúð og einlægni.“ Ragna segist hafa lært af Ingvari að verkefnin komi og fari „en grípum hvert einasta tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á hvert annað og koma vel fram. Jafnvel við þær erfiðu aðstæður sem er oftast að vinna við kvikmyndir.“

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR