spot_img

Viðhorf | Verum samferða inn í framtíðina

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri.
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri.

Fjölmiðill í þjónustu almennings þarf bæði að skipta máli og koma að gagni. Í yfir 80 ár hefur Ríkisútvarpið verið samferða þjóðinni við leik og störf, boðið upp á fréttir og dagskrá sem upplýsir, fræðir og skemmtir, verið hreyfiafl góðra verka og ávallt staðið vaktina þegar mikið liggur við.

Staða RÚV í dag er traust og við erum vel í stakk búin til að aðlagast tækni- og samfélagsbreytingum. Sem hluta af stefnumótun leitum við nú eftir aðkomu almennings til að móta áherslur og forgangsröðun RÚV til framtíðar. Þannig vonumst við til að geta sem best sinnt því hlutverki sem þjóðin væntir af Ríkisútvarpinu sem við eigum saman.

Nýjar áherslur skila aukinni ánægju

Á undanförnum misserum höfum við lagt enn ríkari áherslu á sérstöðu Ríkisútvarpsins með því að setja innlent efni og menningarefni í forgang, bæta þjónustu við landsbyggðina og umbylta þjónustu við börn. Áhersla á nýtt íslenskt leikið efni hefur verið stóraukin og vandaður fréttaflutningur færir okkur nær viðburðum hér heima og á alþjóðavísu. Við höfum hafið samtal við áhorfendur og hlustendur um land allt, meðal annars með hringferð um land allt og stuðlum þannig að því að þjónustan þróist til framtíðar í takt við óskir ykkar.

Viðhorf almennings til RÚV jákvæðara en nokkru sinni fyrr

Reglulegar hlustunar- og áhorfsmælingar draga fram mikla notkun þjóðarinnar á miðlum RÚV en ný viðhorfskönnun Gallup staðfestir einnig að jákvæðni þjóðarinnar gagnvart RÚV og þjónustu þess hefur ekki verið meiri frá því Ríkisútvarpið ohf. var stofnað árið 2007. Tæp 73% aðspurðra eru jákvæð gagnvart Ríkisútvarpinu. Könnunin staðfestir mikla og aukna ánægju með flesta þætti starfsemi RÚV og almenna sátt um nýjar áherslur. Aukin áhersla RÚV á fjölbreytt íslenskt efni og menningu í miðlum RÚV fellur í frjóan jarðveg en mikill meirihluti svarenda leitar helst eftir íslensku efni, fréttum og menningarefni í miðlum Ríkisútvarpsins. Ánægja með dagskrá Rásar 1 og RÚV sjónvarps hefur verið að aukast og 63% landsmanna eru ánægðir með efnisval á RÚV.is.  KrakkaRÚV, ný þjónusta við börn, fær frábær viðbrögð og notkun almennings og ánægja með Sarpinn hefur aldrei verið meiri. Sem fyrr nýtur RÚV yfirburðatrausts á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Velvild og velgengni sem staðfest er í könnuninni er þó fyrst og fremst hvatning um að halda áfram og gera enn betur. Því horfum við nú fram á veginn til að tryggja áframhaldandi daglegt samtal við íslenskan almenning.

Taktu þátt í að móta framtíðaráherslur RÚV

Grundvallarmarkmið með starfsemi almannaþjónustumiðils hafa ekki breyst þó við upplifum örar samfélags- og tæknibreytingar. Á tímum þar sem erlent afþreyingarefni á erlendum tungum er á hverju strái er enn mikilvægara en fyrr að þjóðin hafi aðgengi að vönduðu innlendu efni úr okkar nærumhverfi, að í boði sé vandað efni á íslenskri tungu og æsku landsins bjóðist uppbyggilegt dagskrárefni í hæsta gæðaflokki, óháð búsetu og efnahag. Þörfin fyrir þjónustu öflugs Ríkisútvarps í flóru fjölbreyttra erlendra- og innlendra einkamiðla hefur því sjaldan verið meiri. Sem fyrr er gerð hin sjálfsagða krafa um hagkvæmni og áframhaldandi jafnvægi í rekstri. Nú og til framtíðar aukast væntingar um aðgengi hvar og hvenær sem er.

RÚV hefur verið samferða þjóðinni hingað til og ætlar að vera það áfram. Til að uppfylla nýjar þarfir þarf að forgangsraða enn skýrar en fyrr. Við skorum á þig að hjálpa okkur að móta þjónustuna við þig og næstu kynslóðir. Við höfum opnað gátt á forsíðu RÚV.is þar sem við hvetjum þig til að segja okkur hvað þér finnst. Því hvetjum við þig til að fara inn á RÚV.is, segja þína skoðun og vera þannig með í að móta framtíðina fyrir RÚV okkar allra.

Magnús Geir Þórðarson

Útvarpsstjóri

Greinin á uppruna sinn hér: Verum samferða inn í framtíðina

Magnús Geir Þórðarson
Magnús Geir Þórðarson
Magnús Geir Þórðarson er útvarpsstjóri.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR