Viðhorf | Hlutskipti mannsins, bíóið og Trump

Komnir eru dagarnir sem þú segir um: mér líka þeir ekki, segir í ljóði Snorra Hjartarsonar með vísun í 12. vers Prédikara Gamla testamentisins. Bæði ljóð og vísun eru hugleiðing um örlög mannsins og smæð gagnvart hlutskipti sínu.

En segjum það í lifandi myndum: Kvikmyndir og sjónvarp hafa einnig haft eitt og annað fram að færa um þetta atriði og nú þegar fígúra úr “raunveruleikaþætti” hefur verið kjörin forseti Bandaríkjanna er sjálfsagt að tína til nokkur dæmi um hvernig sagt hefur verið fyrir um þessa týpu (jafnvel í bókstaflegum skilningi), hvernig henni hefur verið lýst og hvernig hægt er að veita hjálp í viðlögum gegn þessum ósköpum.

Við sögu koma jafn ólík verk og The Deer Hunter, Home Alone, Back to the Future, The Candidate, Northern Exposure, Raiders of the Lost Ark og The West Wing.

Guðsblessun

Fyrstu viðbrögð við kjöri Trump eru auðvitað ákveðið sjokk og því er hér er lokasenan í þeirri afbragsfínu The Deer Hunter eftir Michael Cimino – með vísun til frægra orða Geir Haarde:

Leikarinn Trump

Þaðan skal haldið beint inní gin ljónsins. Trump hefur komið fram í nokkrum myndum og sjónvarpsþáttum, t.d. Home Alone 2, Spin City og Sex and the City. Sjálfur hefur hann verið óvenju hógvær um hæfileika sína á þessu sviði. Hér er stutt yfirferð:

Á valdi örlaganna?

Bob Gale, handritshöfundur hinnar epísku trílógíu Back to the Future þar sem fjallað er um spurninguna hvort maðurinn geti með gjörðum sínum skapað sér sín eigin örlög, hefur sagt að fyrirmyndin að illmenninu Biff Tannen sé engin annar en Trump.

“We thought about it when we made the movie! Are you kidding?” Gale said to the Daily Beast. “You watch Part II again and there’s a scene where Marty confronts Biff in his office and there’s a huge portrait of Biff on the wall behind Biff, and there’s one moment where Biff kind of stands up and he takes exactly the same pose as the portrait? Yeah.”

Hér er atriðið sem hann vísar í úr Back to the Future Part 2 – erum við ekki stödd núna í þessari dystópísku hliðarveröld?:

Í þessu sambandi er ágætt að rifja upp hvernig Biff náði sér á strik (úr sömu mynd):

Hinar óvæntu vendingar

Í maí 2004 skrifaði Árni Þórarinsson ítarlega grein í Morgunblaðið um forsetaferil Ólafs Ragnars Grímssonar. Þar er meðal annars að finna þennan kafla um viðbrögð Ólafs þegar hann sá hvað í stefndi í kosningunum 1996:

Þetta [mikla] fylgi, sem samkvæmt greiningum í könnunum virtist vera úr öllum stjórnmálaflokkum, þ. á m. Sjálfstæðisflokknum, kom Ólafi Ragnari sjálfum í opna skjöldu, svo mjög að hann sagði við samstarfsfólk sitt, eitthvað á þessa leið: “Ja, hérna. Hvað gerum við núna?”

Hvort kvikmyndagagnrýnandanum Árna hafi verið hugsað til þeirrar ágætu myndar The Candidate (1972) eftir Michael Ritchie, skal ósagt látið en þar leikur Robert Redford mann sem býður sig fram til öldungadeildar Bandaríkjaþings og (Höskuldarviðvörun!) hefur óvæntan sigur. Hann hefur enga reynslu í pólitík og er afskrifaður af flestum frá upphafi til síðasta dags. Svipað má segja um Trump og hvur veit, kannski er hann í álíka miklu sjokki. Þó skal tekið fram að persóna Redford er ólíkt geðslegri karakter. Hér er lokaatriði myndarinnar:

Til dýrðar sjálfum sér

Ein helsta persóna í þeirri frábæru þáttaröð Northern Exposure er stórgrósserinn, geimfarinn og fordómafulli íhaldskurfurinn Maurice Minnifield, meistaralega leikinn af Barry Corbin.

Maurice Minnifield.
Maurice Minnifield.

Maurice er litríkur karakter af gamla skólanum, tortrygginn á allt utan hefbundinna “amerískra gilda”, skiptir heiminum í “okkur” og “þau”, vel efnaður en stöðugt með miklar fyrirætlanir á prjónunum sem oftast verður lítið úr, rekur eins manns útvarpsstöð í litla þorpinu í Alaska þar sem þættirnir gerast og vísar stöðugt til hins mikla fjölmiðlaveldis síns, hamrar á því að múgur og margmenni muni streyma í þetta þorp útí hundsrassi og kallar það “The Alaskan Riviera” – og svo framvegis. Semsagt; frábær sölumaður, frekur og fyrirferðarmikill og finnst sjálfsagt að heimurinn snúist um sig. Hann á það þó til að halda glæsilegar veislur fyrir þorpsbúa þar sem ekkert er til sparað í mat, drykk og öðrum viðurgjörningi – en þær, líkt og flest sem Maurice tekur sér fyrir hendur, þjóna því grundvallarmarkmiði að vera honum sjálfum til dýrðar.

Útvarpsstjórinn – og eini starfsmaðurinn – plötusnúðurinn Chris Stevens, var heimspekilega sinnaður:

chris

Hér er svo smá kafli um samskipti þeirra, þetta er úr einum allra besta þættinum, The Big Feast, þar sem Maurice heldur áðurnefnda veislu:

Ofurlítil huggun

Margir eru í áfalli fyrir tíðindum dagsins og verkjar að innan sem utan. Hér er ofurlítil áfallahjálp fyrir döpur hjörtu úr ævintýramyndinni Raiders of the Lost Ark eftir Steven Spielberg:

Ef bara…

Og loks, talandi um hliðarveröld. Smá bútur með besta forseta Bandaríkjanna fyrr og síðar, Josiah Bartlett úr The West Wing. Takk Aaron Sorkin! Hefði frekar kosið að þú skrifaðir þetta handrit.

 

 

 

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR