HÆKKUM RÁNA verðlaunuð á Berlinale

Heimildamyndin Hækkum rána eftir Guðjón Ragnarsson hlaut í gærkvöld verðlaun Evrópsku barnakvikmyndasamtakanna (European Children’s Film Association) sem veitt eru í tengslum við Berlinale kvikmyndahátíðina sem nú stendur yfir.

Þetta kemur fram á vef RÚV:

Hækkum rána var frumsýnd á síðasta ári og fjallar um réttindabaráttu átta til þrettán ára stúlkna sem vilja breyta viðmiðum í kvennakörfu á Íslandi og eru þjálfaðar af Brynjari Karli Sigurðssyni sem hækkar í sífellu rána. Þetta eru fimmtu verðlaunin sem falla myndinni í skaut.

„Já við vorum að vinna verðlaun sem European Childrens Film Association veitir á hverju ári fyrir bestu heimildamynd ársins fyrir börn 2021. Við unnum tvenn verðlaun í Belgíu síðastliðið haust og þau gerðu það að verkum að við komumst inn á þennan lista,“ segir Margrét Jónasdóttir.

Hún er framleiðandi myndarinnar fyrir Sagafilm og Outi Rousu er meðframleiðandi fyrir finnska framleiðslufyrirtækið Pystymetsä Oy.

„Myndin hefur verið á ferð og flugi um heiminn og er finnsk meðframleiðsla. Þar gekk hún vikum saman í bíó,“ segir Margrét. Myndin fer svo til Körfuboltasambandsins til sýningar fyrir þjálfara og þaðan inn i skólakerfið að sögn Margrétar.

Hún segir sömuleiðis að Hækkum rána verði fljótlega sýnd á RÚV. Hún verður sömuleiðis sýnd á fleiri kvikmyndahátíðum. „Næst er barnakvikmyndahátíð í Noregi og svo er hún að fara af stað i dreifingu i Bandaríkjunum,“ segir Margrét.

Berlinale kvikmyndahátíðin er nú haldin í 72. skipti í Berlín, hófst 10. febrúar og stendur til 20. febrúar.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR