María Sólrún Sigurðardóttir leikstjóri sækir í eigin reynslu í mynd sinni Adam, sem sýnd verður á Alþjóðlegri barnamyndahátíð í Bíó Paradís um helgina. Friðrika Benónýsdóttir ræddi við hana fyrir Mannlíf.
Úr viðtalinu:
Leikstýrði syninum án orða
María Sólrún er sjálf rúmlega fimmtug og Adam er hennar fyrsta mynd í fullri lengd síðan 2004, hvað ýtti henni af stað aftur?
„Að börnin voru farin að heiman,“ segir hún og hlær. „Ég var alveg búin að vera með leikstjórnarverkefni í þessi fjórtán ár sem voru komin vel áleiðis og það var komin milljón evra í eitt þeirra þegar það sprakk. Og ég var kannski búin að fá leiða á því að eltast við það að rúlla upp verkefnum eftir þessu munstri. Að vera með handrit sem við erum að þróa og umskrifa og umskrifa aftur og svo koma einhverjir frá sjónvarpsstöðvunum og verða að fá að segja sitt og svona gengur það fram og til baka. Mig langaði að leyfa sköpunargáfunni að fá meiri útrás og gera þetta öðruvísi fyrst ég var að þessu á annað borð. Gera þetta á mínum eigin forsendum og fjármagna það sjálf. Ég sleppti því til dæmis að skrifa handrit, sem sumum þykir skrýtið þar sem ég hef hingað til aðallega unnið við að skrifa handrit. Ég vildi bara gera þetta skemmtilegt, vera með smávegis tilraunastarfsemi. Við byrjuðum með hugmynd og karakter sem var með stórt vandamál sem okkur fannst snerta okkur. Við fórum pínulítið í þetta eins og heimildarmyndagerðarmenn, fylgdumst með karakternum og því sem hann var að takast á við. Svo klipptum við það efni sem við vorum komin með og langaði þá að gera meira, þannig að þetta varð þriggja ára ferli, þar sem við vorum að taka og klippa, taka meira og klippa það. Svoleiðis vinnubrögð getur maður vanalega ekki fjármagnað og leyft sér.“
Og ennfremur:
Við tölum um það í sjónvarpsþáttum samtímans að fjalla um konur og ég spyr, eins og auli, hvort María haldi að það sé komið til að vera, eða hvort konur fái bara sviðsljósið núna af því það er búið að þrýsta svo harkalega á kvikmyndafyrirtækin. Það þykir henni fáránleg spurning.
„Ég held að þetta sé komið til að vera,“ segir hún ákveðin. „Þetta er eins og að spyrja svart fólk hvort þessar myndir með áherslu á reynslu svartra séu ekki bara tískufyrirbæri. Kannski eru orðnir margir þættir um konur núna, en í vinnu minni sem ráðgjafa hjá kvikmyndasjóði hef ég ekki orðið vör við það að konur séu að taka kvikmyndagerðina yfir. Það eru enn fleiri karlar sem sækja um, þannig að í augnablikinu er alla vega engin hætta á að þeim verði bolað út.“
Sjá nánar hér: Bað börnin að hjálpa sér að deyja – Mannlíf