Viðtal við Evu Maríu Daniels kvikmyndaframleiðanda í Bandaríkjunum

Eva María Daniels kvikmyndaframleiðandi.
Eva María Daniels kvikmyndaframleiðandi.

Eva María Daniels hefur um árabil starfað á vettvangi alþjóðlegrar kvikmyndagerðar og á undanförnum árum getið sér gott orð sem framleiðandi kvikmynda sem gerðar eru og fjármagnaðar af sjálfstæðum kvikmyndafélögum. Klapptré notaði tækifærið og ræddi við hana þegar hún var stödd hér á landi á dögunum.

Eva María er Reykvíkingur, nánar tiltekið úr Vogunum. Hún nam viðskiptafræði og síðan heimspeki við Háskóla Íslands en 2002 fór hún til Kaupmannahafnar þar sem hún lagði stund á nám í kvikmyndagerð. Þaðan lá leiðin til hins kunna eftirvinnslufyrirtækis The Mill í London.

„Ég var svo heppin að fá Sagafilm inn sem fyrsta kúnnann minn,“ segir Eva María. „Í kjölfarið bættust fleiri við og loks var ég komin með flesta auglýsingaleikstjóra á Íslandi sem viðskiptavini. Um miðjan síðasta áratug voru flest auglýsingaverkefni og bíómyndir tekin á filmu og ekki hægt að eftirvinna á Íslandi. Þessvegna lá leiðin oft til okkar og þannig kynntist ég mörgum íslenskum leikstjórum þó ég hafi aldrei unnið í bransanum á Íslandi. Ætli hluti ástæðunnar hafi ekki verið sú að það var auðvelt að taka upp símann og spjalla við íslensku stelpuna hjá The Mill. En þetta var æðislegur tími og ég á þessum íslensku kvikmyndagerðarmönnum mikið að þakka því þannig gat ég byggt upp minn kúnnahóp nokkuð hratt, erlendir leikstjórar sem voru að skjóta á Íslandi bættust svo við og einnig leikstjórar frá mörgum öðrum löndum. En boltinn fór semsagt fyrst að rúlla með samlöndum mínum.“

Richard Gere, Julianne Moore og Laura Linney meðal leikara í myndum Evu Maríu

Eftir nokkur ár í London réði Eva María sig til eftirvinnslufyrirtækisins Company 3 í Bandaríkjunum og var þar um skeið, en 2010 stofnaði hún sitt eigið framleiðslufyrirtæki, Eva Daniels Productions.

Meðal kvikmynda sem Eva María hefur komið að sem framleiðandi á síðustu árum eru Time Out of Mind eftir Oren Moverman með Richard Gere í aðalhlutverki og What Maisie Knew sem leikstýrt var af David Siegel og Scott McGehee og skartar Julianne Moore, Alexander Skarsgard og Steve Coogan í helstu hlutverkum.

Nýjasta mynd hennar, The Dinner, verður frumsýnd í haust en myndinni er leikstýrt af fyrrnefndum Oren Moverman auk þess sem Richard Gere fer með aðalhlutverk ásamt Laura Linney, Steve Coogan, Rebecca Hall og Chloe Sevigny.

Eva María á einnig hlut í þróunar- og fjármögnunarfyrirtækinu VisionChaos Productions ásamt svissneskum fjárfesti. Fyrirtækið sérhæfir sig í að fjárfesta í þróunarverkefnum með leikstjórum.

Komin í samstarf við A24

Síðastliðin tvö ár hefur Eva María svo unnið í samstarfi við hið athyglisverða bandaríska stúdíó A24 að þróun verkefna. Meðal mynda sem A24 hefur framleitt á allra síðustu árum eru t.d. American Honey (Andrea Arnold), The Lobster (Yorgos Lanthimos), The Witch (Robert Eggers), Room (Lenny Abrahamson), The End of the Tour (James Ponsoldt) , Amy (Asif Kapadia), Ex Machina (Alex Garland) og While We‘re Young (Noah Baumbach) – allt myndir sem vakið hafa mikla athygli og sumar þeirra hlotið Óskarsverðlaun og/eða verið tilnefndar.

Aðspurð um hvernig samstarfið við A24 hafi komið til, segir Eva María að eftir spjall fyrir um tveimur árum hafi tekist með þeim gott samstarf. „Ég byrjaði framleiðsluferilinn með því að vera meira í fjármögnun og kynntist framleiðslunni frá þeirri hlið en langaði að hafa meiri stjórn á þeim verkefnum sem ég var að fást við þannig að ég ákvað að fókusera meira á þróun. Eftir nokkur slík verkefni þar sem ég var komin í framleiðendahlutverkið, kom svo samstarfið við A24 til og við vinnum núna náið saman að því að finna verkefni og þróa þau til framleiðslu, smekkurinn er svipaður bæði hvað varðar efnisval og þá leikstjóra sem við höfum áhuga á að vinna með.“

Meðal þeirra verkefna sem Eva María og A24 eru að þróa í sameiningu eru ný verk eftir leikstjórann og handritshöfundinn James Ponsoldt (The Spectacular Now, The End of the Tour), leikstjórann JC Chandor (Margin Call, All is Lost, A Most Violent Year), leikstjórann Jeremy Saulnier (Blue Ruin, Green Room) og leikstjórann Cary Fukunaga (Beasts of No Nation, True Detective) en það verk er skrifað af Larry McMurtry og Diana Ossana sem meðal annars skrifuðu handritið að Brokeback Mountain. Auk þess eru fleiri verk í vinnslu sem á eftir að tilkynna um.

„Ég gæti ekki verið ánægðari með samstarfið við A24,“ segir Eva María. „Ég er ekki bundin þeim eingöngu og þeir ekki mér en þetta er ótrúlega þægilegt samstarf svo ég er fyrst og fremst að einbeita mér að verkefnum sem henta þeim í dreifingu, það er svo frábært að vinna með þeim.“

Fínt að vera kona í kvikmyndabransanum

Nú er kvikmyndabransinn fullur af körlum þvers og kruss, hvernig er að vera kona í þessum heimi?

„Það er bara fínt, allavega hef ég ekki upplifað neitt annað“, svarar Eva María. „Kannski er það vegna þess að ég ólst upp á Íslandi og hér eru konur gjarnan sterkar og sjálfstæðar auk þess sem fyrirmyndirnar eru víða, til dæmis Vigdís Finnbogadóttir sem var forseti Íslands þegar ég var að alast upp.

En ég er þó ekki að segja að það sé ekki oft erfitt fyrir konur í þessum bransa. Þær eru þó orðnar mjög áberandi í framleiðslu, nokkuð í skrifum en síður í leikstjórn. Það er reyndar mjög mikil umræða í Bandaríkjunum um þörfina á fleiri kvenkyns leikstjórum. Ég væri mikið til í að vinna með konu sem leikstjóra, þær eru margar góðar en ég hef ekki verið svo heppin að fá eina inn til mín enn. Ég er að bíða eftir henni,“ bætir hún við og brosir breitt.

Hinsvegar eru margar konur í hópi minna uppáhalds framleiðenda, til dæmis Riva Marker sem ég vann með að kvikmyndunum Goats, The Romantics og What Maisie Knew. Við erum einnig að þróa tvö ný verkefni saman núna.“

Hefur mikinn áhuga á að gera myndir á Íslandi

Talið berst að Íslandi. Eva María hefur reynt að koma reglulega heim, stundum árlega, stundum sjaldnar áður fyrr. Hana segist dreyma um vera á Íslandi með annan fótinn og stefnir að því að svo verði. En getur hún hugsað sér að gera kvikmyndir hér?

„Já, ég hef mikinn áhuga á því og er stöðugt að leita að tækifærum til þess,“ svarar hún. „En það er flóknara en að segja það. Hérna er einstakt landslag og verkefnið þarf virkilega að henta slíku umhverfi. Ég hef ekki áhuga á að gera myndir hér sem eiga til dæmis að gerast í Bandaríkjunum eða þess háttar. Ég vil vera trú umhverfinu.

Svo er tungumálið líka mikið atriði, það er flókið að setja saman fjármagn fyrir myndir á íslensku. Enskan yrði allavega að vera ráðandi ef maður er að fjármagna myndina eftir hefðbundna kerfinu í Bandaríkjunum þó það mætti hugsa sér að íslenskan væri með að einhverju leyti eftir því sem við á.

Ég vil þó nefna að Baltasar Kormákur hefur vissulega rutt brautina fyrir þennan möguleika og beint sjónum kvikmyndaheimsins að Íslandi, sérstaklega með Ófærð en einnig með Eiðinum sem nú er að koma og svo Djúpinu sem vakti mikla athygli á sínum tíma. Samt er það svo að slík verkefni verða ávallt „foreign films“ í Bandaríkjunum, hversu góð sem þau eru. Bandaríkjamenn eru að megninu til mjög andsnúnir textun, því miður. Sjóðakerfið í Evrópu er því gríðarlega mikilvægt þar sem það væri ekki hægt að fjármagna slíkar myndir í Bandaríkjunum að fullu.”

Varðandi íslenska kvikmyndagerð segist Eva dást að þeim árangri sem náðst hefur á undanförnum árum. „Ég hef fundið mjög sterklega fyrir því síðustu ár hve áhuginn á íslenskum myndum hefur aukist. Til dæmis hitti ég mikið af fólki úti nýlega sem sá Hrúta og hélt ekki vatni af hrifningu. Svo vil ég líka nefna hækkunina á endurgreiðslunni uppí 25%. Nú fer hún að verða samkeppnishæf við mun fleiri lönd en áður. Til dæmis er ég að þróa mynd núna í Kanada að hluta. Það hefði verið hægt að filma hana hér en málið er að Kanada býður uppá svo háar endurgreiðslur, allt að 52% af „below the line“ framleiðslukostnaði við vissar aðstæður – sem passa okkar verkefni , svo það er erfitt að réttlæta að færa hana hingað. En hækkunin hér mun breyta miklu fyrir komandi myndir. Og starfsfólkið hérna er mjög gott, alveg á heimsmælikvarða. Það heyrir maður víða að,“ segir Eva María að lokum.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR