spot_img

Stjórn ÍKSA: Edduþátturinn á RÚV í kvöld ekki í beinni útsendingu

Stjórn Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar (ÍKSA) hefur sent frá sér tilkynningu varðandi Edduverðlaunaþáttinn sem sýndur verður á RÚV í kvöld, þriðjudag, kl. 20.
Tilkynningin er svohljóðandi:
Í kvöld verður tilkynnt um hverjir hljóta Edduverðlaunin, íslensku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin, árið 2020. Í þættinum sjáum við þegar nokkrum verðlaunahöfum var komið á óvart fyrr í vikunni auk þess sem tilkynnt verður um sigur í öðrum flokkum.
Í ljósi þeirra tíðinda að sóttvarnalæknir, Þórólfur Guðnason, hyggist leggja til að aðgerðir vegna útbreiðslu COVID-19 verði hertar vill stjórn ÍKSA taka fram að þátturinn var tekinn upp og er það í fyrsta sinn sem Edduhátíðin er unnin með þessum hætti.
,,Við vildum gæta fyllsta öryggis varðandi að tilkynna og afhenda verðlaunin. Það er erfiðara að gæta að slíku í beinni útsendingu og því ákváðum við að taka upp óvæntar uppákomur, viðtöl og kynningar. Það var vandað mjög til verka við gerð þáttarins og ég fullyrði að þetta er verður góð skemmtun og að einhverjum verður vissulega komið á óvart. Það er gríðarlegur léttir að við skyldum hafa ákveðið að fara þessa leið því ef það hefði staðið til að vera í beinni útsendingu í kvöld þá hefðum við þurft að fresta Eddunni enn aftur miðað við nýjustu tíðindi”, segir Hlín Jóhannesdóttir formaður stjórnar ÍKSA.
Þátturinn verður sýndur á RÚV klukkan 20, verðlaunaflokkarnir eru 28 talsins.
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR