Arnar Eggert Thoroddsen menningarfræðingur skrifar um tónlist Hilmars Arnars Hilmarssonar við kvikmyndina Börn náttúrunnar, sem 12 tónar hafa nú endurútgefið á vínil og geisladisk.
Umfjöllun Arnars er á vef hans arnareggert.is:
Kvikmyndin Börn náttúrunnar (1991) eftir Friðrik Þór Friðriksson vann sér fljótt sess sem eitt helsta þrekvirki Íslendinga í þeim listmiðli og er eina íslenska kvikmyndin í fullri lengd sem hefur verið tilnefnd til Óskarsverðlauna en hún var tilnefnd í flokknum Besta erlenda kvikmyndin árið 1992. Næmi og fegurð myndarinnar var listavel undirstrikuð með tónlist sem Hilmar Örn Hilmarsson samdi. Eftir henni var sömuleiðis tekið og fékk Hilmar Felix-verðlaunin svokölluðu sama ár, eða evrópsku kvikmyndaverðlaunin.
Útgáfusaga tónlistarinnar er athyglisverð en það var ekki fyrr en fimm árum síðar (1996) að hið virta merki Touch gaf hana út (og svo aftur árið 2003). Touch einbeitir sér að útgáfu framsækinna nútímatónskálda og hefur m.a. gefið út plötur með Jóhanni Jóhannssyni (Englabörn, 2002), Oren Ambarchi, Christian Fennesz og Hildi Guðnadóttur svo fátt eitt sé nefnt. Tónlistin hefur verið ófáanleg á markaði um allnokkurt skeið og gerðu 12 tónar loks gangskör í þeim efnum og endurútgáfu á síðasta ári, bæði á geisladisk og vínil, en tónlistin hefur ekki verið pressuð á síðarnefnda formið áður. Á meðal tónlistarmanna sem fram koma á þessari bráðum þrjátíu ára gömlu plötu eru Szymon heitinn Kuran (fiðla), Joolie Wood (fiðla), Stefán Örn Arnarson (selló), Chhimed Rig’dzin Rinpoche (kangling og damaru) og Sigtryggur Baldursson (slagverk). Tónlistin var tekin upp í Stúdíó Sýrlandi, af þeim Hilmari (HÖH) og Tómasi Magnúsi Tómassyni, sem, eins og Szymon, er farinn yfir móðuna miklu.
Hilmar átti eftir að vinna tónlist við fjölda mynda í kjölfarið, var nokkurs konar hirðskáld Friðriks en vann einnig að erlendum myndum og voru þær taldar í tugum á tíunda áratugnum og þeim fyrsta. M.a. á Hilmar tónlistina við In the Cut (2003) sem Jane Campion leikstýrði.
Það rennur ýmislegt í gegnum hugann er maður sækir þessa vel heppnuðu tónlist aftur heim. Hilmar var á þessum tíma brautryðjandi á margan hátt og heyra má t.d. í Sigur Rós og Jóhanni Jóhannssyni í tónlistinni. Sigur Rós var þó ekki stofnuð fyrr en þremur árum síðar og átti u.þ.b áratug í það að sækja á lík mið, og þá reyndar með HÖH sér við hlið (hér er ég að tala um tónlist Hilmars við Engla alheimsins). Þannig að þar sem ég sit og hlusta á hið ægifagra „Suðurgata“ verður himinljóst hversu þungt listræna pundið er í honum HÖH okkar, hann deilir næminu og fegurðarinnsæinu með kollegum sínum í Sigur Rós og snillimenninu Jóhanni Jóhannssyni sem áttu eftir að fara með þetta skapalón um veröld víða síðar meir. Um leið uppgötvar maður, sér til skelfingar, hversu lítið nafni hans er haldið á lofti í dag.
Ég gróf upp gamalt viðtal í Morgunblaðinu, er ég var að rannsaka fyrir þennan pistil, spjall sem sjálfur Arnaldur Indriðason átti við HÖH árið 1991, en þá var sá síðarnefndi byrjaður að vinna að tónlist fyrir myndina Svo á jörðu sem á himni eftir Kristínu Jóhannesdóttur. Þar segir hann m.a.: „Börn náttúrunnar er óskaplega rík mynd af tilfinningum og ég vissi frá upphafi að ekkert gæti farið úrskeiðis… Ég áttaði mig fljótlega á því að ég yrði að nota strengi mikið. Það kemur af sjálfu sér þegar fjallað er um aldrað fólk, þá notar maður ekki hljóðgervla. Tónlistin byggist mikið á klisjum. Uppistaðan er fiðla í bland við ástríðufulla sígaunatóna. Hún leitar því í klisjurnar en ég reyni að umbreyta klisjunni þannig að hún lifni og verði eitthvað meira; undirstriki það sem gerist. Kvikmyndatónlistin á að hverfa í bakgrunninn. Hún á alls ekki að skera sig úr, hún er hluti af myndinni í heild.“ Allt um það stendur tónlistin engu að síður glæsilega utan myndar, eins og jafnan er með það besta í þessum fræðum.