Þessar bíómyndir og leiknu þáttaraðir eru væntanlegar á næstu misserum

Frá tökum á Rökkri Erlings Arnars Thoroddsen. (Mynd: Kristín María Stefánsdóttir)
Frá tökum á Rökkri Erlings Arnars Thoroddsen. (Mynd: Kristín María Stefánsdóttir)

Á þriðja tug íslenskra kvikmynda og þáttaraða er nú á mismunandi stigum vinnslu, allt frá því að vera í fjármögnunar- og/eða undirbúningsferli til þess að vera nýkomnar út og í sýningum. Hér er yfirlit yfir nýjar og væntanlegar bíómyndir og sjónvarpsþáttaraðir á þessu og næsta ári, en nokkuð víst er að fleiri verkefni eigi eftir að bætast við.

Þá er og rétt að benda á að hverju sinni eru margfalt fleiri verkefni í þróun hjá leikstjórum, handritshöfundum og framleiðendum í íslenskum kvikmyndaiðnaði. Það er hinsvegar viðmið Klapptrés að skýra ekki frá slíkum verkefnum fyrr en einhverskonar þróunaráfanga er náð og líkur séu á að verkefnið verði að veruleika innan tíðar. Þetta er þó ekki algilt og metið hverju sinni.


BÍÓMYNDIR 2016

Þegar hafa tvær kvikmyndir verið sýndar á árinu; Fyrir framan annað fólk eftir Óskar Jónasson og Reykjavík eftir Ásgrím Sverrisson. Líkur eru á að a.m.k. þrjár bætist við á árinu, sem yrði þá nokkur samdráttur í fjölda mynda miðað við undanfarin ár (8 myndir 2015 og 2014). Á næsta ári stefnir þó í að minnsta kosti 8-10 bíómyndir.

1217614_kormakurEiðurinn

Tökum er lokið á Eiðinum í leikstjórn Baltasars Kormáks. Ólafur Egill Egilsson skrifar handrit. Myndin segir af reykvískum lækni sem þarf að taka afdrifaríkar ákvarðanir þegar dóttir hans byrjar með hættulegum glæpamanni. Baltasar, Hera Hilmarsdóttir, Margrét Bjarnadóttir og Gísli Örn Garðarsson fara með helstu hlutverk. RVK Studios framleiðir. Frumsýning er ekki ákveðin en talað hefur verið um haustið.

Aðstandendur Snjór og Salóme.
Aðstandendur Snjór og Salóme.

Snjór og Salóme

Tökum er einnig lokið á rómantísku gamanmyndinni Snjór og Salóme sem gerð er af sömu aðilum og stóðu að Webcam 2015. Myndin fjallar um unga konu, Salóme, sem hefur átt í on/off sambandi við besta vin sinn og langverandi leigufélaga Hrafn. Allt breytist þegar Hrafn barnar aðra dömu, Ríkey og hún flytur inn. Sigurður Anton Friðþjófsson leikstýrir og skrifar handrit, Magnús Thoroddsen Ívarsson og Telma Huld Jóhannesdóttir framleiða. Stefnt er að því að sýna myndina í haust.

hjartasteinn-promo-landscapeHjartasteinn

Þessi fyrsta kvikmynd Guðmundar Arnars Guðmundssonar í fullri lengd er langt komin í eftirvinnslu og verður væntanlega sýnd á árinu, haustið sýnist líklegt. Sagan gerist yfir sumar í litlu sjávarþorpi á Íslandi og fjallar um sterka vináttu tveggja drengja sem eru að taka sín fyrstu skref inní unglingsárin og uppgötva ástina. Anton Máni Svansson framleiðir fyrir Join Motion Pictures.


ÞÁTTARAÐIR 2016

Þegar hafa þáttaraðirnar Ófærð úr smiðju Baltasars Kormáks og RVK Studios og Ligeglad Arnórs Pálma og Önnu Svövu Knútsdóttur í framleiðslu Arnars Knútssonar hjá Filmus verið sýndar á RÚV á árinu. Von er á að minnsta kosti tveimur þáttaröðum á RÚV næsta haust og heyrst hefur að bæði Skjárinn og Stöð 2 muni sýna slíkt efni á haustmánuðum. Það er þó óstaðfest.

Frá vinstri: Margrét Örnólfsdóttir, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Nina Dögg Filippusdóttir, Ragnar Bragason, Davíð Óskar Ólafsson, Árni Filippusson.
Frá vinstri: Margrét Örnólfsdóttir, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Nina Dögg Filippusdóttir, Ragnar Bragason, Davíð Óskar Ólafsson, Árni Filippusson.

Fangar

Ragnar Bragason er að hefja tökur á þessari þáttaröð sem sýnd verður á RÚV næsta vetur. Framleiðendur eru Davíð Óskar Ólafsson og Árni Filippusson fyrir Mystery Productions. Þáttaröðin fjallar um aðalpersónuna Lindu og hvernig líf hennar hrynur þegar hún er færð í kvennafangelsi í Kópavogi eftir að hafa ráðist á föður sinn, þekktan mann úr viðskiptalífinu og veitt honum lífshættulega áverka. Í fangelsinu, sem minnir meira á heimavist og er staðsett í blómlegu íbúðarhverfi við hlið leikskóla, hittir Linda fyrir aðrar konur sem hafa farið út af sporinu í lífinu, misharnaða glæpamenn sem allar hafa sögu að segja úr heimi grimmdar og ofbeldis. Handrit skrifa Margrét Örnólfsdóttir og Ragnar Bragason, en þáttaröðin er byggð á hugmynd Unnar Aspar Stefánsdóttur og Nínu Daggar Filippusdóttur.

borgarstjórinn posterBorgarstjórinn

Jón Gnarr fer með aðalhlutverkið og skrifar handritið að þessari tíu þátta röð sem verður á dagskrá Stöðvar 2 í vetur. Pétur Jóhann Sigfússon og Helga Braga Jónsdóttir fara einnig með stór hutverk. RVK Studios framleiðir.

Hulli 2

Hugleikur Dagsson og samstarfsfólk vinnur nú að annarri umferð þessarar þáttaraðar. RVK Studios framleiðir, en þættirnir verða á dagskrá RÚV í haust.

Stella Blómkvist

Heyrst hefur að Skjárinn muni sýna seríu næsta vetur sem byggð er á bókunum um Stellu Blómkvist. Óskar Þór Axelsson hefur verið orðaður við leikstjórnina.


BÍÓMYNDIR 2017

Erlingur Óttar Thoroddsen og aðrir aðstandendur Rökkurs.
Erlingur Óttar Thoroddsen og aðrir aðstandendur Rökkurs.

Rökkur

Tökum er lokið á hrollvekjunni Rökkur eftir Erling Óttar Thoroddsen, en þær fóru fram á Snæfellsnesi fyrr á árinu. Þetta er fyrsta mynd Erlings í fullri lengd en hann hefur nýlokið námi í kvikmyndaleikstjórn við Columbia University í New York. Óljóst er hvenær myndin verður sýnd en næsta ár sýnist ekki ólíklegt.

Svanurinn

Áætlað er að tökur á Svaninum í leikstjórn Ásu Helgu Hjörleifsdóttur hefjist í sumar. Þetta er fyrsta kvikmynd Ásu í fullri lengd. Birgitta Björnsdóttir og Hlín Jóhannesdóttir hjá Vintage Pictures framleiða. Byggt er á samnefndri skáldsögu Guðbergs Bergssonar. Afvegaleidd níu ára stúlka er send í sveit um sumar til að vinna og þroskast, en verður í staðinn lykilþátttakandi í atburðarrás sem hún skilur varla sjálf. Myndin verður væntanlega sýnd 2017.

Andið eðlilega

Stefnt er að því að hefja tökur á fyrstu bíómynd Ísoldar Uggadóttur með haustinu. Skúli Malmquist og Þórir Snær Sigurjónsson hjá Zik Zak kvikmyndum framleiða. Hælisleitandi frá Úganda á leið til Kanada verður strandaglópur í Keflavík þegar starfskona við vegabréfaeftirlit stöðvar hana vegna ófullnægjandi ferðaskilríkja. Um leið og hún berst við kerfið á Íslandi, tengist hún óvænt einstæðri móður í húsnæðisbasli, þeirri sömu og hneppti hana í varðhald á Leifsstöð. Myndin verður væntanlega sýnd 2017.

Undir halastjörnu

Áætlað er að þessi fyrsta bíómynd Ara Alexanders Magnússonar fari í tökur í haust. Friðrik Þór Friðriksson er einn af framleiðendum myndarinnar en yfirumsjón framleiðslunnar er í höndum Leifs B. Dagfinnssonar og Kristins Þórðarsonar hjá Truenorth. Sagan byggir að miklu leyti á líkfundarmálinu í Neskaupstað árið 2004. Lit­há­inn Vai­das Jucevicius, kom til lands­ins 2. fe­brú­ar 2004 með um 400 grömm af ætluðu am­feta­míni í um það bil 60 plast­hylkj­um sem hann hafði gleypt. Vai­das lést vegna stíflu í mjógirni. Hann hafi veikst fljót­lega eft­ir að hann kom til lands­ins af völd­um hylkj­anna sem hann bar inn­vort­is. Lík hans var sett í plast­poka, vafið inn í teppi og flutt í bíla­leigu­bíl til Nes­kaupstaðar þar sem því var fleygt í höfn­ina. Níu dögum eftir að líkið fannst voru þrír menn handteknir. Þeir voru síðar dæmdir í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir innflutning á amfetamíni, fyrir að koma Vaidasi ekki til aðstoðar og fyrir illa meðferð á líki hans.

Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Anna Gunndís Guðmundsdóttir, Ágústa Eva Erlendsdóttir og Óskar Þór Axelsson við tökur á Ég man þig. (Af Instagram síðu Óskars)
Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Anna Gunndís Guðmundsdóttir, Ágústa Eva Erlendsdóttir og Óskar Þór Axelsson við tökur á Ég man þig. (Af Instagram síðu Óskars)

Ég man þig

Enn á eftir að klára tökur á þessum spennutrylli Óskars Þórs Axelssonar og er áætlað að það verði í haust. Byggt er á skáldsögu Yrsu Sigurðardóttur. Zik Zak framleiðir ásamt Sigurjóni Sighvatssyni. Ungt fólk sem er að gera upp hús á Hesteyri um miðjan vetur fer að gruna að þau séu ekki einu gestirnir í þessu eyðiþorpi. Á Ísafirði dregst nýji geðlæknirinn í bænum inní rannsókn á sjálfsmorði eldri konu, en svo virðist hún hafi verið heltekin af syni hans sem hvarf fyrir nokkrum árum og fannst aldrei. Frumsýning verður væntanlega 2017.

Snæfríður Ingvarsdóttir er Alma í samnefndri kvikmynd Kristínar Jóhannesdóttur. (Ljósmynd: Máni Hrafnsson)
Snæfríður Ingvarsdóttir er Alma í samnefndri kvikmynd Kristínar Jóhannesdóttur. (Ljósmynd: Máni Hrafnsson)

Alma

Seinnihluti upptöku á kvikmynd Kristínar Jóhannesdóttur fer fram síðar á árinu. Framleiðandi er Guðrún Edda Þórhannesdóttir hjá Tvíeyki. Alma er örlagasaga ungrar konu sem er lokuð inni á réttargeðdeild eftir að hafa játað á sig morð á kærasta sínum án þess þó að muna eftir þeim atburði. Eftir sjö ár berast þær fréttir að kærastinn sé sprellifandi og á leið til landsins. Hún ákveður að drepa hann þar sem hún er hvort sem er búin að afplána dóm fyrir glæpinn. Með helstu hlutverk fara Snæfríður Ingvarsdóttir, Snorri Engilbertsson, Emmanuelle Riva og Kristbjörg Kjeld. Myndin verður væntanlega sýnd 2017.

lói-ploe-teaserposterLói – þú flýgur aldrei einn

Teiknimyndin Lói – þú flýgur aldrei einn er nú í vinnslu undir stjórn Árna Ólafs Ásgeirssonar og Gunnars Karlssonar. Hilmar Sigurðsson hjá GunHil framleiðir og Friðrik Erlingsson skrifar handrit. Lói er síðastur lóuunga af fjórum til að klekjast úr eggi og á erfitt uppdráttar frá upphafi. Þegar haustar og fjölskyldan ferðbýr sig til að fara suður á bóginn á hlýrri slóðir, þá er Lói ekki enn búinn að læra að fljúga. Hann þarf því að takast á við harðan vetur, grimma óvini og önnur vandamál, ásamt nýjum vinum sínum. Áætlað er að myndin komi út haustið 2017.

Undir trénu

Hafsteinn Gunnar Sigurðsson hlaut nýverið vilyrði frá Kvikmyndamiðstöð vegna kvikmyndarinnar Undir trénu, en handrit skrifar Huldar Breiðfjörð, sem einnig skrifaði fyrri mynd Hafsteins, París norðursins. Klapptré hefur áður sagt frá þessu verkefni. Myndin fjallar um nágrannadeilu sem fer gjörsamlega úr böndunum. Tökur hefjast í sumar og verður myndin væntanlega sýnd á næsta ári. Grímar Jónsson hjá Netop Films framleiðir.


 

VILYRÐI 2017:

Eftirtalin verkefni hafa fengið vilyrði 2017. Tökur fara því fram í fyrsta lagi á næsta ári og alls óvíst á þessu stigi hvort þær verði sýndar á því ári eða síðar. Nokkur fjöldi mynda á síðan væntanlega eftir að bætast í hópinn.

Ævinlega velkomin

Guðný Halldórsdóttir fékk nýlega vilyrði frá sjóðnum til að gera kvikmyndina Ævinlega velkomin. Myndin segir frá því þegar íslensk fyrirsæta fer fram á það við indverska konu að hún gangi með barn fyrir sig gegn greiðslu. Hún er að hluta til byggt á upplifun leikstjórans sjálfs þegar indversk fjölskylda fluttist í Mosfellsdalinn fyrir 25 árum. Halldór Þorgeirsson framleiðir fyrir Umba.

Tryggðarpantur

Ásthildur Kjartansdóttir hefur fengið vilyrði frá KMÍ til að gera sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd. Eva Sigurðardóttir framleiðir fyrri Askja Films. Byggt er á samnefndri skáldsögu Auðar Jónsdóttur. Gísella Dal fær dag einn þær fréttir að ríkulegur arfurinn frá ömmu hennar sé upp urinn og hún gæti þurft að fórna lífsstíl sínum og fara að vinna fyrir sér. Henni hugkvæmist að fá sér leigjendur og sagan lýsir síðan sambúð fjögurra kvenna þar sem teflt er saman ólíkum heimum og varpað fram spurningum um lífsgildi, lífsviðhorf og lífsblekkingu.

Vargur

Börkur Sigþórsson hefur fengið vilyrði vegna fyrstu bíómyndar sinnar, sem á ensku kallast Mules. Myndin segir frá tveimur bræðrum sem skipuleggja eiturlyfasmygl til Íslands og fá unga pólska stúlku til að gerast burðardýr. Klapptré hefur áður skýrt frá þessu verkefni, meðal annars hér. RVK Studios framleiðir, breska sölufyrirtækið West End Films sér um sölu á heimsvísu og hér má sjá útlistun þeirra á verkefninu.


 

ERLEND VERKEFNI

Fast 8

Tökum er að ljúka á Fast 8, áttundu myndinni í hinum vinsæla myndabálki Fast and the Furious. Þær hafa farið fram við Mývatn og á Akranesi. Mörg hundruð manns, bæði Íslendingar og aðrir koma að verkefninu hér á landi. True North þjónustar verkefnið.

Fortitude

Tökum er einnig að ljúka á Reyðarfirði á annari umferð þáttaraðarinnar Fortitude, en þær hafa staðið frá ársbyrjun með hléum. Pegasus þjónustar verkefnið.


Rétt er að taka fram að ritstjóri Klapptrés er jafnframt leikstjóri og handritshöfundur kvikmyndarinnar Reykjavík.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR