Morgunblaðið um þættina ÍSLAND: BÍÓLAND: Í einu orði sagt frábærir

Björn Jóhann Björnsson aðstoðarfréttastjóri á Morgunblaðinu skrifaði um þáttaröðina Ísland: bíóland í dálkinum Ljósvakinn á dögunum og kallaði þættina meðal annars ómetanlega heimild um sögu íslenskra kvikmynda.

Björn skrifar:

Nýverið lauk sýningum á Bíólandi á RÚV, tíu þáttum um sögu kvikmyndagerðar hér á landi til vorra daga, nánar tiltekið til ársins 2019. Þættirnir eru í einu orði sagt frábærir og eiga Ásgrímur Sverrisson og hans samstarfsmenn hrós skilið fyrir framleiðsluna. Ásgrímur var leikstjóri þáttanna, skrifaði handritið, var sögumaður og kom einnig að klippingu ásamt Þorkeli S. Harðarsyni. Örn Marinó Arnarson stjórnaði kvikmyndatöku og tónlist Sunnu Gunnlaugsdóttur setti sterkan svip á þættina.

Farið var yfir ákveðið tímabil í hverjum þætti og fróðlegt að sjá hvernig þessi listgrein hefur þróast í höndum íslenskra kvikmyndagerðarmanna. Á skömmum tíma hafa framfarirnar verið gríðarlegar. Ekki hafa allir slegið í gegn og Ljósvaki sá þarna brot úr myndum sem hann hafði aldrei heyrt af áður eða séð, um leið og gömul og góð kynni við þekktar myndir voru rifjuð upp.

Bíóland er ómetanleg heimild um sögu íslenskra kvikmynda. Sagan skrifar sig á hverjum degi og gætu Ásgrímur og félagar gert þátt eftir hvert ár hér eftir. Frá árinu 2019 hefur mikið gerst í heimi íslenskra mynda, þrátt fyrir Covid, og framtíð greinarinnar er björt. Við erum ekki lengur að fjalla alfarið um þunglynda afdalabændur og einbúa, sjóndeildarhringurinn hefur stækkað, kunnáttan aukist og áhugi Íslendinga á að sjá gott bíó er enn til staðar.

Rétt er að taka fram að höfundur þáttaraðarinnar er jafnframt ritstjóri Klapptrés.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR