Konur atkvæðamiklar í Eddutilnefningum í ár

Frá Eddunni 2019 (mynd: Eddan)

Davíð Roach Gunnarsson hjá Menningarvef RÚV tekur saman tölulegar staðreyndir um Eddutilnefningarnar og vekur meðal annars athygli á áberandi hlut kvenna í ár.

Davíð skrifar meðal annars:

Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason hlaut flestar tilnefningar til Edduverðlauna eða 12 talsins. Agnes Joy eftir Silju Hauksdóttur og Pabbahelgar eftir Nönnu Kristínu Magnúsdóttir fengu tíu tilnefningar hvor. Athygli vekur að konur eru atkvæðamiklar í tilnefningunum í ár en kvikmyndabransanum hefur löngum verið legið á hálsi fyrir að vera karllægur.

Hvítur, hvítur dagur er meðal annars tilnefnd sem kvikmynd ársins, fyrir handrit, leikstjórn, klippingu, leikmynd og kvikmyndatöku. Þá er Ingvar E. Sigurðsson tilnefndur fyrir besta leik í aðalhlutverki, Hilmir Snær sem besti aukaleikari og Ída Mekkín Hlynsdóttir sem besta leikkona í aukahlutverki. Pabbahelgar eru tilnefndar sem leikið sjónvarpsefni ársins, fyrir handrit, leikstjórn, brellur og tónlist, auk þess sem Nanna Kristín, Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson eru tilnefnd fyrir leik.

Agnes Joy er tilnefnd sem kvikmynd ársins og fyrir handrit, hljóð, klippingu og tónlist. Þá eru Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Donna Cruz tilnefndar sem bestu leikkonur í aðal- og aukahlutverki, og Þorsteinn Bachman og Björn Hlynur eru báðir tilnefndir sem leikari ársins í aukahlutverki. Ófærð 2 er tilnefnd sem leikið sjónvarpsefni ársins og fyrir bestu búninga, brellur og gervi auk þessa sem Sólveig Arnarsdóttir og Unnur Ösp Stefánsdóttir eru tilnefndar fyrir leik í aukahlutverki.

Það vekur athygli að margar konur eru tilnefndar í flokkum þar sem karlar hafa löngum verið ráðandi. Til dæmis eru Nanna Kristín Magnúsdóttir og Silja Hauksdóttir tilnefndar fyrir leikstjórn ársins og tveir af þremur sem tilnefndir eru fyrir kvikmyndatöku ársins eru konur. Þá eru tvær konur tilnefndar fyrir tónlist ársins og fjórir af fimm sem tilnefndir eru sem sjónvarpsmenn ársins eru konur.

Sjá nánar hér: Hvítur, hvítur dagur með flestar tilnefningar

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR