HVERNIG Á AÐ VERA KLASSA DRUSLA og SKUGGAHVERFIÐ hefja íslenska bíóárið

Hvernig á að vera klassa drusla eftir Ólöfu Birnu Torfadóttur og Skuggahverfið eftir Karolina Lewicka og Jón Einarsson Gústafsson verða báðar frumsýndar í febrúar og hefja þar með íslenska bíóárið.

Hvernig á að vera klassa drusla verður frumsýnd 5. febrúar í Senubíóunum. Ásta Júlía Elíasdóttir, Ylfa Marín Haraldsdóttir, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Þorsteinn Bachmann fara með helstu hlutverk.

Karen, lífsreynd sveitapía, kemur á vel pimpaða bílnum sínum að sækja vinkonu sína Tönju, fáláta borgarsnót, sem akkúrat á því augnabliki er að lemja sokkum í andlitið á kærastanum og hætta með honum enn eina ferðina. Þær stöllur halda saman út á land þar sem þær hyggjast vinna á stóru sveitabýli yfir sumarið. Tanja á erfitt með sig eftir sambandsslitin og virðist strax sjá eftir ferðinni en þegar á býlið er komið fellur hún fljótt fyrir myndarlegum sveitapilti þar á bæ. Hins vegar þegar tilraunir hennar til að heilla piltinn upp úr skónum misheppnast herfilega byrjar hún að dást að því hvernig Karen virðist geta sofið hjá hverjum sem er án væntinga eða eftirmála. Tanja biður því Kareni um að kenna sér að vera eins og hún. Kenna henni hvernig á að vera klassa drusla.

Skuggahverfið verður frumsýnd 19. febrúar í Senubíóunum, en myndin var frumsýnd á RIFF 29. september 2020. Edda Björgvinsdóttir, Brittany Bristow, John Rhys-Davies, Kolbeinn Arnbjörnsson, Ingamaría Eyjólfsdóttir, Atli Óskar Fjalarsson, Rúnar Freyr Gíslason, Bryndís Petra Bragadóttir, Valgeir Skagfjörð og Erla Ruth Harðardóttir skipa leikhópinn.

Ung kona erfir hús ömmu sinnar sem hún hitti aldrei, í borg sem hún hefur aldrei séð. Í trássi við vilja móður sinnar leggur hún í ferðalag til að ná skilningi á sársauka fortíðarinnar, en með þeirri ákvörðun veldur hún uppnámi og róti sem hún kemst ekki lifandi frá nema með aðstoð látinna forfeðra og -mæðra.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR