Hvaða verk í undirbúningi falla undir 35% endurgreiðsluna og hver ekki?

35% endurgreiðslan er hugsuð fyrir stærri verkefni og þá ekki síst af erlendum toga. Ljóst er þó að ýmsar innlendar bíómyndir og þáttaraðir falla undir hækkaða endurgreiðslu.

Á vef Kvikmyndamiðstöðvar eru upplýsingar um ýmsar bíómyndir og þáttaraðir sem stefna að tökum á næstu mánuðum og misserum og hafa fengið styrkvilyrði. Kostnaðaráætlanir þessara verka eru mjög mismunandi. Til fróðleiks verða þau verk talin til sem eru bæði yfir og undir 350 milljónum króna. Tekið skal fram að Klapptré hefur engar upplýsingar um stöðu endurgreiðsluumsókna þessara verkefna, aðeins er verið að nefna þau verk sem eru yfir eða undir 35% endurgreiðslulágmarkinu.

Þetta er sett fram með þeim fyrirvara að til að njóta 35% endurgreiðslu þarf að eyða að lágmarki 350 milljónum króna hér á landi. Flest stærri verkefni byggja á samframleiðslu og slíkt fjármagn er oft háð því skilyrði að því sé varið að einhverju eða öllu leyti í upprunalandi. Upplýsingar um slíkan fjármögnunarstrúktúr einstakra verkefna liggur ekki fyrir.

Þessi verk kosta yfir 350 milljónir króna

Blessað stríðið, bíómynd í leikstjórn Gríms Hákonarsonar. Vilyrði kr. 180.000.000. Styrkhlutfall kemur ekki fram, en gera má ráð fyrir að kostnaður sé vel yfir 350 mkr.

Snerting, bíómynd í leikstjórn Baltasars Kormáks. Vilyrði kr. 150.000.000. Styrkhlutfall er 15% og heildarkostnaður því um milljarð króna.

Afturelding, þáttaröð í leikstjórn Hafsteins Gunnars Sigurðssonar ofl. Vilyrði kr. 70.000.000. Styrkhlutfall er 16,7% og heildarkostnaður því um 420 milljónir króna.

Heima er best, þáttaröð í leikstjórn Tinnu Hrafnsdóttur. Vilyrði kr. 70.000.000. Styrkhlutfall er 13,7% og heildarkostnaður því um 511 mkr.

Þessi verk kosta undir 350 milljónum króna

Einvera, bíómynd í leikstjórn Ninnu Pálmadóttur. Vilyrði kr. 120.000.000. Styrkhlutfall er 50,4% og heildarkostnaður því tæpar 240 mkr.

Fjallið, bíómynd í leikstjórn Ásthildar Kjartansdóttur. Vilyrði kr. 110.000.000. Styrkhlutfall er 58,7% og heildarkostnaður því um 190 mkr.

Natatorium, bíómynd í leikstjórn Helenu Stefánsdóttur. Vilyrði kr. 110.000.000. Styrkhlutfall er 47,3% og heildarkostnaður því um 233 mkr.

Ormhildarsaga, kvikuð þáttaröð í leikstjórn Þóreyjar Mjallhvítar H. Ómarsdóttur. Vilyrði kr. 60.000.000. Styrkhlutfall er 31,8% og heildarkostnaður því um 190 mkr.

Kuldi, bíómynd í leikstjórn Erlings Óttars Thoroddsen. Vilyrði kr. 110.000.000. Styrkhlutfall er 41,7% og heildarkostnaður því um 265 mkr.

Nýleg verk sem hefðu fallið undir 35% endurgreiðslu

Ekki eru hér talin til verk þar sem tökum er lokið, en til fróðleiks má nefna tvær bíómyndir sem teknar voru upp fyrr á árinu og hefðu fallið undir 35% endurgreiðsluna, annarsvegar Fearless Flyers (áður Northern Comfort) í leikstjórn Hafsteins Gunnars Sigurðssonar og hinsvegar Napóleonsskjölin í leikstjórn Óskars Þórs Axelssonar. Kostnaður við hvora mynd er hátt í milljarð króna.

Þær þáttaraðir sem sýndar hafa verið á þessu og síðasta ári kostuðu flestar langt yfir 350 milljónum króna (til dæmis Verbúðin, Vitjanir, Stella Blómkvist 2, Svörtu sandar, Katla, Systrabönd og Ófærð 3).

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR